Speedwell blue (1995)

Pöbbasveitin Speedwell blue starfaði í nokkra mánuði árið 1995 og lék mjög víða um land á þeim tíma.

Sveitin var stofnuð vorið 1995 af Englendingnum Eric Lewis söngvara og gítarleikara sem hér var staddur og fékk hann til liðs við sig Brynjar Brynjólfsson bassaleikara og Hafþór Guðmundsson trommuleikara sem léku með honum fyrst um sinn. Annar Englendingur, Grant Pomeroy tók sæti Brynjars og Helgi Víkingsson tók við trommunum af Hafþóri og þannig var tríóið lengst af skipað um sumarið þar sem sveitin fór víða um land og lék einnig mjög mikið á höfuðborgarsvæðinu, en blústónlist mun hafa verið áberandi í lagavali sveitarinnar.

Síðsumars tók Kristinn J. Gallagher við af Pomeroy og þannig lék sveitin fram í október þegar þeir yfirgáfu landið og héldu til Newcastle á Englandi þar sem þeir spiluðu eitthvað undir nafninu Eric and the vikings. Sveitin hafði hljóðritað nokkur lög um sumarið hér á Íslandi og ætlaði að gefa út en af þeirri útgáfu varð aldrei. Sveitin virðist ekki hafa verið starfrækt lengi í Newcastle um haustið því fáeinum vikum síðar voru þeir Helgi og Kristinn komnir heim og farnir að leika með öðrum hljómsveitum.