Örkin hans Nóa (1993-95)

Örkin hans Nóa1

Örkin hans Nóa

Sveitaballabandið Örkin hans Nóa var áberandi í Hvaðeraðgerast-dálkum dagblaðanna á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar en sveitin spilaði mikið á því tímabili.

Örkin var stofnuð í ársbyrjun 1993 og varð fljótlega tíður gestur á dansstöðum bæjarins og á pöbbum landsbyggðarinnar. Sveitin keyrði á ballöðu sem var á safnplötunni Landvættarokk sem kom út um sumarið og naut nokkurra vinsælda, og sama sumar átti sveitin lag á annarri safnplötu, Íslensk tónlist 1993, sem fór þó minna fyrir.

Meðlimir sveitarinnar voru söngvarinn Arnar Freyr Gunnarsson söngvari og gítarleikari sem nokkrum árum áður hafði sigrað í söngvarakeppninni Látúnsbarkanum í síðara skiptið sem hún var haldin, en aðrir Arkar-liðar voru Hróbjartur Gunnarsson bassaleikari (Lótus o.fl.), Steinar Helgason trommuleikari (Hugmynd o.fl.), Sævar Árnason gítarleikari (Pops, Stofnþel o.fl.) og Sigurður Ragnarsson hljómborðsleikari.

Eitthvað hélst sveitinni illa á bassaleikurum og um mitt sumar var Stefán Ingólfsson (J.J. Soul band o.fl.) tekinn við bassanum af Hróbjarti. Sá staldraði þó stutt við og nokkrum vikum síðar var Kristinn Gallagher (Dalton, Spútnik o.fl.) kominn á bassagítarinn. Þannig skipuð lék sveitin fram undir árslok 1993 þegar nýr trymbill, Helgi Víkingsson (Ofris, Dans á rósum o.fl.) var sestur bak við settið.

Örkin lék áfram fram á haust 1994 en þá virðist sem þreyta hafi verið komin í mannskapinn. Sveitin fór í pásu og sást ekki meir ef frá er skilið gigg um mitt næsta sumar, 1995. Þá var liðsskipan óbreytt utan þess að Þórir Úlfarsson sat við hljómborðið í stað Sigurðar Ragnarssonar.

Síðan hefur ekkert til Arkarinnar hans Nóa spurst.