Afmælisbörn 14. júlí 2022

Engel Lund

Glatkistan hefur í fórum sínum upplýsingar um þrjú afmælisbörn úr tónlistargeiranum:

Kolbeinn Bjarnason flautuleikari er sextíu og fjögurra ára gamall í dag. Kolbeinn nam hér heima en einnig í Bandaríkjunum, Kanada og Sviss en hefur starfað á Íslandi megnið af sínum ferli. Hann var einn af stofnendum Caput hópsins og hefur sent frá sér plötur í eigin nafni sem og með öðrum, auk þess að hafa leikið á fjölda platna annarra listamanna bæði í poppheiminum og hinum klassíska.

Grétar Magnús Guðmundsson (Meistari Tarnús) tónlistar- og myndlistarmaður er sjötíu og átta ára gamall á þessum degi. Hann starfaði sem trommuleikari með fjölda hljómsveita hér fyrrum (t.d. Tríó 72, Hljómsveit Þorvaldar Björnssonar, Hljómsveit Rúts Hannessonar, Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonaen o.fl.) en kom einnig fram einn með skemmtara ásamt því að syngja.

Engel (Gagga) Lund (1900-96) hefði einnig átt afmæli á þessum degi, hún var dönsk en fædd hér á landi svo hún hafði alltaf taugar hingað. Hún varð þekkt þjóðlagasöngkona, starfaði víða um heim og lagði alltaf áherslu á íslensk þjóðlög, sem hún lagði sig sérstaklega fram við að kynna á erlendri grundu. Síðar kom hún heim til Íslands (1960) og kenndi hér söng allt til dauðadags. Hérlendis komu út plötur með söng Göggu en einnig hafa komið út plötur sem tileinkaðar eru starfi hennar.

Vissir þú að á Eurovision smáskífu Páls Óskars af laginu Minn hinsti dans, er að finna útgáfu af Duran Duran laginu A view to a kill?