SSSól (1987-)

Síðan skein sól

Hljómsveitin Síðan skein sól / SSSól er með þekktustu og vinsælustu ballsveitum íslenskrar tónlistarsögu með fjölda vinsælla platna og laga að baki með Helga Björnsson sem frontmann. Sveitin var þó upphaflega stofnuð fyrst og fremst sem tónleikasveit og starfaði sem slík fyrst um sinn, hún hefur aldrei hætt og þrátt fyrir að hafa ekki sent frá sér hljóðversplötu síðan 1994 hefur sveitin reglulega minnt á sig með útgáfu laga þótt þeim skiptum hafi reyndar fækkað allra síðustu árin.

Saga sveitarinnar nær allt aftur til ársins 1987 en hún var stofnuð í janúar það ár. Aðdragandinn að stofnun hennar var með þeim hætti að Helgi Björnsson hafði verið söngvari hljómsveitarinnar Grafíkur frá Ísafirði og Jakob Smári Magnússon hafði leikið á bassa með þeirri sveit einnig, Grafík hafði notið töluverðra vinsælda og sent frá sér nokkur vinsæl lög sem Helgi söng en vorið 1986 höfðu félagar hans fengið nóg af honum og ráku hann – Jakob hætti þá um svipað leyti. Jakob gekk strax til liðs við MX-21 sem var nýjasta sveit Bubba Morthens en þeir höfðu starfað saman áður í Das Kapital, en Helgi einbeitti sér að Þjóðleikhúsinu enda lærður leikari. Helgi var þó ekki að fullu sáttir við að vera hættur í tónlistinni og í einhverju spjalli við Pétur Grétarson sem einnig var þar að störfum töluðu þeir um að stofna hljómsveit en Pétur hafði þá starfað með sveitum eins og Smartbandinu en var öllu þekktari sem djasstrommari. Það varð úr í kjölfarið að Helgi hringdi í Jakob sem þá var einmitt að bræða með sér að stofna band með Eyjólfi Jóhannssyni gítarleikara en þeir félagar höfðu verið saman í Tappa tíkarrass nokkrum árum fyrr. Þar með var grunnurinn að hljómsveitinni kominn með þá Helga, Pétur, Jakob og Eyjólf innanborðs en hún var stofnuð snemma árs 1987 sem fyrr segir.

Sveitin birtist opinberlega í mars og hafði þá fengið nafnið Síðan skein sól, fyrsta giggið var undir lok mánaðarins í Hlaðvarpanum þar sem hún lék ásamt fleiri sveitum fyrir troðfullu húsi. Tónlistin féll strax í góðan jarðveg en hún var þá skilgreind sem hrátt og einfalt rokk og söngstíll Helga og látbragð þótti minna á Mick Jagger, sú mynd átti eftir að verða nokkur fastmótuð þrátt fyrir að tónlist sveitarinnar ætti eftir að breytast töluvert.

Þeir félagar voru staðráðnir í að láta til sín taka og sanna sig á markaðnum og e.t.v. hafði brottrekstur Helga úr Grafík eitthvað um það að segja en hann hefur alltaf verið andlit sveitarinnar út á við, þeir félagar sömdu tónlistin frá upphafi saman en Helgi var yfirleitt sá sem gerði textana.

Síðan skein sól 1988

Ekki leið á löngu þar til sveitin hafði hljóðritað lag (Skemmtileg nótt) sem kom út á styrktar-safnplötunni Vímulaus æska um vorið og það er fyrsta lag hennar, það hefur aldrei aftur verið gefið út og því mætti segja að eintök af þessari plötu gætu á einhverjum tímapunkti orðið eftirsótt. Lagið fékk nokkra spilun í útvarpi og Síðan skein sól lék á nokkrum tónleikum í kjölfarið m.a. á Hótel Borg ásamt Rauðum flötum, og á próflokahátíð í Tónabæ og á 17. júní tónleikum í Laugardalshöll ásamt fleiri hljómsveitum. Eftir þjóðhátíðartónleikana fór sveitin í pásu og hugðist fara á fullt aftur um haustið, fara í hljóðver og gefa út plötu fyrir jólin en þá kom í ljós að Pétur trommari hafði lítinn tíma en hann var þá hlaðinn verkefnum, var m.a. að leika með hljómsveit sem kölluð var Blúsbræður og lék tónlist úr kvikmyndinni The Blues brothers – sú sveit varð svo að Sálinni hans Jóns míns fáeinum mánuðum síðar. Það varð því úr að þeir Sólarmenn litu í kringum sig eftir trommuleikara og hann fundu þeir um áramótin, hinn sautján ára Ingólf Sigurðsson sem þá hafði verið trommuleikari Rauðra flata og fleiri sveita og þótti afar efnilegur.

Síðan skein sól birtist aftur á sviði í mars 1988 þegar þeir félagar léku ásamt Frökkunum í Lækjartunglinu og í kjölfarið á því lék sveitin á nokkrum félagsmiðstöðvatónleikum út vorið. Þá fóru þeir í útgáfuþreifingar og úr varð að sveitin gerði samning við Skífuna um útgáfu smáskífu (12 tommu) um sumarið sem þeir unnu í samstarfi við Tómas Tómasson.

Á þessum fyrstu mánuðum lék Síðan skein sól einvörðungu á tónleikum og um þetta leyti voru lög eins og Blautar varir, Bannað, Geta pabbar ekki grátið og Mála bæinn rauðan komin á prógramm sveitarinnar en tvö fyrst töldu lögin komu út á þriggja laga smáskífunni (Blautar varir í tveimur útgáfum) um sumarið og urðu bæði töluvert vinsæl, skífan hlaut ágæta dóma í Alþýðublaðinu. Þess utan lék sveitin gjarnan lög sem Helgi hafði gert vinsæl með Grafík eins og Húsið og ég (mér finnst rigningin góð) sem margir halda að sé upphaflega með Sólinni, Himnalagið og Þúsund sinnum segðu já.

Síðan skein sól

Þegar kom fram á sumarið fékk Helgi meira frí frá leikhúsinu og þ.a.l. gat sveitin spilað víðar, þeir félagar léku t.a.m. á Listapopp-tónleikunum í Laugardalshöll ásamt fleiri sveitum sem hituðu upp fyrir The Christians og á þeim tónleikum og reyndar oftar nutu þeir aðstoðar munnhörpuleikarans Sigurðar Sigurðarsonar sem hafði komið við sögu á smáskífunni og eitthvað kom Pétur fyrrverandi meðlimur sveitarinnar fram með þeim sem slagverksleikari. Einnig lék sveitin á útitónleikum á Miklatúni undir yfirskriftinni Frelsum Mandela svo dæmi séu tekin. Hljómsveitin þótti afar góð á sviði og lífleg, og var þáttur Helga söngvara ekki hvað sístur en hann nýtti sér óspart reynsluna úr leikhúsinu til að ná sambandi við áhorfendur.

Strax að lokinni verslunarmannahelgi fór sveitin í hljóðrita í Hafnarfirði í upptökur á stórri plötu sem átti að koma út um haustið, að einhverju leyti var efnið samið í hljóðverinu og þar unnu þeir með gamalreyndum upptökumanni, Bretanum Tony Clark sem hafði unnið með mörgum þekktum tónlistarmönnum í gegnum tíðina. Fyrirfram töluðu liðsmenn sveitarinnar um að líklega yrðu tólf lög hljóðrituð og tíu þeirra myndu verða á vínyl-útgáfunni en tvö aukalög á kassettu- og geisladiskaútgáfunni en þegar platan kom svo út í nóvember reyndust allar útgáfur hafa sama lagafjöldann þótt röð þeirra væri ekki sú sama eftir útgáfuformi.

Platan sem bar nafn sveitarinnar fékk ágæta dóma í DV og Alþýðublaðinu og seldist strax vel, hafði farið í um 5000 eintökum fyrir jól og endaði í fimmta sætinu yfir söluhæstu plötur ársins. Lög eins og Geta pabbar ekki grátið, Svo marga daga, Ljóshærður og Mála bæinn rauðan urðu vinsæl og sveitin gerði sitt í því að halda fólkinu heitu með spilamennsku um allt, útgáfutónleikar voru haldnir í Tunglinu en sveitin lék jafnframt víða í framhaldsskólum, þá lék hún einnig á tónleikum sem Rás 2 hélt í tilefni af fimm ára afmæli stöðvarinnar og fór m.a.s. til Kaupmannahafnar til að spila fyrir Íslendingafélagið þar.

Eftir áramótin 1988-89 var Sólin mikið á ferðinni fram undir vor en hóf þá upptökur á nýju efni með Tony Clark, þá hafði verið ráðgert að fara um landið um sumarið með órafmagnað prógramm, þrjá gítara og með Ingólf á ásláttarhljóðfæri og harmonikku, það var því ljóst að tónlistin á nýju plötunni yrði í þá áttina. Tvö lög komu út snemma sumars 1989 á safnplötunni Bjartar nætur og urðu eins konar forsmekkur að því sem koma skyldi, lögin tvö – Dísa og Leyndarmál urðu stórsmellir sumarsins og ýttu undir aðsókn í órafmögnuðu tónleikaferðinni þar sem þeir félagar léku á um tuttugu tónleikum á þremur vikum. Sjónvarpið fylgdi sveitinni eftir að hluta til austur á landi og gerði þátt um ferðalagið sem var svo á dagskrá miðilsins um sumarið 1990. Sveitin tróð svo upp í Húnaveri um verslunarmannahelgina.

Síðan skein sól ásamt Tony Clark

Sumarið 1989 voru fyrstu drög lögð að því að komast á erlendan markað en Tony Clark hjálpaði til við að mynda sambönd við Bretland, einhverjar upptökur voru sendar utan í því skyni til að kanna hljómgrunninn. Sólin lék svo á tónleikum fram í september en lagðist þá í áframhaldandi upptökur á nýrri plötu sem kom svo út í nóvember undir titlinum Ég stend á skýi. Nýja platan þótti ekki eins rokkuð og fyrsta breiðskífan enda voru órafmögnuð hljóðfæri mun meira áberandi á nýju plötunni eins og sumartúrinn hafði borið vitni um, þar voru aukinheldur hljóðfæri eins og strengir áberandi, jafnvel mandólín og þótti tónlistin jafnvel þjóðlagakennd á köflum.

Ég stend á skýi fékk almennt góðar viðtökur gagnrýnenda dagblaða og tímarita, ágæta dóma í Þjóðlífi og DV, þokkalega í Morgunblaðinu en fremur neikvæða í Þjóðviljanum, hún seldist afar vel og varð með þeim söluhæstu það árið, seldist í um 8000 eintökum og almennt skoraði sveitin hátt í ársuppgjöri fjölmiðlamanna.

Platan var tólf laga en á kassettu- og geisladiskaútgáfunni voru tvö aukalög, Leyndarmál og Bannað, Dísa (sem kom út á safnplötunni Bjartar nætur) hefur hins vegar aldrei komið út á plötum hljómsveitarinnar þrátt fyrir hinar miklu vinsældir sumarið 1989. Vinsælustu lög plötunnar voru Ég verð að fá að skjóta þig sem skaust strax á topp Íslenska listans en í kjölfarið fylgdu lög eins og Saman á ný og titillagið Ég stend á skýi, einnig heyrðust lög eins og Kartöflur og Taktu mig með spiluð stöku sinnum í útvarpi en Ragnhildur Gísladóttir syngur á móti Helga í síðast talda laginu.

Menn voru sem fyrr segir með útrás í huga og á þessum tímapunkti var á döfinni að fara haustið eftir (1990) á tónleikatúr um Skandinavíu og Evrópu, undirbúningur fór á fullt og m.a. stóð til að snara lögum sveitarinnar yfir á ensku.

Sveitin fylgdi eðlilega þessum miklu vinsældum eftir með spilamennsku og kom m.a. fram ásamt Bubba Morthens í Laugardalshöll á tónleikum gegn ofbeldi rétt fyrir jólin en einnig kom Sólin fram í þætti Hemma Gunn, Á tali. Eftir áramótin var haldið áfram á fullum krafti en upp frá þessu má segja að Síðan skein sól hafi farið að leika mun meira á dansleikjum en áður var, í stað tónleika. Í mars 1990 tók hljómsveitin upp þrjú lög sem komu á safnplötunni Hitt og þetta: aðallega hitt alla leið snemma sumars, upphaflega áttu lögin aðeins að vera tvö (Vertu þú sjálfur og Hvursu lengi) en ákveðið var að bæta þriðja laginu við (Mér finnst það fallegt) þegar það varð óvænt vinsælt en lagið var úr leikritinu Eldhestur á ís (e. Elísabetu Jökulsdóttur) sem sýnt var á vegum Frjálsa leikhópsins í Borgarleikhúsinu en sveitin sá þar um tónlistina. Aukinheldur var aukalag á geisladisaútgáfu safnplötunnar, lagið Vertu þú sjálfur í órafmagnaðri útgáfu – öll lögin urðu vinsæl.

Sólin 1990

Snemma sumars lék Síðan skein sól ásamt Sálinni hans Jóns míns, Nýdanskri og Stjórninni á landsmóti UMFÍ í Mosfellsbæ en sveitirnar fjórar má segja að hafa þá borið höfuð og herðar yfir aðra popphljómsveitir í vinsældum um þær mundir, Sólin, Sálin og Nýdönsk höfðu allar gefið út vinsælar plötur fyrir jólin 1989 en Stjórnin hafði um vorið lent í fjórða sæti Eurovision og var að gefa út vinsæla plötu um þetta leyti – þetta var líkast til eina skiptið sem sveitirnar fjórar léku á sömu hátíðinni. Sólin tók einnig eins og margar aðrar sveitir þátt í Rokkskóga-verkefninu svokallað um sumarið og svo var talið í stóran sumartúr undir yfirskriftinni Vertu þú sjálfur. Afturhvarf til hippatímans var þá í tísku og almennt síkkaði hár yngri kynslóðanna töluvert auk þess sem hippafatnaður og -skreytingar náðu miklum vinsældum, tónlistin breyttist þó ekki að marki í þá áttina og helst var að Jet Black Joe reru á þau mið. Þegar Síðan skein sól kynnti sumartúrinn til sögunnar var það gert á Miklatúni í úrhellisrigningu og þá færðist leikurinn út á gatnamót Lönguhlíðar og Miklubrautar þar sem hippaklædd hljómsveitin og fylgifiskar hennar auk áhorfenda stöðvuðu umferðina með hljóðfæraleik og söng, skiltum þar sem frjálsar ástir, blóm og friður voru boðuð, líklega þó við fremur jákvæðar undirtektir vegfarenda. Tiltækið vakti mikla athygli enda var fjölmiðlum boðið til veislunnar.

Síðan skein sól lék víða um sumarið í samkeppni við hin stóru böndin sem öll stóðu þetta sumar í stappi við sýslumenn á landsbyggðinni vegna þess að þeim var gert að greiða virðisaukaskatt af svokölluðum miðnæturtónleikum eins og um dansleiki væri að ræða, sveitirnar brugðu á það ráð að raða upp stólum eins og um tónleika væri að ræða en tónleikagestirnir voru þó ekki lengi að ryðja þeim burtu. Sveitin lék í Húnaveri um verslunarmannahelgina eins og sumarið á undan.

Framundan var hljóðversvinna en þarna var ráðgert að koma með plötu fyrir jólin enda hafði sveitin aðeins sent frá sér lög á safnplötu um sumarið. Að þessu sinni var ekkert verið að slaka á í spilamennskunni þó svo að upptökur stæðu yfir og sveitin lék á fjölda framhaldsskólaböllum um haustið, að þessu sinni var enginn Tony Clark við upptökustjórnvölinn heldur höfðu þeir ákveðið að vinna plötuna sjálfir. Ekkert varð úr Skandinavíu- og Evróputúrinn sem planaður hafði verið en sveitarmeðlimir höfðu þó yfirið nóg að gera, og m.a. lék Helgi í sjónvarpsmyndinni Litbrigði jarðarinnar (byggð á samnefndri sögu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar) og þar kom reyndar sveitin öll fram í gervi vegavinnuflokks og tók þar lagið Ramóna.

Platan kom svo út í nóvember og var töluvert rokkaðri en Ég stend á skýi, nýja platan hét Halló, ég elska þig og þar var augljóslega haldið áfram með hippatenginguna með titilinn (sbr. Hello, I love you með The Doors) en ástin var þar í forgrunni. Platan hlaut góðar viðtökur eins og flest það sem sveitin hafði gert fram að þessu og lög eins og Nóttin, hún er yndisleg og titillagið Halló, ég elska þig birtust fljótlega á vinsældalistum, Íslenska listanum og Pepsi listanum. Gagnrýnendur voru einnig jákvæðir og platan fékk mjög góða dóma í Degi og Morgunblaðinu og ágæta í DV og Þjóðlífi,  hún seldist jafnframt í um 8000 eintökum og varð í öðru sæti á eftir Bubba Morthens í plötusölu ársins en plötusala var almennt miklu minni en árið á undan.

Síðan skein sól

Sem fyrr segir hafði sveitin verið á fullu allt haustið (og sumarið á undan) samhliða plötuupptökum en nú þegar platan kom út var enn hert á keyrslunni og síðustu vikurnar fyrir jól spilaði sveitin þrisvar til fjórum sinnum í viku auk þess að vinna myndbönd, veita viðtöl, áritanir og annað sem slíkri útgáfu fylgir, í lok árs taldist þeim til að þeir hefðu spilað 200-250 sinnum á árinu. Það var því eðlilegt að sveitin færi í langþrátt frí að törninni lokinni eftir áramótin.

Síðan skein sól hvíldi sig (og markaðinn) fram eftir árinu 1991 og birtust ekki aftur fyrr en í apríl þegar sveitin lék sem gestasveit á Músíktilraunum. Meðlimir sveitarinnar sinntu ýmsum verkefnum á meðan, Helgi starfaði í leikhúsinu og Ingólfur hóf að leika með hljómsveitinni Orgill og fór m.a. með þeirri sveit til Frakklands á meðan. Enn var útrásarferð á dagskránni en nú var hún ráðgerð um haustið, fram að því ætluðu þeir félagar að senda frá sér plötu og leika á dansleikjum sem fyrr og svo var talið í um vorið og farið á fullt enda voru þeir ferskir og endurnærðir eftir nokkurra mánaða pásu frá sveitinni. Sumarið var nokkuð gott tónlistarlega séð enda var í gangi átak sem bar yfirskriftina Íslenskt tónlistarsumar, sveitin lék á fjölda dansleikja en einnig m.a. á minningartónleikum um Karl J. Sighvatsson sem hafði látist í bílslysi um vorið. Um verslunarmannahelgina tróð sveitin upp í Húnaveri og var þar meðal þeirra sem héldu utan um hátíðina en aðsóknin brást og vildu menn meina að neikvæð fjölmiðlaumfjöllun hefði þar haft áhrif.

Að þessu sinni var ráðist í gerð í plötu sem að nokkru leyti var tekin upp „live“ á tónleikum á skemmtistaðnum 1929 á Akureyri, á þeim tímapunkti hafði gítarleikarinn Þorsteinn Magnússon (bróðir Jakobs) bæst í hópinn en hann hafði þá leikið með sveitum eins og Eik og Þeyr. Þorsteinn staldraði ekki lengi við í sveitinni en þó nógu lengi til að koma við sögu á plötunni, sem hlaut nafnið Klikkað og kom út rétt fyrir verslunarmannahelgina. Það var líklega á þessum tónleikum sem frasinn „Eru‘ ekki allir sexí?“ varð til, þá öskraði Helgi þessi orð til að kynna lagið Blautar varir en í því lagi kemur fyrir hendingin – „blautar varir, segja mér að þú sért sexí“.

Ásamt tónleikaupptökunum frá 1929 voru fimm ný lög á plötunni tekin upp í hljóðveri, alls tíu laga plata. Nýju lögin Kannski og Klikkað urðu töluvert vinsæl en einnig voru live-upptökurnar töluvert spilaðar á útvarpsstöðvunum, Húsið og ég (mér finnst rigningin góð) var meðal þeirra og ýtti enn frekar undir að fólk tengdi lagið við Sólina en ekki Grafík. Klikkað (sem einnig var yfirskrift sumartúrs sveitarinnar) fékk góða dóma í Þjóðlífi og þokkalega í Æskunni, hún seldist þokkalega eða í um 2000 eintökum sem þótti dágott af sumar-tónleikaplötu. Síðsumars var svo sýndur sjónvarpsþáttur sem tekinn hafði verið upp á tónleikunum í 1929.

Síðan skein sól 1991

Um haustið var loks komið að því að fara utan og spila, London var ákvörðunarstaðurinn og þar lék sveitin á fimm tónleikum á jafnmörgum stöðum undir nafninu Here comes the sun, sem er auðvitað skírskotun í Bítlana. Ekkert kom fram í fjölmiðlum um árangurinn af ferðinni og meðlimir sveitarinnar voru heldur ekki með neinar yfirlýsingar en þeim mun meira var unnið bak við tjöldin. Sólin hafði ákveðið að fara í langa pásu í nóvember eftir Lundúnaferðina en sú pása varð að engu og sveitin var á fullu fram að áramótum, lék m.a. í Laugardalshöllinni með litlum fyrirvara á undan Bryan Adams.

Þótt lítið færi fyrir Síðan skein sól framan af árinu 1992 var unnið nokkuð sleitulítið að útgáfumálum sveitarinnar erlendis enda vildu þeir takast á við nýjar áskoranir, búnir að gera allt hér heima sem hægt var að gera og ná öllum sínum markmiðum. Þeir félagar höfðu þá verið í sambandi við lítið útgáfufyrirtæki – Deva records sem bauð þeim útgáfusamning og fyrir lá að tveggja laga smáskífa kæmi út í Bretlandi um sumarið en sveitin hafði um veturinn tekið upp fimm lög, tvö þeirra voru hugsuð fyrir erlendan markað (Seven out / Good burger (sem voru vinnuheiti)). Þá kom fram að sveitin myndi ásamt Júpíters leika á Reading tónlistarhátíðinni um sumarið, fyrstar íslenskra sveita en menningarafulltrúi Íslands í Bretlandi, Jakob Frímann Magnússon var sveitinni innan handar um mál hennar í landinu. Haustið á undan hafði sveitin leikið undir nafninu Here comes the sun en þeir höfðu í raun ekki geirneglt það heiti og ýmsar aðrar hugmyndir komu upp á yfirborðið um nafn s.s. Sex puffin og SS Soul en síðarnefnda heitið átti eftir að poppa upp á sveitinni hér heima þótt með öðrum rithætti væri.

En sveitin birtist að nýju undir lok mars 1992, lék á skíðaviku Ísfirðinga um páskana og svo á Íslendingahátíð í Kaupmannahöfn og skartaði þá nýjum trommuleikara því Ingólfur trommari hafði ákveðið að snúa sér óskiptur að Orgli sem oft hafði þurft að víkja fyrir Sólinni, í stað Ingólfs kom Hafþór Guðmundsson sem þarna hafði verið að leika með Eldfuglinum. Hefðbundinn sumarrúntur var framundan og þrjú laganna af þeim fimm sem hljóðrituð höfðu verið um veturinn fóru í spilun, annars vegar lögin Ef ég væri guð og Á flótta sem komu út á safnplötunni Sólargeisli og svo lagið Ég sé epli sem heyrðist í kvikmyndinni Veggfóðri og kom svo út á plötu tengdri þeirri mynd.

Ef ég væri guð og Ég sé epli urðu feikivinsæl um sumarið og Sólin lék víða, m.a. á risatónleikunum Bíórokki 16. júní en þeir tónleikar voru haldnir sérstaklega í kringum kvikmyndina Stuttur frakki sem þá var verið að gera, sveitin kom þó ekki við sögu á plötu sem kom út með tónlistinni þar sem sveitin var á samning hjá Skífunni en ekki Steinum sem gaf plötuna út. Þá lék sveitin á afmælistónleikum Kringlunnar, stórtónleikum til styrktar félagi um alnæmisvandan, risatónleikum Vífilfells í tilefni af 50 ára afmæli Coca cola hér á landi og á Eldborg ´92 um verslunarmannahelgina auk hefðbundinn dansleikja um land allt.

Samhliða spilamennsku hér heima hélt undirbúningur fyrir útrásina áfram, smáskífan var tilbúin til útgáfu hjá Deva fyrirtækinu en henni var frestað og þá virðist sem spilamennsku á Reading-hátíðinni hafi verið ýtt til hliðar en þess í stað fór sveitin um haustið á norræna menningarhátíð í London fyrir tilstuðlan Jakobs Frímanns menningarfulltrúa, ásamt fleiri sveitum af Norðurlöndunum, og léku einnig á einhverjum skemmtistöðum ytra í þeirri ferð.

Sólin 1992

Plön sveitarinnar höfðu því nokkuð breyst, þeir höfðu þá ekki gefið út plötu síðan sumarið á undan (1991) og hófu undirbúning að breiðskífu sem átti að koma út næsta vor (1993), þeir voru því ekki með hefðbundna plötu fyrir jólavertíðina 1992 en gáfu þess í stað út veglegt 28 blaðsíðna tímarit í dagblaðsformi með blönduðu efni undir titlinum SS Sól en tímaritinu fylgdi smáskífa með lögunum Toppurinn / Blómin þau sofa, fyrra lagið var eins konar óður til rappsins og hlaut misjafnar undirtektir – „það er toppurinn að vera í teinóttu“ var þó kyrjað á dansleikjum sveitarinnar og víðar. Á skífuna var skammstöfunin S.S. sól jafnframt (væntanlega vegna plássleysis) og þaðan í frá gekk sveitin undir nafninu SSSól sem upphaflega hafði verið með rithættinum SS Soul fyrir breska markaðinn, í raun og veru var ekki um nafnabreytingu að ræða heldur skammstöfun. SS Sól tímaritið kom út í 3000 eintökum og þykir sjaldgæfur pappír í dag og eftirsóttur fyrir safnara. Um það leyti kom einnig út platan Minningartónleikar um Karl J. Sighvatsson í Þjóðleikhúsinu 4. júlí 1991, sem hafði að geyma þrjú lög með sveitinni (Ég stend á skýi / Nóttin er yndisleg / Svo marga daga).

Enn var unnið að bresku útrásinni, útgáfu smáskífunnar hafði verið frestað fram á nýtt ár og var fyrirhuguð um mánaðamót febrúar – mars 1993, þá voru þreifingar um dreifingar- eða útgáfusamningur við stærra útgáfufyrirtæki og vann sveitin ötullega að tíu laga breiðskífu á ensku einnig. Þrír Bretar unnu að þessu verkefni við upptökur, textagerð og umboðsmennsku í fullri alvöru og svo virtist sem öll vinnan væri að bera árangur. Platan var tilbúin til útgáfu þegar babb kom í bátinn, útgáfufyrirtækið fór á hausinn í kjölfar þess að aðalnúmer hennar, hljómsveitin Daisy Chainsaw hætti störfum – og þar með var ævintýrið úti. Eitt laganna, 7 out kom þó út á safnplötunni Heyrðu.

Helgi hafði tekið sér frí frá leikhúsinu til að einbeita sér að tónlistinni og í stað þess að leggjast í volæði einbeitti SSSól sér að íslenska markaðnum og hljóðritaði plötu undir stjórn Skotans Ian Morrow, sem átti að koma út um vorið. Sveitin spilaði töluvert fyrripart árs og fram á vorið en svo var allt sett í gang, ný lög komu út með sveitinni á safnplötum og um svipað leyti leit nýja platan dagsins ljós, á henni voru sex ný lög í bland við átta eldri sem áður höfðu komið út á safnplötum en hún bar nafn sveitarinnar, SSSól.

Sveitin tók töluverðum breytingum með þessari plötu en hljómborð urðu nú áberandi í tónlistinni sem fyrir vikið var mun poppaðri en áður, Jón Ólafsson hafði leikið á hljómborðin í upptökunum en um sumarið gekk Akureyringurinn Atli Örvarsson til liðs við sveitina sem hljómborðsleikari en hann hafði þar á undan leikið með Sálinni hans Jóns míns (og Stuðkompaníinu nokkrum árum fyrr). Aðrir meðlimir Sólarinnar voru þá Helgi söngvari, Jakob bassaleikari, Hafþór trommari og Eyjólfur gítarleikari – aukinheldur hafði söngkonan Ingibjörg Stefánsdóttir léð sveitinni rödd sína í laginu Nostalgía sem varð einn af stórsmellum sumarsins reyndar eins og Háspenna – lífshætta, Vítamín og Frelsi, en annars voru raddirnar mjög áberandi í tónlist sveitarinnar á þessari plötu. Platan hlaut ágæta dóma í Degi, Pressunni, Vikunni og DV, og seldist jafnframt ágætlega en síðsumars hafði hún selst í um 3000 eintökum sem þótt dágott af sumarútgáfu.

Sólin

Þótt tónlistin væri orðin töluvert léttari og poppaðri í kjölfar hljómborðanna hélt sveitin áfram í hippatískunni hvað útlitið varðaði og ímynd sveitarinnar bar þess nokkuð merki. Sumartúrinn sem farinn var í samstarfi við Pepsi var æði stór og langur og fékk yfirskriftina Verð að fá það, hann náði hámarki um verslunarmannahelgina en sveitin lék þá á Akureyri og á þjóðhátíð í Eyjum. Einnig lék sveitin á stórum tónleikum i Kaplakrika um sumarið og fór þá í samstarf annars vegar við GCD en sveitirnar unnu sameiginlega lag tengt þeirri uppákomu, hins vegar síðar um sumarið við Todmobile en sveitirnar tvær sendu frá sér seventís slagarann Ævintýri sem samnefnd sveit Björgvins Halldórssonar hafði sent frá sér á sínum tíma, lagið kom út á safnplötunni Algjört möst og naut nokkurra vinsælda. Annars varð þetta sumar stærsta sumar SSSól frá upphafi og til marks um það má nefna að Rás 2 sendi beint út frá dansleik sveitarinnar í Njálsbúð síðsumars. Um haustið var heldur hvergi slegið af en þá sendi sveitin frá sér annan gamlan slagara, Fækkaðu fötum (Take off your clothes með Peter Sarstedt) á safnplötunni Heyrðu 2.

Atli sagði skilið við SSSól um haustið þar sem hann var þá við nám í Bandaríkjunum og fækkaði því í sveitinni, aðrir meðlimir Sólarinnar hófu hins vegar vinnu við að semja og vinna næstu plötu og kom Atli stöku sinnum yfir hafið til að vinna með þeim. Þær breytingar urðu einnig á skipan sveitarinnar síðla árs 1993 að Jakob Smári bassaleikari sem hafði verið meðlimur hennar frá upphafi, ákvað að breyta til og hætti því í henni, úr varð að Björn Árnason sem þá hafði starfað með Deep Jimi & the Zep Cream gekk til liðs við Sólina en áður höfðu um fimmtán bassaleikarar verið prófaðir.

Um vorið 1994 leit nýtt lag dagsins ljós á safnplötunni Heyrðu 3, það var lagið Bleyttu mig og hefur það ekki komið út annars staðar og reyndar var lagið bannað á útvarpsstöðinni Bylgjunni. Um það leyti fór Sólin minna að meira á sig eftir veturinn og í blaðaviðtali var gefið út að sveitin væri bókuð allar helgar fram í október, þá var jafnframt gefið til kynna að smáskífa með þremur nýjum lögum kæmi út um sumarið undir nafninu Viva en þau áform voru lögð til hliðar þegar Helgi söngvari fékk blæðandi magasár og þurfti í framhaldinu að hlífa sér, Þorsteinn Gunnarsson söngvari Vina vors og blóma hljóp í skarðið fyrir Helga helgina á eftir og í tilefni af því breytti sveitin nafni sínu í Sólblóma þá um helgina. Reyndar spruttu upp ýmsar sögusagnir í kjölfar veikinda Helga en hann hafði verið fluttur með sjúkrabíl af Gauki á Stöng þar sem sveitin var að spila fyrir fullu húsi, þær sögur voru ýmist á þá leið að hann hefði verið svo ölvaður að hann hefði ælt þegar hann yfirgaf sviðið, fengið hjartaáfall eða jafnvel óverdósað – að sprauta hefði verið í handleggnum á honum. Segja má að kaldhæðnin í öllu þessu hafi verið sú að fáeinum dögum fyrr var frumsýnt myndband við nýtt lag, Lof mér að lifa þar sem Helgi lá í líkkistu og söng.

SSSól 1993

Sveitin hélt þó áfram að vinna að fyrirhugaðri plötu ásamt upptökustjóranum Ian Morrow og fyrrnefnt lag, Lof mér að lifa kom út á safnplötunni Heyrðu 4 ásamt laginu Ótrúlegt og kynti nokkuð undir vinsældir sveitarinnar sem þarna um miðjan tíunda áratuginn voru í sögulegu hámarki enda voru þá helstu keppinautarnir – Sálin hans Jóns míns í fríi, þá var um sumarið skotin heimildamynd um þá á sumartúrnum sem sýnd var síðar í sjónvarpi. Mikil aðsókn var á böll sveitarinnar og þegar sveitin tróð upp á höfuðborgarsvæðinu á 17. júní skemmtun tróð sjálft gamla brýnið Ragnar Bjarnason upp með sveitinni, og vakti það töluverða athygli, um verslunarmannahelgina lék sveitin á þjóðhátíð í Eyjum en hún var þetta sumar skipuð þeim Helga, Eyjólfi, Hafþóri, Atla og Birni.

Platan Blóð kom loks út um haustið en hún hafði að mestu verið hljóðrituð „læv“ í hljóðverinu til að ná fram sama kraftinum og á dansleikjum sveitarinnar, hún var bæði unnin hrátt og hratt. Blóð fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í Helgarpóstinum, Degi og DV en náði þó ekki jafn miklum vinsældum og fyrri plötur sveitarinnar en hún seldist í um 3300 eintökum, tónlistin var að mestu samin af sveitinni í sameiningu eins og reyndar á öllum plötum hennar en Helgi var aðal textasmiður Sólarinnar.

SSSól fylgdi útgáfu plötunnar eftir með mikilli ballspilamennsku um haustið og var reyndar mjög áberandi fram yfir áramótin 1994-95 og líklega var Atli hljómborðsleikari með sveitinni en hann tók sér þá frí frá námi í einn vetur til að fjármagna námsgjöldin vestra, þrátt fyrir að sveitin væri á þessum tímapunkti búin að afskrifa meikdraumana erlendis léku þeir félagar á tónleikum sem riggað var upp með fleiri sveitum fyrir útsendara Arista records, ekkert kom þó út úr því. Þrátt fyrir alla velgengnina gekk þó ekki alltaf allt eftir bókinni og til dæmis mátti litlu muna að illa færi þegar kviknaði í sviðsmynd við upptökur á sjónvarpsþætti í Ríkissjónvarpinu, snarræði hljómsveitarmeðlima kom í veg fyrir tjón og slys, einnig komst sveitin í fréttirnar þegar ráðist var á Helga söngvara norður á Sauðárkróki.

Eftir áramótin fór SSSól í nokkurra vikna frí frá spilamennsku og birtist reyndar ekki aftur fyrr en í mars 1995, um það leyti tók Einar Bárðarson við umboðsmennsku hjá sveitinni en Helgi söngvari mun hafa annast þann þátt að mestu fram að því. Um sumarið túraði ný sveit, Sólstrandargæjarnir með Sólinni en hún hafði þá nýverið gefið út plötu sem m.a. hafði að geyma stórsmellinn Rangur maður – túrinn með SSSól átti klárlega nokkurn þátt í því að gera það lag jafnt stórt og raunin varð en það varð jafnframt til þess að lög Sólarinnar náðu ekki eins háum hæðum og fyrri lög en sveitin sendi það sumar frá sér tvö lög í útvarpsspilun, Fullorðinn, og svo Mér er svo kalt, sem kom út á safnplötunni Pottþétt 1. Sumartúr sveitanna tveggja gekk undir nafninu Sólbruni ´95 en hann varð reyndar ekki nærri jafn stór í sniðum og balltúrar sumranna á undan enda var heldur farið að halla undan fæti á sveitaballamarkaðnum og fyrstu merki um að sá markaður færi að líða undir lok, e.t.v. spilaði einnig þarna inn í að Helgi var upptekinn við önnur verkefni samhliða Sólinni, hann var farinn að leika aftur eftir nokkurra ára hlé og var einnig kominn í veitingarekstur en hann rak þá Astro. Sveitin lék um verslunarmannahelgina í Miðgarði í Skagafirði og á tónlistarhátíðinni Uxa sem haldin var við Kirkjubæjarklaustur, í tilefni af þeirri hátíð kom út safnplata sem bar nafnið Journey to the top of the world: Kirkjubæjarklaustur, og á henni átti Sólin lagið Godburger II sem var líklega afrakstur meikdrauma sveitarinnar nokkrum árum fyrr. Um haustið dró sveitin enn meira úr spilamennsku.

SSSól

Framan af árinu 1996 var fremur rólegt hjá SSSól enda var Helgi upptekinn við önnur fyrrnefnd verkefni en hafði þá einnig tekið ástfóstri við hross og sinnti því áhugamáli af kostgæfni, sveitin sendi þó frá sér lagið Hættulegt á safnplötunni Pottþétt 3 um vorið og sýnt þótti að hún myndi ekki senda frá sér plötu um sumarið. Hins vegar fóru þeir félagar í eins konar samstarf við nokkrar ungar og efnilegar hljómsveitir sem spiluðu með sveitinni á nokkrum dansleikjum, og samhliða því gáfu sveitirnar sameiginlega út safnplötu sem hlaut titilinn Súper 5 en sveitirnar voru einmitt fimm talsins, auk SSSól voru þar Spoon, Botnleðja, Funkstraβe og Astral sextett – Sólin átti fjögur lög á plötunni en hinar færri og af lögum sveitarinnar naut Það eru álfar inni í þér mestra vinsælda, hin lögin þrjú vöktu ekki ýkja mikla athygli.

Ungsveitirnar skiptust á að leika með Sólinni um sumarið en einnig hitaði sveitin upp fyrir bresku sveitirnar Pulp og Blur sem báðar héldu tónleika hér um sumarið, aðsóknin á dansleikina fór all þverrandi og platan seldist ekki heldur vel þannig að tekjulega gekk sumarið ekki eins vel og venjulega, Sólin var þó án vafa ein allra vinsælasta ballsveit landsins.

Um haustið fluttist Helgi söngvari til Ítalíu og átti eftir að búa þar næsta árið með fjölskyldu sína, hann var þó með annan fótinn hér heima fram í nóvember til að leika með SSSól á dansleikjum og sinna öðrum verkefnum, en sveitin lék þá m.a. á órafmögnuðum tónleikum í Borgarleikhúsinu en fór skömmu síðar í nokkurra mánaða frí og birtist ekki á nýjan leik fyrr en í mars 1997 þegar hún lék á nokkrum dansleikjum. Þá var Hrafn Thoroddsen hljómborðs- og gítarleikari genginn til liðs við sveitina og hafði þá tekið við af Atla sem nú bjó og starfaði vestur í Bandaríkjunum sem fullnuma kvikmyndatónskáld. Sveitin var ekki áberandi um sumarið, lék þó á fáeinum böllum þegar Helgi flaug yfir hafið, og var einna mest áberandi tvær helgar í kringum verslunarmannahelgina þar sem sveitin lék í Miðgarði, Akureyri og Vopnafirði, Jakob var þá aftur kominn á bassa. Sólin sendi ekki frá sér neitt nýtt efni þetta sumar en Helgi var um það leyti að vinna sólóplötu sem kom svo út um haustið en hann var þá fluttur heim frá Ítalíu.

Sólin 1994

Segja má að blómaskeiði SSSólar hafi þarna verið lokið þó svo að næstu fjögur til fimm árin hafi sveitin sent frá sér nokkur vinsæl lög, ástæðan var auðvitað hnignun sveitaballanna sem höfðu verið aðal vettvangur og tekjulind sveitarinnar þó svo að upphaflega hafi hún verið stofnuð til að leika á tónleikum. Sólin birtist t.a.m. ekki fyrr en um páskana 1998 þegar hún lék á skíðaviku Ísfirðinga og svo á sveitaballi í Ýdölum í Aðaldal í byrjun júní en báðir þessir viðburðir voru lengi fastir liðir í ballspilamennsku sveitarinnar. Um vorið hafði sveitin hljóðritað tvö lög sem komu svo út á safnplötunni Svona er sumarið ´98 um sumarið, lögin Síðan hittumst við aftur og Ég fer í mat til mömmu en fyrrnefnda lagið naut mikilla vinsælda. Sveitin lék ekki á mörgum dansleikjum um sumarið en gaf út að í undirbúningi væri tvöföld safnplata með vinsælustu lögum sveitarinnar sem afráðið var að kæmi út um haustið í tilefni af tíu ára útgáfuafmæli sveitarinnar, sú útgáfa lét reyndar bíða eftir sér.

Sólin lék fram í nóvember en lét svo lítið fara fyrir sér þar til um vorið 1999, en hefur væntanlega þó eitthvað leikið á skólaböllum og þess konar samkomum sem ekki eru auglýstar opinberlega, um vorið kom út nýtt lag með sveitinni – Tunglið, á safnplötunni Pottþétt 15, og fljótlega leit fyrrnefnd safnplata dagsins ljós undir nafninu 88/99 en þar var á ferð tvöföld plata sem fyrr segir, sem hafði að geyma þrjátíu og fimm lög – mest allt eldra efni en þó einnig ný lög eins og Þú ert ekkert betri en ég og Geimskipið Sól sem nutu töluverðra vinsælda, platan fékk þokkalega dóma í Vikunni og ágæta í Fókusi. Þær breytingar höfðu þá orðið á skipan sveitarinnar að Björn Jörundur Friðbjörnsson sem er öllu þekktari sem liðsmaður Nýdanskrar, hafði tekið við bassanum af Jakobi og lék með þeim um sumarið, aðrir Sólar-liðar þetta sumar voru Helgi söngvari, Eyjólfur gítarleikari, Hafþór trymbill og Hrafn hljómborðsleikari. Myndband við lagið Þú ert ekkert betri en ég vakti mikla athygli en það var tekið uppi á þaki Íslandsbanka við Lækjargötu þar sem þeir félagar voru í gervi bankaræningja. Sveitin spilaði lítið framan af sumri en var duglegri eftir að platan kom út en þá var blásið til SSSólar helgar á Hard Rock í Kringlunni en Einar Bárðar umboðsmaður sveitarinnar rak þá þann stað, þá hitaði sveitin m.a. upp ásamt fleiri sveitum fyrir Garbage, Republica o.fl. á afmælistónleikum FM 957 í Faxaskála, um verslunarmannahelgina lék sveitin í Eyjum. Þetta sumar var Helgi að leika í söngleiknum Rent svo að pússla þurfti nokkuð til að hlutirnir gengju upp.

Um haustið var Sólin miklu minna á ferðinni og aldamótaárið 2000 fór mjög lítið fyrir sveitinni enda voru þeir Hafþór og Björn Jörundur þá orðnir meðlimir Luxus, hljómsveit þess síðarnefnda sem gaf út plötu, auk þess sem Helgi gaf einnig út plötu, nú í félagi við Bergþór Pálsson. Árið 2001 var heldur skárra hjá sveitinni þótt þeir kæmu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en um páska og um sumarið var blásið í stuttan en snarpan balltúr þar sem sveitin var nú orðið kynslóð eldri en aðrar slíkar – en þó enn meðal þeirra vinsælustu. Hafþór, Eyjólfur, Hrafn, Jakob (sem var nú aftur mættur til leiks) og Helgi skipuðu sveitina þetta sumar en sá síðast nefndi var nú aðeins farinn að daðra við hestamannadansleikina í tengslum við áhugamál sitt hestamennskuna, og söng þar með hljómsveitinni Trigger.

Sólin 1995

Næstu árin voru með svipuðum hætti, árið 2002 spilaði Sólin lítið en hafði sína föstu viðverustaði um páska og upphaf sumar, nokkur vel valin böll voru tekin um sumarið og um verslunarmannahelgina var sveitin á Einni með öllu á Akureyri en um haustið lék hún mest á höfuðborgarsvæðinu, um þetta leyti var Eyjólfur gítarleikari hættur en Gunnar Ólason úr Skítamóral lék með sveitinni þetta sumar og eitthvað áfram áður en Stefán Már Magnússon tók við keflinu á nýju ári (2003). Þau fáu sveitaböll sem enn voru haldin voru nú sótt af fólki sem frekar völdu yngri sveitir eins og Írafár og Í svörtum fötum en gömlu mennirnir í Sólinni og Sálinni slógu þó saman í eitt slíkt í Árnesi sem aldrei hefði getað gerst á blómaskeiði sveitaballanna. Sveitin sendi frá sér slagara, Uppsprettan, á safnplötunni Svona er sumarið 2003 en það hlaut ekki mikla athygli og sveitin lék lítið á dansleikjum það árið.

Árið 2004 var með svipuðum hætti, Sólin lék aðeins á nokkrum böllum, gaf reyndar út að þeir ynnu að plötu en það voru innantóm orð og líklega til að minna á sig – eins töluðu þeir um að halda stóra tónleika um haustið en þau orð áttu heldur ekki um rök að styðjast, í raun var sveitin á svipuðum stað og Sálin um það leyti en sveitirnar léku einvörðungu á vel völdum dansleikjum en störfuðu ekki þess á milli.

Helgi Björns hafði verið með annan fótinn í Berlín í Þýskalandi þar sem hann rak orðið leikhús og á þessum árum eyddi hann sífellt meiri tíma þar og svo fór að á árunum 2005 til 2007 lék SSSól aðeins á örfáum dansleikjum, kannski tveimur eða þremur á ári. Árið 2007 átti Sólin hins vegar tuttugu ára afmæli og þá var þeim félögum ekki stætt á öðru en að blása til afmælistónleika sem þeir gerðu vissulega með pomp og prakt en tvennir slíkir tónleikar voru haldnir í Borgarleikhúsinu um vorið af því tilefni. Þeir tónleikar voru veglegir og var gamla nafnið, Síðan skein sól notað óspart við auglýsingar á tónleikunum, sveitina skipuðu þar þeir Helgi, Hafþór, Jakob, Hrafn og Stefán Már en einnig lék Eyjólfur með þeim þar sem fullgildur meðlimur, einnig komu fram nokkrir gestir (m.a. fyrrverandi meðlimir) með sveitinni s.s. Björn Jörundur Friðbjörnsson, Pétur Grétarsson, Kristján Kristjánsson (KK) og Ágústa Eva Erlendsdóttir í gervi Silvíu Nætur sem söng m.a. Nostalgíu, aukinheldur voru þeir félagar með nokkra aukahljóðfæraleikara með sér á sviðinu eins og Matthías Stefánsson fiðluleikara, Guðmund Pétursson gítarleikara, Kjartan Valdemarsson píanóleikara o.fl. Tónleikarnir voru svo gefnir út undir yfirskriftinni SSSól síðasta vetrardag: 20 ára afmælistónleikar í Borgarleikhúsinu en platan var tvöföld – kom bæði á CD og DVD formi. Hún hlaut þokkalega dóma í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu.

Í kjölfar þessa tónleikahalds hamraði Sólin járnið meðan það var heitt og lék á nokkrum dansleikjum um sumarið en einnig á risatónleikum Kaupþings á Laugardalsvelli ásamt fleira tónlistarfólki en hið svokallaða 2007 góðæri stóð þá sem hæst, þeir tónleikar voru sýndir í beinni útsendingu í sjónvarpi. Sveitin spilaði eitthvað fram á haustið þótt Helgi væri sem áður mikið í Berlín og var mikill hugur í honum, hann talaði m.a. um að uppi væru hugmyndir um að gefa út plötu með nýju efni en sú plata leit aldrei ljós.

Árið 2008 var ekki frábrugðið árunum á undan, Sólin birtist um páskaleytið í skíðavikunni á Ísafirði og í framhaldinu lék sveitin stöku sinnum um sumarið, um þetta leyti var Helgi að koma fram með nýja sveit sem gekk undir nafninu Reiðmenn vindanna og er ekki ólíklegt að tími og orka hafi að mestu farið í þá sveit enda sendi hún frá sér plötu um sumarið með tilheyrandi eftirfylgni og varð í raun mun meira áberandi en Sólin á næstu árum. SSSól var þó eitthvað að vinna í nýju frumsömdu efni og sumarið 2009 sendi sveitin frá sér tvö ný lög, þau fyrstu í langan tíma, þau hétu Í sjöunda himni (á safnplötunni Sumar á Íslandi 2009) og Fulloðrðinn (á safnplötunni Pottþétt 50) en vöktu ekki mikla athygli og hurfu í skugga annarra sumarslagara. Sveitin spilaði eitthvað um sumarið eins og venjulega en sú spilamennska var varla nema svipur hjá sjón ef litið var til fyrri ára til samanburðar.

SSSól á nýrri öld

Sveitin reri í sömu knérum næstu árin, enn var stefnt á útgáfu plötu og sveitin tók upp fleiri lög en dansleikjahald fór enn minnkandi og léku þeir félagar því aðeins á nokkrum vel völdum uppákomum ár hvert, Bestu hátíðinni á Hellu (2011), hestamannadansleikjum (ásamt Reiðmönnum vindanna sem að einhverju leyti var skipuð sama mannskap), skíðavikunni á Ísafirði, Kótilettunni á Selfossi, Keflavíkurnóttum og Ljósanótt, Sjóaranum síkáta í Grindavík, Menningarnótt og svo örfáum almennum dansleikjum. Árið 2012 fór sveitin í samstarf við breska tónlistarmanninn John Grant (sem Jakob bassaleikari var þá byrjaður að spila með) í tengslum við sjónvarpsþáttinn Hljómskálann og úr því samstarfi fæddist lagið Finish on top, sem kom út á safnplötunni Pottþétt 57, þá var Einar Valur Scheving farinn að leika með sveitinni í stað Hafþór trommuleikara.

Árið 2017 var blásið í lúðra og til afmælistónleika í Háskólabíói en SSSól fagnaði þá 30 ára afmæli, haldnir voru tvennir tónleikar og var uppselt á þá báða og í kjölfarið lék sveitin á nokkrum bæjarhátíðum og dansleikjum um sumarið, og sá svo um að hita upp fyrir Chaka Khan á Secret Solstice hátíðinni. Eftir það dró sveitin sig þó aftur að mestu inn í skelina og hefur af því er virðist ekkert spilað síðan síðsumars 2019, fáeinum mánuðum áður en heimsfaraldur Covid skall á af fullum þunga. Þó svo að sveitin hafi ekki leikið nú um hríð (þegar þetta er ritað) er ekkert sem bendir til að SSSól sé hætt störfum og því eru meiri líkur en minni að fléttað verði síðar aftan við þessa umfjöllun.

SSSól hefur sent frá sér ógrynni stórsmella á fjölmörgum breiðskífum, smáskífum, tónleikaskífum og safnplötum, og enn fleiri lög sem ekki hafa komið út á plötum sveitarinnar hafa komið út á safnplötum, meðal vinsælustu laga sveitarinnar má nefna fáein dæmi eins og Blautar varir, Ég stend á skýi, Háspenna – lífshætta, Geta pabbar ekki grátið, Dísa, Mála bæinn rauðan, Ég verð að fá að skjóta þig, Halló ég elska þig, Nostalgía, Nóttin hún er yndisleg og svo mætti áfram telja.

Líkast til eru fáar hljómsveitir á Íslandi sem hafa notið meiri vinsælda og átt eins mörg vinsæl lög og Síðan skein sól / SSSól og með breyttu fyrirkomulagi í útgáfumálum þar sem ekki lengur eru gefnar út eiginlegar breiðskífur á efnislegu formi er óvíst að slíkt verði nokkru sinni aftur að veruleika. Helgi Björns söngvari sveitarinnar er sömuleiðis einn allra sterkasti frontmaður íslenskrar tónlistar og frasinn „Eru‘ ekki allir sexí?“ verður samtvinnaður honum svo lengi sem tónlistin lifir, og á útgeislun hans og reynsla úr leikhúsinu því ekki lítinn þátt í að halda nafni SSSólar á lofti.

Efni á plötum