Meistari Tarnús (1944-)

Grétar Guðmundsson – Meistari Tarnús

Tónlistar- og myndlistamaðurinn Grétar Guðmundsson er kannski þekktari undir nafninu Meistari Tarnús, hann starfaði með fjölmörgum hljómsveitum hér áður fyrr og síðar skemmti hann á pöbbum víðs vegar um land með söng og undirleik skemmtara.

Hafnfirðingurinn Grétar Magnús Guðmundsson fæddist 1944 og var um tvítugt þegar hann hóf að leika á trommur með hljómsveitum sem einkum lögðu áherslu á gömlu dansana, og síðar söng hann einnig með mörgum þeirra sveita, þetta voru hljómsveitir eins og Hljómsveit Óskars Cortes, Hljómsveit Jóhannesar Eggertssonar og Hljómsveit Garðars Jóhannessonar á sjöunda áratugnum.

Grétar fór í nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1971, hann vakti um það leyti mikla athygli með Combói Þórðar Hall sem var eins konar framúrstefnuflipp nokkurra nema innan skólans. einnig tók hann þátt í uppfærslu á Popleiknum Óla í Tjarnarbæ um sama leyti. Eftir myndlistanám sitt tók hann um nafnið Tarnús eða Meistari Tarnús en nafnið kemur til af síðustu þremur stöfunum í nöfnum hans. Grétar hefur haldið fjölmargar myndlistasýningar og auk þess kennt myndlist.

Á áttunda og níunda áratugnum hélt tónlistarferill Grétars áfram, hann trommaði og söng með fjölmörgum sveitum, Tríó 72, Hljómsveit Þorvaldar Björnssonar, Hljómsveit Rúts Hannessonar, Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar (Steina spil), Thaliu, Bítlunum, Danssporinu, Hljómsveit Jóns Sigurðssonar og Kompás. Um miðjan tíunda áratuginn hóf hann hins vegar að vinna einn með söng og hljómborðsskemmtara á hinum ýmsu pöbbum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni en hann skemmti þá einnig á árshátíðum, ættarmótum og þess konar samkomum. Þar kallaði hann sig ýmist Tarnús, Meistari Tarnús eða jafnvel Einn og yfirgefinn. Grétar hefur ennfremur skemmt með harmonikku.

Grétar hefur sungið inn á tvær plötur með Bjarna Sigurðssyni frá Geysi, Liðnar stundir (1998) og Horft til baka (2007).

Þess má geta að sonur Grétars, Grétar Magnús Grétarsson (1974-2018) tók upp listamannsnafn föður síns og kallaði sig Tarnús jr. en hann var einnig tónlistarmaður auk þess að starfa sem kvikmyndagerðarmaður.