Melarokk [tónlistarviðburður] (1982)

Sviðið á Melarokki

Tónlistarhátíðin Melarokk er merkilegur partur af íslenskri tónlistarsögu en hún var fyrsta alvöru rokkhátíðin sem haldin var hér á landi.

Það var Hallvarður E. Þórsson sem stóð að baki Melarokks en hátíðin var haldin á Melavellinum, gamla þjóðaleikvangi okkar Íslendinga þar sem nú stendur lóð Húss íslenskra fræða milli Hótel Sögu og Þjóðarbókhlöðunnar, sem einmitt var þá verið að reisa en hátíðin var haldin laugardaginn 28. ágúst 1982.

Mikið var gert úr hátíðinni fyrirfram í fjölmiðlum þrátt fyrir að hún væri lítið auglýst, og gert var ráð fyrir um tuttugu hljómsveitum úr rokk-, pönk- og nýbylgjugeirarnum, sveitir eins og Purrkur pillnikk, Þeyr, Fræbbblarnir, Bara-flokkurinn, Tappi tíkarrass, Grýlurnar, Lóa, Q4U og fleiri áttu að trekkja að og gert var ráð fyrir að minnsta kosti tvö þúsund manns, svo hátíðin stæði undir sér. Dagskráin átti að hefjast um tvö leytið og standa hálf tólf um kvöldið með stanslausri gleði, veitingatjöld og happdrætti áttu ennfremur að verða til að trekkja að, og einnig stóð til að hljóðrita hátíðina í því skyni að gefa út tvöfalda, jafnvel þrefalda tónleikaplötu með broti af því besta.

Tónleikagestir á Melarokki

Þrátt fyrir allar væntingar varð minna úr Melarokki en vænst hafði verið, líklega spilaði veður að einhverju leyti þar inn í en norðan næðingur og kuldi einkenndi hátíðina sem hófst reyndar um einum og hálfum tíma síðar en ætlað var vegna annarra tónleika sem haldnir voru á sama tíma í Háskólabíói, menn voru eitthvað hræddir um að Melarokkið myndi trufla þann konsert og því var tekið á það ráð að fresta fyrstu hljómsveitunum – sem tónleikagestir á Melavellinum voru reyndar aldrei upplýstir um en þeir héldu allan tímann að um væri að ræða venjulega seinkun á tónleikum eins og þeir voru vanir.

Aðeins um sautján hundruð manns borguðu sig inn á Melarokkið sem var öllu færra en menn höfðu vonast til og í viðtali við tónleikahaldara eftir tónleikana kvaðst hann svekktur yfir því hversu margir svindluðu sér inn á svæðið. Einnig hafði kvarnast nokkuð úr þeim hljómsveitum sem leika áttu á tónleikunum, Fræbbblarnir höfðu sent frá sér yfirlýsingu daginn fyrir tónleikana að þeir myndu ekki koma fram og eitt aðal númer hátíðarinnar Þeyr, mættu ekki á svæðið en þeir áttu að loka hátíðinni. Fyrir vikið urðu tónleikarnir hálf endasleppir og lauk með eins konar „jammi“ nokkurra tónlistarmanna.

Melarokk 82

Þrátt fyrir dræma mætingu og reyndar einnig slæma umgengni tónleikagesta voru menn nokkuð sáttir við útkomuna, sándið var nokkuð gott sem var óvenjulegt á þessum árum og var almennt eftir á gerður nokkuð góður rómur að hátíðinni. Sjónvarpið var á svæðinu og um haustið var á dagskrá þess þáttur í tveimur hlutum um Melarokk 82.

Í sögulegu samhengi má segja að tvennt standi upp úr með Melarokks-festivalið, annars vegar var hún fyrsta rokkhátíðin hérlendis og hins vegar má segja að hátíðin marki endalok pönksins hér á landi, sú bylgja hafði risið rúmlega tveimur og hálfu ári fyrr, náð hámarki um það leyti sem kvikmyndin Rokk í Reykjavík var frumsýnd um páskana 1982 og liðið undir lok með Melarokki. Til dæmis kom Purrkur pillnikk í síðasta skipti fram á hátíðinni.