Steinn Erlingsson (1939-)

Steinn Erlingsson

Steinn Erlingsson baritón söngvari var um árabil meðal fremstu söngvara á Suðurnesjum og varð þar fyrstur einsöngvara til að gefa út plötu, hann var áberandi í menningarlífi Keflvíkinga en eiginlegur söngferill hans hófst þó ekki fyrr en hann var kominn vel á fertugs aldur.

Steinn Erlingsson fæddist í Garðinum snemma árs 1939 og hafði strax áhuga á söng og söng mikið sem barn. Fátt var þó sem benti til að hann legði sönginn fyrir sig því hann fór á sjóinn og starfaði við sjómennsku í hartnær tvo áratugi. Það var ekki fyrr en hann kom í land um miðjan áttunda áratuginn að söngurinn tók yfir, þá gekk hann til liðs við Karlakór Keflavíkur og aðeins ári síðar hafði hann þreytt frumraun sína sem einsöngvari með kórnum en hann er baritón eins og segir hér í upphafi. Um það leyti hóf Steinn nám í söng, fyrst í tónlistarskólanum í Keflavík hjá Hreini Líndal og Sigurði Demetz en síðan hjá Snæbjörgu Snæbjarnardóttur og lauk burtfararprófi hjá henni í Tónlistarskólanum í Garðabæ árið 1985, fyrstur söngvara frá þeim skóla. Það var svo í kringum 1990 að Steinn hleypti heimdraganum og fór vestur til Arizona í Bandaríkjunum þar sem hann var við söngnám í eins árs skeið.

Steinn söng með Kór Keflavíkurkirkju um árabil og söng oft einsöng með þeim kór rétt eins og karlakórnum, bæði á tónleikum og hvers kyns kirkjulegum samkomum, víða um land hér heima og erlendis, auk þess sem hann hefur sungið einsöng inn á nokkrar plötur með kórunum tveimur. Steinn kom jafnframt á sínum tíma margoft oft sem einsöngvari með Skagfirsku söngsveitinni í Reykjavík, sem Snæbjörg söngkennari hans stjórnaði lengi vel og hefur einnig komið fram með Kvennakór Suðurnesja. Þá hefur hann einnig stöku sinnum haldið einsöngstónleika.

Steinn ásamt David Knowles

Haustið 1996 sendi Steinn frá sér einsöngsplötu undir titlinum Ó, bjarta nótt en hún hafði að geyma tuttugu og eitt lag, íslensk og erlend úr ýmsum áttum – bæði einsöngslög og óperuaríur. Platan var hljóðrituð í sal Tónlistarskóla Seltjarnarness af Halldóri Víkingssyni en Ólafur Vignir Albertsson var undirleikari Steins. Ó, bjarta nótt hlaut góðar viðtökur og fékk t.a.m. mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Steinn var að koma fram sem einsöngvari með Karlakór Keflavíkur og Kór Keflavíkurkirkju langt fram á nýja öld, að minnsta kosti til ársins 2013 en hann var þá kominn nokkuð á áttræðis aldur.

Efni á plötum