Afmælisbörn 8. október 2022

Jakob Hafstein (t.v.)

Afmælisbörn Glatkistunnar eru sjö að þessu sinni:

Ingimar Oddsson söngvari hljómsveitarinnar Jójó frá Skagaströnd er fimmtíu og fjögurra ára í dag. Jójó sigraði Músíktilraunir Tónabæjar árið 1988 en náði ekki sömu hæðum og margir sigurvegarar keppninnar fyrr og síðar hafa náð. Ingimar var viðloðandi fleiri hljómsveitir en þær vöktu litla athygli, þetta voru verkefni eins og Lærisveinar Fagins, Arctica og Reykjavíkurkvintettinn en einnig Rocky sem var forveri Jójós. Hann sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu árið 2018.

Þá á Ólafur Stolzenwald bassaleikari afmæli í dag en hann er sextíu og eins árs gamall. Ólafur er kunnur kontrabassaleikari í djassheiminum og hefur starfrækt ótal tríó og kvartetta en hefur einnig starfað með sveitum eins og Póstberunum, Q, Sunnan sex og Hljóð í skrokkinn. Hann tók þátt í öðrum Músíktilraununum sem haldnar voru haustið 1983, með hljómsveitinni Byl.

Lilja Steingrímsdóttir hljómborðsleikari úr Hljómsveit Jarþrúðar og Ellinni er sextíu og tveggja ára gömul á þessum degi. Hljómsveit Jarþrúðar vakti nokkra athygli á fyrri hluta tíunda áratugarins og átti þá m.a. efni á nokkrum safnplötum.

Linda Björk Hreiðarsdóttir trommuleikari á stórafmæli en hún er sextug í dag. Linda varð landsfræg með Grýlunum og kom við sögu í Stuðmannamyndinni með Allt á hreinu en hefur einnig leikið með sveitum eins og Ha.

Ingimar Oddsson

Hafþór Ólafsson meðlimur dúettsins Súkkats og tríósins Megasukks er fimmtíu og níu ára gamall í dag. Súkkat sendi frá sér nokkrar plötur á sínum tíma og vakti tónlist þeirra nokkra athygli og jafnvel kátínu en lítið hefur farið fyrir dúettnum hin síðari ár. Hafþór hefur einnig komið við sögu á plötum með KK og Guðlaugi Kristni Óttarssyni og sendi sjálfur frá sér plötu fyrir fáeinum árum með lögum Guðmundar Guðmundssonar, Fjólur.

Ólafur Beinteinsson (1911-2008) átti einnig afmæli á þessum degi en hann söng með Kling klang kvintettnum og Blástakkatríóinu og lék ennfremur stundum á gítar undir leik síðarnefnda tríósins. Ólafur kom fram í einhver skipti með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar og með Sveinbirni Þorsteinssyni en saman mynduðu þeir líklega fyrsta þjóðlagadúett Íslandssögunnar.

Og að síðustu er hér nefndur Jakob Hafstein söngvari, ljóð- og tónskáld (1914-82) sem hefði líka átt þennan afmælisdag en hann var einn meðlima MA-kvartettsins sem starfræktur var í Menntaskólanum á Akureyri við miklar vinsældir fyrir margt löngu og gaf út fjölmargar 78 snúninga plötur. Hann söng einnig inn á nokkrar aðrar plötur á fimmta áratugnum, ýmist einn eða með Ágústi Bjarnasyni.

Vissir þú að lagið Á Sprengisandi (Ríðum, ríðum) hefur komið út á yfir hundrað plötum?