Jakob Hafstein (1914-82)

Jakob Hafstein og Ágúst Bjarnason

Jakob Hafstein ásamt Ágústi Bjarnasyni

Jakob V. Hafstein (Havsteen) (f. 1914) var með merkari mönnum 20. aldarinnar á Íslandi þótt ekki væri nema fyrir tónlistarhlutann en hann var tón- og ljóðskáld auk þess að vera afburðarsöngvari.

Jakob fæddist á Akureyri en flutti ungur til Húsavíkur þar sem hann bjó til menntaskólaáranna en þá gekk hann í Menntaskólann á Akureyri. Þar kynntist hann Jóni Jónssyni frá Ljárskógum og bræðrunum Steinþóri og Þorgeiri Gestssonum frá Hæli í Gnúpverjahreppi og tókst með þeim mikill vinskapur sem varð kveikjan að MA-kvartettnum. Sá kvartett starfaði um tíu ára skeið (á árunum 1932-42) og varð fljótt vinsæll á landsvísu. Jakob var á þeim tíma einnig farinn að syngja einsöng og söng m.a. í útvarpssal 1936. Hann söng bassarödd.

Þegar MA-kvartetts tímabilinu lauk var Jakob einn meðlima hans sem söng áfram svo einhverju næmi, hann varð þekktur söngvari og söng einsöng við ýmis tækifæri á skemmtunum en einnig tvísöng, oftast með Ágústi Bjarnasyni en þeir sungu mest svokallaða Gluntasöngva eða stúdentasöngva sem nutu mikilla vinsælda.

Ekki liggja þó margar upptökur útgefnar með Jakobi, Íslenzkir tónar gáfu út tvær tveggja laga plötur með honum 1954 og 55 þar sem Carl Billich lék undir á píanó. Þar er m.a. að finna lagið Söngur villiandarinnar en ljóðið var eftir Jakob sjálfan, samnefnd bók með myndskreytingum átti síðar eftir að koma út og verða sígild en Jakob orti fjöldann allan af ljóðum, hann samdi einnig sönglög. Í plötuskrá Jóns R. Kjartanssonar segir að Jakob syngi tvíraddað á síðari plötunni (1955) og er það líklega í fyrsta skipti sem slíkri tækni er beitt hérlendis við plötuupptökur, þarna var Jakob klárlega orðinn einn af vinsælustu dægurlagasöngvurum samtímans.

Plötur með Gluntasöng Jakobs og Ágústs Bjarnasonar áttu einnig eftir að koma út 1955 á vegum Íslenzkra tóna en einnig kom eitt laganna (Fyrir sunnan Fríkirkjuna) út aftur 1956 á fjögurra laga plötu þar sem Jakob söng ásamt öðrum söngvurum.

Eftir að söngferli Jakobs lauk sneri hann sér að öðrum málum, hann var lögfræðingur að mennt og vel þekktur fyrir lögfræðistörf sín en einnig fyrir taflmennsku og laxveiðiáhuga svo dæmi um tómstundir hans séu nefnd, á síðari árum sínum sneri hann sér að myndlist og hélt hann margar sýningar á efri árum. Jakob var ennfremur kunnur fyrir störf sín fyrir ungmenna- og íþróttahreyfinguna og var m.a. formaður ÍR til fjölda ára auk þess sem hann var einn af stofnendum íþróttafélagsins Völsungs á Húsavík á sínum yngri árum. Fyrir þetta allt var hann landsþekktur.

Jakob lést eftir stutt veikindi árið 1982.

Lög flutt af Jóhanni hafa komið út á ýmsum plötum tengdum MA-kvartettnum en einnig á safnplötum hin síðari ár s.s. Stóra bílakassettan VII (1980), Svona var 1954 (2005) og 1955 (2005) og Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 (1977).

Efni á plötum