Jah (1998-99)

Jah

Jah var eins konar rafhljómsveit sem keppti í Músíktilraunum 1998 og komst reyndar í úrslit, þá voru meðlimir sveitarinnar Kristján Sveinn Kristjánsson, Guðmundur Ásgeirsson, Einar Johnson og Albert Snær Guðmundsson sem allir forrituðu og spiluðu á tölvur.

1999 tók sveitin aftur þátt og hlaut verðlaun fyrir forritun á þeim Músíktilraunum þrátt fyrir að komast ekki í úrslit. Þeir Albert og Kristján Sveinn skipuðu sveitina líkt og fyrra árið auk Kristjáns Hafberg Kristjónssonar en Guðmundur og Einar voru þá hættir.

Um þetta leyti var heilmikil umræða um rafsveitirnar, hvort meðlimir þeirra sveita væru e.t.v. óþarfir uppi á sviðinu þar sem tónlistin var að miklu leyti forunnin. Jah-flokkurinn svaraði þessu með því að spila Ólsen Ólsen á sviðinu á meðan lögin hljómuðu, þess má þó geta að „hljóðfærið“ sem notað var til að spila tónlist sveitarinnar á undankvöldinu vorið 1999 var Playstation leikjatölva en geisladiskur var einfaldlega settur í hana og hann spilaður með því að ýta á réttu takkana í réttri röð á fjarstýringunni en því var stjórnað af meðlimum sveitarinnar og því ekki hægt að segja að þeir hafi verið alveg aðgerðarlausir á sviðinu.

Sveitin tók upp nokkuð af efni sem er fullunnið en hefur aldrei verið gefið út formlega.