Strigaskór nr. 42 (1989-95 / 2007-)

Strigaskór nr. 42 1990

Hljómsveitin Strigaskór nr. 42 vakti mikla athygli þegar hún birtist með látum í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1990 með dauðarokk sem þá var reyndar nokkuð í tísku en þeir félagar voru þá rétt um fjórtán ára gamlir, sveitin þróaðist hins vegar nokkuð frá dauðarokkinu eftir því sem árin liðu og gerði ýmsar tilraunir sem féllu tónlistarspekúlöntum mjög í kramið. Það ætti því ekki að koma á óvart að lagasmiður sveitarinnar nam tónsmíðar og aðrir meðlimir hennar fóru síðar um víðan völl í tónlistinni.

Sveitin mun hafa verið stofnuð 1989 í Snælandsskóla Kópavogi en einhverjir meðlima hennar höfðu áður verið í The Professionals. Hlynur Aðils Vilmarsson gítarleikari og söngvari og Ari Þorgeir Steinarsson trommuleikari voru stofnmeðlimir sveitarinnar en síðan bættist Kjartan Róbertsson bassaleikari við, þeir voru allir fjórtán ára. Sagan segir reyndar að Kjartan hafi víst eitthvað lítið kunnað á hljóðfærið en hann var með sítt hár og mun það hafa dugað til að komast í sveitina.

Strigaskórnir kepptu síðan í Músíktilraunum 1990, reyndar eftir að einhver félagi þeirra skráði þá til keppni. Þar vöktu þeir athygli fyrir ferskt dauðarokk, komust í úrslitin en höfðu þar ekki erindi sem erfiði – Hlynur samdi alla tónlistina og þótti þarna strax efnilegur á því sviði. Eftir Músíktilraunir fór ekki mikið fyrir sveitinni um tíma, þeir félagar spiluðu þó á tónleikum í Hafnarfirði um sumarið og svo veturinn eftir í Fellahelli en varla mikið meira en það.

Sveitinni bættist liðsstyrkur þegar Gunnar Reynir Valþórsson gítarleikari kom inn í hana og þannig skipuð tóku þeir aftur þátt í Músíktilraunum vorið 1991 og komst þar aftur í úrslit. Þeir félagar ætluðu sér svo í þriðja skiptið í tilraunirnar vorið 1992 til að taka þær með trompi en komust ekki að í þetta skiptið, líklega voru þeir of seinir að sækja um þátttöku. Samt sem áður urðu þeir nú öllu virkari á tónleikasviðinu eftir þetta, orðnir sextán ára gamlir og léku víða um sumarið 1992 s.s. aftur í Fellahelli og óháðu listahátíðinni Loftárás á Seyðisfjörð. Þetta sama ár kom út eins konar safn- eða splitplata þar sem Strigaskórnir, In memoriam og Sororicide skiptu með sér tónlistinni (þrjú lög hver sveit) en platan bar heitið Apocalypse og er löngu orðin sígild (og uppseld) í harða rokkinu, sveitin fékk almennt góða dóma fyrir framlag sitt þar. Reyndar reyndi sveitin fyrir sér á erlendum markaði um svipað leyti, gaf þá út fjögurra laga kassettu undir nafninu Watership down en kassettan bar titilinn Continuation – ástæðan fyrir nafnabreytingunni var líklega sú að þeir höfðu ekki leyfi frá Skífunni (sem gaf Apocalypse út) til að gefa lögin út og því brugðu þeir á þetta ráð.

Strigaskór nr. 42

Ekkert bar á sveitinni veturinn 1992 til 93 og sumarið 1993 virðist hún einungis hafa komið fram á óháðu listahátíðinni Ólétt ´93 á tónleikum í Faxaskála, það sama var uppi á teningnum veturinn á eftir en vorið 1994 lifnaði loks almennilega yfir sveitinni og þá hafði hún reyndar tekið nokkrum breytingum frá upphaflegu tónlistinni, í stað dauðarokksins var nú komið hart rokk með skírskotanir vissulega í dauðarokkið en einnig í allt aðrar áttir og jafnvel mátti greina áhrif frá klassískri tónlist. Strigaskórnir léku nokkuð þetta vor og um sumarið og á sama tíma hljóðrituðu þeir níu laga plötu sem kom svo út um haustið undir titlinum Blót en hana gáfu þeir félagar út sjálfir og tileinkuðu hana minningu Fróða Finnssonar (úr Sororicide o.fl. sveitum) sem þá var látinn eftir erfið veikindi. Á plötunni nutu þeir m.a. aðstoðar Nönnu Kristínar Jóhannsdóttur söngkonu og Snorra Heimissonar flautuleikara og þau tvö komu nokkuð fram með sveitinni um haustið – og voru reyndar sögð vera meðlimir hennar. Auk þeirra tveggja naut sveitin aðstoðar tveggja fiðluleikara sem segir nokkuð til um hvert tónlistin var að þróast. Blót hlaut góða dóma í Morgunblaðinu og Helgarpóstinum og í ársuppgjöri dagblaðanna um áramótin skipaði platan sér meðal þeirra bestu, á nýju ári hlaut Hlynur jafnframt tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem bjartasta vonin.

Á árinu 1995 reri sveitin á ný mið þegar hún tók þátt í leikhúsuppfærslu Herranætur í Menntaskólanum í Reykjavík á leikritinu Baal eftir Berthold Brecht en Hlynur samdi þar alla tónlistina. Sveitin var því um tíma nokkuð bundin æfingum og leiksýningum en spilaði töluvert á tónleikum um vorið, um sumarið dró hins vegar nokkuð úr tónleikahaldi og seint í júní barst út að sveitin væri að hætta, í kjölfarið hélt hún kveðjutónleika í Tunglinu enda stóð þá til að þeir færu hver í sína áttina og erlendis í nám, þeir voru þá allir rétt tæplega tvítugir að aldri.

Þó svo að þeir fjórmenningar sinntu öðrum verkefnum næstu árin voru flestir þeirra viðloðandi tónlistina fyrir utan Gunnar Reyni sem síðar varð reyndar þekktur fjölmiðlamaður, Hlynur fór og nam tónsmíðar, er reyndar virtur í dag á því sviði, og lék með sveitum eins og Trabant, Kjartan bassaleikari lék með sveitum eins og Ensími og Ari Þorgeir trymbill með Soðinni fiðlu og Stjörnukisa, sem báðar sigruðu Músíktilraunir (1996 og 1997).

Sögu Strigaskónna var síður en svo lokið, árið 2001 birtust sveitin óforvandis og lék óútgefið efni en þeir félagar höfðu  þá verið að vinna að plötu sem m.a. hefði að geyma tónlistina úr Baal leikritinu, sveitin kom þá fram á Iceland Airwaves sem þá var að slíta barnsskónum. Ekki fór þó svo að platan kæmi út og sveitin lagðist aftur í híði og svaf rólegum svefni í önnur sex ár, þeir komu fram á sjónarsviðið á nýjan leik sumarið 2007 og héldu áfram að vinna að plötunni. Að þessu sinni voru þeir félagar mun virkari á tónleikasviðinu, léku á Airwaves og eitthvað meira og ráðgert var að platan kæmi út á nýju áru – 2008.

Strigaskórnir árið 2001

Enn gerðist þó ekkert og það varð ekki fyrr en árið 2012 að Strigaskórnir reis almennilega upp úr svefninum, sveitin lék þá um sumarið á Eistnaflugi og um haustið á Airwaves og eitthvað víðar en áttu aukinheldur tvö lög í kvikmyndinni Svartur á leik. Það var svo ári síðar, 2013 að platan leit loks dagsins ljós – reyndar stafrænt en svo virðist sem einnig hafi verið framleiddir geisladiskar. Platan fékk nafnið Armadillo og var tíu laga, hún hlaut góða dóma í tímaritinu Ský en ekki virðast fleiri dóma hafa birtst um hana, hún hlaut þó Kraumsverðlaun og var framarlega í tónlistaruppgjöri Morgunblaðsins í árslok. Í kjölfar útgáfu plötunnar lék sveitin m.a. á Rokkjötnahátíðinni og um haustið á Airwaves. Um það leyti spurðist út að sveitin hefði landað samningi við pólska útgáfufyrirtækið Helltrasher production en efnisleg útgáfa plötunnar (í takmörkuðu upplagi á geisladiski) dróst til ársins 2015 en hlaut ágætar viðtökur.

Strigaskór nr. 42 störfuðu eitthvað áfram næstu tvö árin eftir útgáfu Armadillo en hefur lítið látið fara fyrir sér síðustu árin, ekki er þó hægt að útiloka neitt um hvort sveitin sé lífs eða liðin.

Efni á plötum