Iceland Airwaves 2022 – laugardagskvöld

Ólafur Kram

Iceland Airwaves heldur áfram, í dag hefur fjöldi off venue viðburða verið á boðstólum en með kvöldinu hefst aftur skipulögð dagskrá hátíðarinnar og hér má sjá allt sem verður í boði. Þá eru hér að neðan einnig kynntar fáeinar hljómsveitir.

Vök – Vök er að gera garðinn heldur betur frægan og sveitin er í kvöld að spila í Listasafninu klukkan 22:00. Vök gaf út sína þriðju plötu fyrr á þessu ári, samnefnda sveitinni en áður hafði hún sent frá sér plöturnar In the dark (2019) og Figure (2017) auk fjölda smáskífna frá árinu 2015 en Vök hefur starfað frá árinu 2013, hún var stofnuð fáeinum vikum áður en hún sigraði Músíktilraunir.

Skrattar – Hljómsveitin Skrattar byrjaði sem dúett árið 2015 en er í dag fullmönnuð rokksveit sem hefur vakið athygli fyrir tónlist sína. Sveitin á nokkrar smáskífur og tvær breiðskífur, sú síðari kom út á síðasta ári og ber nafnið Hellraiser IV. Skrattar spila hátt og verða á Húrra í kvöld klukkan 23:30.

Skrattar

Ólafur Kram – Hljómsveitin Ólafur Kram sigraði Músíktilraunir á síðasta ári, sendi frá sér nokkur lög þá og í fyrra en þeirra fyrsta plata, ellefu laga platan Ekki treysta fiskunum kom út á dögunum og hefur vakið töluverða athygli. Sveitina skipa Birgitta Björg, Eydís, Guðný Margrét, Iðunn Gígja og Sævar Andri, en hún kemur fram á Húrra klukkan 20:30.

Árstíðir – Þjóðlagarokksveitin Árstíðir er gamalreynd sveit, hefur verið starfandi síðan 2008 og leikið víða erlendis í gegnum tíðina. Sveitin á að baki einar sex breiðskífur og kom sú síðasta út á síðasta ári og bar nafnið Pendúll. Árstíðir hefur í grunninn verið tríó en er oftar en ekki fjölskipaðri á tónleikum. Sveitin kemur fram í Gamla bíó í kvöld klukkan 20:10.