Stykk (1975-2000)

Stykk 1975

Hljómsveitin Stykk frá Stykkishólmi starfaði í áratugi og lék á dansleikjum í heimabyggð og miklu víðar, sveitin hafði frumsamda tónlist á takteinum og um það leyti sem hún fagnaði tuttugu og fimm ára afmæli gaf hún út plötu.

Stykk mun hafa verið stofnuð sumarið 1975 í Stykkishólmi en ein heimild segir reyndar að hún hafi verið stofnuð haustið 1974. Upphaflegir meðlimir hljómsveitarinnar voru þeir Elfar Gunnlaugsson gítarleikari, Smári Axelsson trommuleikari, Aðalsteinn Sigurðsson hljómborðsleikari, Eyjólfur Gunnlaugsson bassaleikari og Þorgeir Njálsson söngvari. Þeir Elfar og Eyjólfur eru bræður og líklega voru alltaf bræður starfandi í sveitinni þrátt fyrir að mannabreytingar væru tíðar innan hennar.

Stykk er fyrst auglýst í dagblöðum haustið 1975 en sveitin lék þá á framsóknarballi í Hólminum og gerði það reyndar nokkuð oft á fyrstu starfsárum hennar, hún gerði þó víðreist og lék t.a.m. nokkuð norður á Ströndum og einnig á suðvesturhorninu. Þeir félagar buðu upp á venjulegt dansleikjaprógram en fylgdu jafnframt straumum og stefnum eins og sveitir gera oft, tóku t.d. nýbylgju- og pönktímabil þegar það átti við en lék þess á milli á árshátíðum og þorrablótum.

Mannabreytingar voru miklar í Stykk og sjálfsagt vantar töluvert inn í þá upptalningu sem hér fer í þessari umfjöllun. Þannig liggur ekki fyrir hversu lengi upphaflega útgáfa sveitarinnar starfaði en í kringum 1980 voru í henni Heimir Laxdal Jóhannsson gítarleikari, Pétur Rafnsson bassaleikari og Elfar gítarleikari en sá síðast taldi er sá eini sem var alla tíð í sveitinni, ekki liggur fyrir hverjir aðrir voru með þremenningunum þarna en um haustið 1983 var sveitin skipuð þeim Heimi, Pétri, Elfari, Einari Erni Steinarssyni trommuleikara og Jóhanni Kristni Rafnssyni [hljómborðsleikara og söngvara?]. Hugsanlega voru á einhverjum tímapunkti meðlimir í sveitinni sem hétu Lárus [?] og Eyþór [?] en frekari upplýsingar er ekki að finna um þá – eða hvort þeir voru yfirhöfuð meðlimir hennar.

Stykk frá Stykkishólmi

Stykk starfaði líklega fram að áramótum 1984-85, jafnvel eitthvað aðeins lengur áður en hún hætti störfum. Sveitin var þó ekki endanlega hætt því hún var endurreist um áratug síðar, en árið 1994 birtist hún á nýjan leik. Meðlimir hljómsveitarinnar voru þá allir búsettir á höfuðborgarsvæðinu og léku þar jafnt sem í átthögunum á Snæfellsnesinu næstu árin. Elfar var þá sem fyrr í Stykk en þá hafði Elvar Þór Steinarsson söngvari einnig slegist í hópinn, ekki liggur fyrir hverjir aðrir voru í sveitinni á þeim tímapunkti en hér er giskað á að Eyjólfur bassaleikari (sem var í upphaflegu útgáfu sveitarinnar) Einar Örn trommari og Sigurður Sigurþórsson gítarleikari hafi þá einnig skipað sveitina en þannig var hún allavega skipuð 1999, þeir Einar Örn og Elvar Þór eru bræður rétt eins og Elfar og Eyjólfur.

Stykk var töluvert virk á þessu síðara starfstímabili, lék t.a.m. bæði í Stykkishólmi og nágrenni og á höfuðborgarsvæðinu en var einnig t.d. húshljómsveit á Hótel Örk í Hveragerði einn veturinn. Þá var sveitin árlegur gestur á Dönskum dögum í Stykkishólmi um árabil.

Stykk á síðar starfsárum

Árið 1999 eða um það leyti sem Stykk fagnaði tuttugu og fimm ára afmæli sendi sveitin frá sér tíu laga plötu samnefnda sveitinni, á henni var að finna frumsamið efni frá ýmsum tímum og voru elstu lögin frá 1975 þannig að segja má að þau hafi verið eins konar þverskurður af því sem sveitin var að gera í gegnum áranna rás.

Sveitin virðist ekki hafa starfað lengi eftir útgáfu plötunnar, hún hélt lokadansleik sinn haustið 2000 en hefur þó eitthvað komið saman í einhverri mynd á síðustu árum.

Efni á plötum