Birta (1973-75)

Birta

Hljómsveitin Birta starfaði í ríflega eitt ár um miðjan áttunda áratug síðustu aldar og lék einkum það sem kallað var „brennivínstónlist“, þ.e. dæmigerða sveitaballatónlist eftir aðra. Sveitin læddi þó einu og einu frumsömdu lagi inn á milli.

Birta var stofnuð haustið 1973 af Björgvini Björgvinssyni trommuleikara en auk hans voru í sveitinni Birgir Árnason gítarleikari, Hallberg Svavarsson bassaleikari, Hjalti Gunnlaugsson gítarleikari og Hilmar Smith söngvari.

Sveitin mun hafa gengið í gegnum miklar mannabreytingar þann tíma er hún starfaði og ekki liggja fyrir heimildir um þær, þeir sem skipuðu sveitina í upphafi árs 1975 voru auk Björgvins sem var þá einn eftir af stofnmeðlimum, þeir Pétur Hjaltested hljómborðsleikari, Atli Viðar Jónsson bassaleikari og Kristján Bárður Blöndal gítarleikari. Í blálokin (febrúar 1975) trommaði Ari Jónsson með henni og einnig mun gítarleikari að nafni Vilhjálmur [?] hafa verið í henni þá.

Ný sveit var stofnuð upp úr Birtu, hún hlaut nafnið Borgís og sendi frá sér litla plötu með frumsamda efninu sem Birta hafði unnið með.