
Súld
Hljómsveitin Súld vakti heilmikla athygli á níunda áratug síðustu aldar og fram á tíunda áratuginn en sveitin lék eins konar spunadjass, bræðingstónlist með áhrif úr rokki, fönki og víðar. Þó mætti segja að sveitin hafi verið jafn eftirsótt til spilamennsku erlendis heldur en hér á landi því hún fór alloft utan.
Tildrög þess að Súld var stofnuð sumarið 1986 voru þau að Steingrímur Guðmundsson trommuleikari var þá nýkominn frá námi í Bandaríkjunum og hafði hug á að spila „öðruvísi“ djass, hann stofnaði því sveitina ásamt pólska fiðluleikaranum Szymon Kuran en sá var með klassískan bakgrunn og var varakonsertmeistari við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þeir fengu til liðs við sig Stefán Ingólfsson bassaleikara og þremenningarnir komu fljótlega opinberlega fram á skemmtistaðnum Roxzý þar sem þeir léku frumsamda og framsækna djasstónlist sem féll vel í kramið hjá djassgeggjurum enda um óhefðbundna hljóðfæraskipan að ræða hjá djasssveit. Tríóið lék fljótlega aftur á Hótel Borg og síðan í nokkur skipti fram að áramótum og bættist gítarleikarinn Tryggvi J. Hübner fljótlega í hópinn. Þannig skipuð lék Súld svo í beinni útsendingu á Rás 1 svo sveitin náði fljótlega athygli annarra en þeirra sem sóttu tónleika, þá var sveitin einnig fengin að leika ásamt Glenn Miller band og fleirum á áramótadansleik á Broadway þannig að sveitin hafði þá þegar á fáeinum mánuðum fest sig í sessi.
Eftir þessa öflugu byrjun fór Súld í stutt frí áður en sveitin hófst aftur handa við að leika á tónleikum en fram á vorið 1987 lék sveitin reglulega í Duus húsi og Hótel Borg, Þorsteinn Magnússon tók sæti Tryggva og lék með sveitinni um tíma, m.a. á Skerpluhátíð ´87 sem haldin var á vegum Musica nova um vorið. Sveitin var þá ýmist tríó eða kvartett um það leyti – með eða án gítarleikara en kjarninn var ávallt sá sami, Steingrímur, Szymon og Stefán.

Súld 1988
Fyrir tengsl Steingríms við bandarískt tónlistarlíf var Súld boðið um sumarið að leika á stórri djasshátíð í Montreal í Kanada og þangað hélt sveitin og lék fyrir um fimmtán þúsund manns, Tryggvi gítarleikari fór með Súld vestur um haf og vakti sveitin mikla athygli á hátíðinni og einkum fyrir framlag Szymons á fiðluna og óvenjulegt hlutverk hljóðfærisins í spunadjassinum. Það varð því úr að Súld var boðið að koma á hátíðina aftur að ári liðnu.
Þeir félagar sáu við svo búið að ekki þýddi annað en að vera með útgefna plötu fyrir næstu hátíð og hófu undirbúning að útgáfu hennar með því að semja efni. Um haustið bættist nýr liðsmaður í sveitina, hljómborðs- og flautuleikarinn Lárus H. Grímsson en sveitin lék þó lítið framan af hausti, reyndar ekki fyrr en í nóvember. Á fyrri hluta ársins 1988 lék Súld í nokkur skipti á tónleikum og hafði þá hollenski víbrafón- og slagverksleikarinn Martin van der Malk bæst í hópinn en Tryggvi var þá hættur, hann kom því ekki við sögu á plötunni sem kom út um vorið og hlaut nafnið Bukoliki. Súld og Grammið gáfu plötuna út sem var átta laga og var Friðrik Karlsson gestagítarleikari í tveimur þeirra en Stefán bassaleikari samdi flest laganna, Lárus stjórnaði upptökum. Bukoliki hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu.
Súld hélt nú til Kanada á nýjan leik um sumarið 1988 með plötu í farteskinu og vakti athygli sem fyrr, þar fyrir utan lék sveitin á nokkrum tónleikum utan hátíðarinnar og m.a. á Íslendingaslóðum, eitthvað var þó minna um að sveitin léki en til stóð vegna óhagstæðs veðurfars. Um haustið stefndi sveitin á tónleikaferð um Ísland en líklega varð ekkert úr þeirri reisu og þeir félagar fóru í góða pásu frá tónleikahaldi og við tók langt hlé.
Snemma vorið 1990 birtist Súld á nýjan leik eftir pásuna og um leið með nokkur breytta skipan, annars stofnenda sveitarinnar Szymon Kuran var þá horfinn á braut og Steingrímur einn eftir af upprunalegu meðlimunum, þá var Stefán bassaleikari einnig hættur og við hans hlutverki tók Páll E. Pálsson, Tryggvi gítarleikari var aftur kominn inn í hópinn en auk þeirra voru Lárus og Martin í sveitinni þannig að hana skipuðu nú fimm manns. Þó svo að Súld hefði ekki spilað opinberlega lengi höfðu þeir ekki beinlínis verið í fríi og sveitin var því ágætlega spilandi þegar hún tók til við tónleikahald á nýjan leik. Súld lék í nokkur skipti á Duus, Borginni og einnig á Gauki á Stöng, þá lék sveitin einnig á djasshátíð Reykjavíkur snemma um sumarið og fór svo til að leika á Akureyri áður en þeir félagar héldu enn á ný til Montreal og að þessu sinni lék sveitin fyrir um fimmtíu þúsund manns á útisviði þannig að vegur hennar var í raun mun meiri erlendis heldur en nokkru sinni hér heima þar sem hún naut reyndar vinsælda og virðingar en hjá fremur litlum hópi djassáhugamanna hér á landi enda er og var markaðurinn fyrir þessa tegund tónlistar afar smár í sniðum hérlendis.

Súld
Um haustið 1990 kom svo út ný plata með Súld en hún bar heitið Blindflug / Flying on instruments og eins og titillinn gefur til kynna var henni einnig ætlað að koma út á erlendum markaði, Geimsteinn gaf plötuna út sem hlaut góða dóma í tímaritinu Þjóðólfi, DV, Morgunblaðinu og Þjóðviljanum. Platan þótt nokkuð léttari en sú fyrri en þeir félagar sömdu flestir efnið á henni þótt Lárus væri þar sýnu fyrirferðamestur. Blindflugi var fylgt nokkuð eftir með tónleikahaldi fram að jólum í Reykjavík, Akureyri og Keflavík en eftir áramót fór sveitin í stutta pásu.
Súld kom aftur fram á sjónarsviðið í febrúar 1991 og hafði ýmis plön á prjónunum, þá hafði verið ákveðið að sveitin færi í fjórða sinn vestur um haf en einnig að þeir félagar myndu leika ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Háskólabíói þar sem þeir myndu m.a. leika lög eftir Szymon Kuran, þeir tónleikar voru um vorið en fram að því lék sveitin reglulega í Duus húsi en einnig á Akureyri. Sveitin lék sem fyrr á Montreal hátíðinni en lítið spurðist svo til hennar fyrr en um haustið að hún lék á opnunarhátíð í tilefni að því að þeir Steingrímur og Martin settu á fót hljóðfæraverslunina Samspil sem sérhæfði sig í slagverki og ásláttarhljóðfærum.
Hér var líklega komin nokkur þreyta í mannskapinn enda fylgdu sveitinni löng ferðalög þegar ferðast var um Ameríku og litli markaðurinn hér heima gaf ekki beinlínis af sér fjárhagslega. Súld lék þó eitthvað á nýju ári 1992 en mesta athygli vakti þegar sveitin kom fram snemma vors ásamt tyrkneska tónlistarmanninum Hadji Tekbilek á þrennum tónleikum á Púlsinum við Vitastíg, þar voru reyndar bara eftir í sveitinni þeir Steingrímur, Tryggvi og Páll.

Súld 1992
Svo virðist sem starfsemi sveitarinnar hafi legið alveg niðri um sumarið og spurðist ekkert til hennar fyrr en um haustið 1992 að hún lék á norrænni menningarhátíð í London að undirlagi menningarfulltrúans Jakobs Frímanns Magnússonar, þar var sveitin gjörbreytt – skipuð þeim Steingrími, Ástvaldi Traustasyni hljómborðsleikara, Hilmari Jenssyni gítarleikara og Arnold Ludvig bassaleikara. Það eitt og sér benti til að dagar sveitarinnar væru nú á enda þrátt fyrir að Steingrímur segðist í blaðaviðtali reikna með að þessi nýja útgáfa sveitarinnar myndi eitthvað spila á tónleikum heima á Íslandi. Það varð þó ekki og þar með var sögu bræðingssveitarinnar Súldar lokið eftir sex ára sögu og tvær plötur.
Þess má svo geta að Bukoliki var endurútgefin á geisladiski árið 2006 en hún hafði áður líkast til eingöngu komið út á vínylplötuformi.