Szymon Kuran (1955-2005)

Szymon Kuran

Fiðluleikarinn Szymon Kuran er einn þeirra fjölmörgu erlendu tónlistarmanna sem hingað hafa komið, fest hér rætur og sett svip sinn á tónlistarlíf landsmanna. Hann var mikilsvirtur fiðluleikari og tónskáld, lék alls konar tónlist og er hana að finna á fjölmörgum útgefnum plötum hérlendis.

Szymon Jakob Kuran fæddist í Póllandi síðla árs 1955 og fljótlega var ljóst að þar færi músíkalskt barn, hann nam fyrst í heimalandinu og síðar í Bretlandi, bæði á fiðlu og tónsmíðar en var einnig liðtækur píanóleikari og sjálfsagt voru fleiri hljóðfæri honum töm. Í Póllandi stofnaði hann kammersveitina Polska Filharmonika Kamerlana sem hann starfaði með í um átta ár og þá var hann um tveggja ára skeið (1981-83) konsertmeistari Baltnesku fílharmóníusveitarinnar. Þegar hann var við framhaldsnám í London árið 1984 var honum bent á atvinnuauglýsingu frá Sinfóníuhljómsveit Íslands sem vakti áhuga hans, og eftir að hafa gengist undir hæfnispróf og starfsviðtal réðist hann hingað til lands og bjó hér síðar til æviloka enda giftist hann íslenskri konu og eignaðist með henni börn.

Szymon starfaði með Sinfóníuhljómsveit Íslands samfleytt á árunum 1984 til 2000 sem annar konsertmeistari og lék margsinnis einleik með sveitinni í hinum ýmsu verkum og jafnframt inn á fjölda hljómplatna, hann hætti með sveitinni um aldamótin til að sinna eigin hugverkum – tónsmíðum sem hann hafði aldrei gefið sér nægilegan tíma til að vinna að en hóf svo síðar að leika aftur með sveitinni sem almennur fiðluleikari. Þá starfaði hann einnig með öðrum stærri sveitum landsins, s.s. Kammerhljómsveit Akureyrar og síðan Sinfóníuhljómsveit Norðurlands þegar hún varð til úr fyrrnefndri sveit og þar var hann konsertmeistari, en einnig lék hann með hljómsveit Íslensku óperunnar sem og smærri strengjasveitum af ýmsu tagi, og stjórnaði oft slíkum sveitum. Szymon var síður en svo einskorðaður við klassíkina því hann stofnaði og starfrækti með öðrum djass-, spuna- og þjóðlagatengdar hljómsveitir eins og Súld, Kuran swing, Kuran kompaní og síðast Pól-Ís en sú sveit lék Balkantónlist. Hann fékkst jafnframt við leikhús- og kvikmyndatónlist og má heyra leik hans t.a.m. í ólíkum verkum eins og Börnum náttúrunnar, Grease, Kristnihaldi undir jökli og Regínu.

Eins og vænta má lék Szymon inn á fjölda platna með þeim sinfónísku hljómsveitum sem hann starfaði með en einnig með fyrrnefndum minni sveitum hér að framan, fjölbreytni einkennir hins vegar þá tónlist sem hann lék á plötum annarra listamanna og hljómsveita og hér má nefna ólíka flytjendur eins og Önnu Halldórsdóttur, Botnleðju, Land og syni, Sixties, Egil Ólafsson, Jóhann Helgason, Bubba Morthens, Árna Johnsen, Pál Óskar, Sigur rós og Rússíbana svo einungis fáein dæmi séu nefnd.

Szymon Kuran

Þá eru ótalin tónverk og tónlist sem hann ýmist gaf út í eigin nafni og/eða með öðrum og þá sem hann samdi sjálfur og kom út á plötum, sú fyrsta var með hljómsveitinni Súld – Bukoliki (árið 1988) og í kjölfarið fylgdi plata með Kuran swing (samnefnd sveitinni) og kom út árið 1992 – önnur plata kom út með þeirri sveit árið 2000 undir titlinum Music to my ears (sem Kaupþing notaði í alþjóðlegu markaðsstarfi sínu). Kuran kompaní gaf út plötuna Live from Reykjavík árið 2000 og ári síðar kom út platan Requiem / Post mortem þar sem Kammersveit Reykjavíkur, kórar, einsöngvarar og einleikarar (þ.m.t. Szymon Kuran sjálfur) léku verk hans en fyrrnefnda verkið (Requiem) er fyrsta sálumessan í fullri lengd sem samin er á Íslandi, platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu. Árið 2004 kom út tónlistin úr ballettnum Ramónu prinsessu (e. Önnu Kolfinnu Kuran (dóttur Szymons) og Ingu Huld Hákonardóttur) en Szymon hafði samið tónlistina, annars samdi hann tónverk af ýmsu tagi og fékkst jafnframt við útsetningar á annarra manna verkum einnig.

Szymon Kuran varð ekki langlífur, hann lést sumarið 2005 rétt tæplega fimmtugur að aldri en hann hafði þá átt við andleg veikindi að stríða um nokkurt skeið. Hann var jarðsettur í Póllandi en honum var sungin sálumessa hér á Íslandi, minningartónleikar voru haldnir um hann um haustið þegar hann hefði fagnað fimmtugs afmæli sínu og aðrir minningartónleikar haustið 2006. Um það leyti kom svo út fjögurra diska safn með tónlist sem þeir Reynir Jónasson harmonikkuleikari höfðu leikið á nokkrum tónleikum árið 2005 í gamla pósthúsinu við Brúnaveg en safnið bar titilinn Szymon Kuran og Reynir Jónasson – Gamla pósthúsið: Reykjavík 2005, og fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu. Þeir Reynir og Szymon höfðu þá starfað nokkuð saman.

Szymon Kuran var ekki mjög þekktur í Póllandi en sálumessan Requiem eftir hann var frumflutt í Varsjá árið 2006 en þar hafði hann einmitt verið í tónlistarnámi, pólskur háskólakór gaf um svipað leyti út plötu með tónlist Szymons og kom sá kór til Íslands og hélt hér tónleika árið 2007. Hann hafði í lifanda lífi verið heiðraður í Póllandi fyrir tónsmíðar og útsetningar og hér heima á Íslandi hafði hann hlotið heiðursnafnbótina Borgarlistamaður Reykjavíkur árið 1994. Þess má svo að lokum geta að árið 2008 héldu 12 tónar úti tónlistardagskrá tileinkaða honum.

Efni á plötum