Sverrir Guðjónsson (1950-)

Sverrir Guðjónsson 1961

Líklega eru fáir sem hafa komið að íslenskri tónlist með jafn fjölbreytilegum hætti sem söngvari en Sverrir Guðjónsson en hann hefur sungið bæði á tónleikum og á plötum sem barnastjarna, gömludansasöngvari, þjóðlagasöngvari, poppsöngvari, spunadjasssöngvari, kórsöngvari og kontratenórsöngvari með áherslu á barrokk og endurreisnartónlist en hann hefur einnig leikið á trommur, gítar og píanó, komið fram sem tón- og ljóðskáld og á síðustu áratugum að mun fleiri listgreinum ýmist sem þátttakandi, við listræna stjórnun eða verkefnastjórnun.

Sverrir Guðjónsson er fæddur snemma árs 1950 í Reykjavík og hefur búið þar alla tíð fyrir utan tímann sem hann hefur dvalist erlendis. Faðir hans var harmonikkuleikarinn og hljómsveitastjórinn Guðjón Matthíasson en hann hafði byrjað að leika á nikkuna um það leyti sem Sverrir fæddist og því ólst Sverrir að nokkru leyti upp við að heyra harmonikkutónlist og hóf hann snemma að syngja með því prógrammi. Það var því engin tilviljun að Sverrir hæfi söngferil sinn ungur að árum en faðir hans fékk hann sjö ára gamlan til að stíga með sér á svið á dansleik á Hellissandi en Guðjón var ættaður af Snæfellsnesinu og lék þar árlega á dansleikjum og var fjölskyldan því með í för.

Sverrir varð því snemma sviðsvanur og átti eftir að starfa mikið með föður sínum í hljómsveitastússinu þó ekki yrði það alveg strax, reyndar stóð til að hann myndi syngja ásamt öðrum ungum og efnilegum dægurlagasöngvurum (sem flestir voru um tvítugt) á tónleikum í Silfurtunglinu (síðar Austurbæ) um haustið 1958 en barnaverndaryfirvöld höfðu komist á snoðir um málið og var lögregla mætt á svæðið til að koma í veg fyrir sönginn enda var Sverrir þá einungis átta ára gamall. Barnaverndaryfirvöld komu þó ekki í veg fyrir að hann syngi á 30 ára fullveldishátíð í Félagsgarði í Kjós nokkrum vikum síðar en þar var eftir því tekið hversu lagviss hann var.

Og í kjölfarið hófst hinn eiginlegi söngferill með því sem kalla mætti barnastjörnu-tímabilið en á næstu árum átti Sverrir eftir að koma fram á margvíslegum skemmtunum t.d. kabarettsýningum og í tengslum við hátíðahöld á sumardaginn fyrsta, 17. júní og þess konar samkomum ýmist með föður sínum eða öðrum flytjendum s.s. Hljómsveit Aage Lorange, sem dæmi má nefna að hann söng með Tríói Snæfellings (sem innihélt líklega föður hans) í Tívolíinu í Vatnsmýrinni um verslunarmannahelgina 1961. Um það leyti var Sverrir orðinn býsna þekktur, hafði m.a. sungið í útvarpi og var gjarnan líkt við hinn ítalska Robertino sem þá um vorið hafði heiðrað Reykvíkinga með tónleikum en hann hafði þá barnungur öðlast alþjóðafrægð, það var reyndar ekki að ósekju sem Sverri var líkt við ítalska drenginn því hann söng nokkur ítölsk lög á borð við O sole mio, sem kom líklega til vegna þess að hann var í söngnámi hjá Sigurði Demetz (Vincenzo Demetz) sem þá var tiltölulega nýfluttur hingað til lands en Sverrir nam hjá honum í um tvö ár.

Það var svo árið 1962 þegar Sverrir var tólf ára að fyrsta platan með honum leit dagsins ljós, það var fimm laga plata gefin út af Fálkanum þar sem hann söng við undirleik Jan Morávek sem lék á gítar, harmonikku, bassa og píanó, sem reyndar eitt og sér þótti merkilegt. Eitt laganna á plötunni – Sonarkveðja (tangó) var eftir Guðjón föður Sverris. Önnur plata kom svo út ári síðar, fyrir jólin 1963 undir titlinum Sverrir Guðjónsson 13 ára (fyrri platan bar nafnið Sverrir Guðjónsson 12 ára) en á henni lék hljómsveit undir stjórn Guðna S. Guðnasonar harmonikkuleikara, Guðjón faðir Sverris samdi fjögur af fimm lögum plötunnar. Síðari platan var einnig gefin út af Fálkanum sem sendi nokkur eintök af henni utan og munu einhver laga með Sverri hafa verið leikin í norska ríkisútvarpinu í kjölfarið.

Sverrir auglýstur í Silfurtunglinu, barnaverndarnefnd kom í veg fyrir sönginn

Sverrir var sem fyrr segir orðinn vel þekkt barnastjarna og þótt hann yrði fyrir einhverri stríðni og áreiti hafði það lítil áhrif á drenginn sem einbeitti sér að námi og íþróttum næstu árin en var á fullu í tónlistinni á sama tíma og hóf fjórtán ára að leika á trommur í hljómsveit föður síns (hann mun einnig hafa lært á píanó og gítar) ásamt því að syngja með henni þrátt fyrir að vera rétt ófermdur. Hljómsveit Guðjóns (sem einnig gekk undir nafninu GM kvartettinn) átti eftir að leika um helgar á dansleikjum í Eldridansaklúbbnum og víðar en um miðjan sjöunda áratuginn lét hann sér duga trommuleikinn um tveggja ára skeið meðan hann var að fara röddina í gegnum mútutímabilið en kom svo af fullum krafti aftur inn sem söngvari með hljómsveitinni haustið 1966. Það vakti nokkra athygli að Sverrir hafði mun meiri áhuga á að syngja gömlu dansana sem á meðal jafnaldra hans voru gamaldags en lét bítlatónlistina eiga sig, í blaðaviðtali var hann jafnframt á gömlu dansa línunni og aðspurður sagðist hann reyndar halda mest upp á Stefán Íslandi óperusöngvara af öllum söngvurum.

Sverrir hélt sínu striki, söng og lék á trommur með hljómsveit föður síns á gömludansa-böllunum og var á sama tíma einnig í unglingalandsliðinu í knattspyrnu. Plata kom svo út með Sverri og hljómsveit Guðjóns haustið 1967 – Sverrir Guðjónsson syngur 6 íslenzk danslög eftir Guðjón Matthíasson og ári síðar kom út önnur fimm laga, báðar þessar plötur gaf Guðjón út undir merkjum GM-tóna og svo eina í viðbót árið 1970 þar sem Sverrir söng ásamt Hauki Þórðarsyni úr Keflavík. Þessar plötur vöktu ekki nándar nærri eins mikla athygli og plöturnar sem komu út upp úr 1960 enda stóð Sverrir þarna nærri tvítugu og jafnaldrar hans voru flestir mussuklæddir og síðhærðir að hlusta á miklu þyngri tónlist. Eftir stúdentspróf fór Sverrir fyrst í háskólann, fann sig ekki þar en lauk námi við Kennaraháskólann árið 1974 og samhliða því námi lék hann með hljómsveit föður síns á dansleikjum og stundum fór sveitin út fyrir borgarmörkin til að leika, s.s. í Hlégarði í Mosfellssveit og Stapa í Njarðvíkum. Sverrir söng ekki inn á fleiri plötur í bili en lék á trommur á nokkrum litlum harmonikkuplötum með föður sínum sem og á breiðskífu Friðbjörns G. Jónssonar og hljómsveitar Guðjóns Matthíassonar – Þar átti ég heima (1973).

Næstu árin fór lítið fyrir Sverri, hann hóf að kenna við Fossvogsskóla og sinnti kennslunni næstu árin og söng þá samhliða því í Kór Langholtskirkju, haustið 1975 birtist hann í þjóðlagatríóinu Þremli og þar með má segja að nýr tónn hafi verið sleginn því þarna kviknaði áhuginn fyrir þjóðlegri tónlistarhefð og jafnframt alþjóðlegum straumum en með honum í tríóinu var hins síberíska Kjuregej Alexandra. Þremill kom nokkuð fram á þjóðlagahátíðum og einnig í sjónvarpi og á næstu árum fann Sverrir sig enn frekar í þjóðlagagírnum þar sem hann hóf að starfa með Ferðaleikhúsinu sem fór með sýningar með þjóðlegu leik- og tónlistardagskrána Light nights fyrir erlenda ferðamenn, þar lék hann m.a. á langspil og söng einnig og fór m.a.s. með hópnum til Bandaríkjanna sumarið 1978.

Sverrir Guðjónsson

Sverrir söng á þessum árum í nokkur skipti einsöng á tónleikum með Langholtskirkjukórnum og var farinn að koma nokkuð fram sem einsöngvari, m.a. til að synja þjóðlög en hann var þarna farinn að læra söng hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur en hann hafði þá ekki verið í söngnámi síðan um tólf ára aldur hjá Sigurði Demetz. Og hann fór víðar í tónlistinni á þessum árum því sumarið 1979 gekk hann til liðs við hljómsveitina Pónik sem þá hafði starfað lengi og var gamalreynd popphljómsveit en með þeirri sveit söng hann inn á breiðskífuna Útvarp sem kom út 1980 og gekk ágætlega í landann þrátt fyrir að pönk og nýbylgja væru þá aðalmálið, á þeirri plötu er að finna frumsamið lag eftir Sverri en hann átti síðar eftir að bæta í þann banka.

Sverrir söng ekki lengi með Pónik því hann fann sig ekki í ballpoppinu, fannst hann staðna og hætti því sumarið 1982. Um það leyti var hann kominn í Tónlistarskóla FÍH þar sem hann skráði sig í nám við djassdeildina og lærði þar tónfræði og einnig söng – þó ekki hefðbundinn söng heldur djassspuna sem þó var reyndar ekki kenndur við skólann. Þó svo að hann hefði hætt í Pónik sagði hann ekki alveg skilið við poppið því hann hóf að syngja með Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar á tónlistarsýningum á Broadway og dansleikjum á eftir og átti eftir að plægja þann akur nokkuð næstu árin, hann varð jafnframt áberandi á sviði undankeppni Eurovision keppninnar hér heima en var þar mest í hlutverki bakraddasöngvara en fór reyndar með Eurovision-hópnum til Belgíu árið 1987 þegar framlag Valgeirs Guðjónssonar var þar flutt með söngkonunni Höllu Margréti Árnadóttur en þar á sviðinu lék Sverrir einnig á trommur. Á níunda áratugnum söng Sverrir inn á nokkrar plötur annarra tónlistarmanna og flytjenda eins og Ingva Þórs Kormákssonar, Heimavarnarliðsins, Sumargleðinnar, Bjarna Hjartarsonar, Ladda og Gunnars Þórðarsonar og hér má einnig nefna barnaplötuna Og það varst þú (1984) þar sem hann söng aðalrödd plötunnar ásamt hinum 14 ára gamla Páli Óskari Hjálmtýssyni, sem var á þeim tíma barnastjarna eins og Sverrir hafði sjálfur verið.

Sverrir hóf að vinna við dagskrárgerð í útvarpi árið 1983, fyrst í stað barnaefni en næstu áratugina átti hann eftir að hafa umsjón með margs konar dagskrárefni í fjölmiðlum og einkum útvarpi – með hléum þó, bæði tónlistarlegs eðlis sem og annars.

En annars konar söngur átti smám saman eftir að taka yfirhöndina hjá Sverri á næstu árum og áratugum, fjölbreytnin var reyndar nokkur hjá honum og hann söng bæði einsöng með kórum og hljómsveitum t.a.m. í stærri tón- og hljómsveitarverkum með Kór Langholtskirkju, Íslensku hljómsveitinni, Mótettukór Hallgrímskirkju og Kammersveit Reykjavíkur, þá söng hann hlutverk í óperum eins og Leðurblökunni og söngleikjum s.s. Vesalingunum og Chicago en þar söng hann kvenrödd, það varð til þess að hann fékk áhuga á að læra að beita röddinni sem kven alt-rödd en slíkt er kallað kontratenór. Í tónlist á miðöldum tíðkaðist ekki að konur syngju og því voru karlmenn (stundum ungir drengir eða geldingar) sem sungu hærri raddirnar, með tímanum komu konurnar hins vegar smám saman inn í sönginn sem varð til þess að þessar háu karlraddir heyrðu brátt sögunni til. Sverrir vildi læra tæknina til að syngja þessa kontratenórrödd samhliða því sem hann fékk áhuga á barrokk- og miðaldatónlist, hann lærði söng fyrst hjá Rut Magnússon en fór síðan til London árið 1988 til að leggja stund á þessa tækni sem afar fáir söngvarar höfðu numið á þeim tíma, í leiðinni nam hann svokallaða Alexandertækni en hún tengist slökun við raddbeitingu. Í London fékk Sverrir við alls konar tónlistartengd verkefni og fræg er uppákoman þegar hann, Sigurður Rúnar Jónsson og Ragnhildur Gísladóttir fluttu íslensk þjóðlög með búkslætti á íslenskri menningarhátíð í borginni – síðar þróuðu þau Ragnhildur og Jakob Frímann Magnússon (sem þá var menningarfulltrúi Íslands í London og maðurinn á bak við hugmyndina) verkefnið undir nafninu Human body orchestra.

Sverrir og Páll Óskar 1984

Áður en Sverrir fór til Lundúna hafði hann gengið til liðs við tónlistarhópinn Musica antiqua sem sérhæfði sig í tónlist fyrri alda, og starfaði með honum allt til 2002 og söng á plötu hans – Amor (1996) og á tónleikum. Þannig varð eins konar vakning fyrir slíkri tónlist sem Sverrir tók þátt í af fullum krafti m.a. með sönghópnum Ensamble L‘homme armén og síðar með þýska tónlistarhópnum Capella media, Emil og Önnu Siggu og Voces Thules sem Sverrir átti stóran þátt í að stofna árið 1991. Voces Thules var sönghópur með áherslu á miðaldatónlist sem fór víða með tónleikahaldi bæði hér heima og erlendis, og t.a.m. oft á Sumartónleikum í Skálholtskirkju en hópurinn hefur einnig sent frá sér plötur.

Að söngnáminu í London loknu (Sverrir er eini menntaði kontratenórsöngvari landsins) fór mesta púðrið í miðaldatónlistina fram að aldamótum en hvers konar önnur verkefni biðu einnig, Sverrir hélt áfram að koma fram sem einsöngvari og þegar Ljóðatónleikar og Íslenska einsöngslagið í Gerðubergi fóru af stað var hann áberandi í því verkefni og kom jafnframt við sögu á plötum sem gefnar voru út í tengslum við þær tónleikaraðir. Fyrrnefndir Sumartónleikar í Skálholti urðu fastur punktur hjá Sverri bæði með sönghópum sínum og þar sem hann kom fram sem einsöngvari en var jafnframt með einsöngvaratónleika annars staðar einnig s.s. í Íslensku óperunni, Seljakirkju, Borgarleikhúsinu, Hallgrímskirkju og víðar, jafnvel erlendis en hann söng á einsöngstónleikum á vegum Konunglegu sænsku óperunnar. Hann kom sem fyrr fram sem einsöngvari með kórum og hljómsveitum á stærri tónleikum og þar má nefna Kór Hafnarfjarðarkirkju, Kór Akureyrarkirkju og Kammersveit Hafnarfjarðar og fór reyndar utan til Bandaríkjanna og Rúmeníu með þeirri sveit.

Sverrir tók þátt í frumflutningi á ýmsum verkum sem mörg hver voru miðaldatengd, hér var m.a. um að ræða óperur og annars konar tón- og kórverk eins og Tíminn og vatnið (e. Atla Heimi Sveinsson), barnaóperan Sónata (e. Hjálmar H. Ragnarsson) en bæði verkin komu síðar út á plötum og var barnaóperan notuð sem kennsluefni í tónlist í grunnskólum, þá voru frumflutt Rhodymenia Palmata (e. Hjálmar H. Ragnarsson) og Fjórði söngur Guðrúnar (e. Hauk Tómasson) en síðarnefnda verkið var frumflutt í friðlýstri skipakví í Kaupmannahöfn og var verkefnið hluti af Menningarborg Evrópu 1996, það var flutt hér á landi ári síðar. Þá frumflutti hann einnig verk sem voru samin sérstaklega fyrir hann og kontratenór rödd hans, m.a. eftir Áskel Másson. Sverrir tók jafnframt þátt í fjölmörgum hefðbundnum uppfærslum á kór- og tónverkum á þessum tíma bæði hér heima og erlendis, m.a. á Listahátíð í Reykjavik, Kirkjulistahátíð og Myrkum músíkdögum.

Árið 1996 hafði Sverrir sungið í tónleikaröð Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu undir yfirskriftinni Grafskrift en þar söng hann efni sérstaklega samið fyrir kontratenór röddina. Tveimur árum síðar (1998) kom svo út samnefnd plata – Grafskrift / Epitaph, fyrsta eiginlega sólóplata Sverris en hún hafði að geyma íslensk þjóðlög úr ýmsum áttum útsett fyrir rödd hans en sett upp þannig að hún myndaði heild. Platan var gefin út af franska útgáfufyrirtækinu Opus 111 og kom út um allan heim og hlaut góðar viðtökur. Reyndar lenti Sverrir síðar í málaferlum við annað útgáfufyrirtæki sem þá hafði eignast framleiðsluréttinn á plötunni en vann það mál (2013), og var platan síðan endurútgefin enda var þá fyrri útgáfan löngu uppseld. Í kjölfar útgáfu plötunnar 1998 fór Sverrir víða til að fylgja henni eftir á erlendum tónlistarhátíðum.

Sverrir Guðjónsson

Sverrir starfaði þarna fyrst og fremst sem tónlistarmaður og tók því að sér margvísleg verkefni bæði sem söngvari en einnig hliðarverkefni og tónlistarkennslu við Nýja tónlistarskólann og þá tók hann að sér ásamt hljómsveit að kynna grunnskólanemum tónlist og var það hluti af átakinu Tónlist fyrir alla – þar kom barnaóperan Sónata einmitt við sögu, Sverrir var enn fremur nokkuð að kynna Alexandertæknina fyrir tónlistarfólki og hélt fyrirlestra um það efni. Eftir Lundúnaárin opnaði og rak Sverrir jafnframt veitingastaðinn Sólon um átta ára skeið ásamt fleirum sem að hluta til var tónlistartengt verkefni en þar var lifandi tónlist í hávegum höfð, einkum djasstónlist.

Á nýrri öld má segja að tónlistartengd verkefni Sverris hafi áfram verið með svipuðum hætti en helstu breytingarnar voru á þann veg að hann fór að taka að sér fjölbreyttari verkefni í listaheiminum og mörg þeirra ekki tengd tónlist nema að hluta til. Listdans kom þar t.a.m. nokkuð inn en Sverrir kom í fyrstu að sýningu hjá Íslenska dansflokknum sem tónlistarstjóri en tók m.a.s. sjálfur þátt í danssýningu og hélt síðar utan um stórt menningarsamstarf Íslands og Japan þar sem hópur af tónlistarfólki og dönsurum fór með sýningu í fimmtán japanskar borgir undir nafninu Borealis Ensemble. Um það leyti tileinkaði hann sér ýmis austurlensk fræði og gerðist Zen-búddisti og fékkst sem slíkur við hugleiðslufræði. Í kjölfarið fór hann að þróa teblöndur sem hann setti á markað og eru eftir því sem best verður vitað eru þær enn í framleiðslu.

Eins og fram hefur komið hafði Sverrir lítillega samið tónlist en sá þáttur varð nú smám saman fyrirferðameiri hjá honum og oftar en ekki tengdust tónsmíðar hans leikhús- eða kvikmyndaforminu, einkum heimildamyndum og tók hann þátt sem tónskáld og söngvari í ýmsum alþjóðlegum verkefnum og samstarfi hvað það varðar enda var hann á kafi í því sem kalla mætti heimstónlist, þjóðlegri tónlist úr öllum heimshornum. Hann samdi t.d. tónlist við uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Hamlet en segja má að þar hafi verið á ferðinni hálfgert fjölskylduverkefni en Ívar Örn sonur hans og leikari lék aðalhlutverkið í stykkinu og Elín Edda Árnadóttir eiginkona Sverris og móðir Ívars Arnar hannaði leikmyndina. Reyndar höfðu þeir Sverrir og Ívar Örn einnig starfað saman árið 1987 í uppfærslu á söngleiknum Vesalingunum en sonurinn var þá á barnsaldri.

Sverrir sló heldur hvergi af hvað söngmál varðar því hann tók þátt í fjölda söngverkefna hér heima eftir aldamótin, á kristnitökuhátíðinni aldamótaárið 2000 var hann t.a.m. í nokkuð stóru einsöngshlutverki en hefur einnig  á síðustu árum sungið í óperusýningum á borð við Skuggaleikhúsi Ófelíu, Skuggaleikjum og Lísu í Undralandi og svo tónleikauppfærslum á tónverkum eins og áðurnefndu Fjórða söng Guðrúnar (í Svíþjóð), Völuspá og SOLARIS5: Journey to the center of sound. Voces Thules starfaði áfram bæði með tónleikahaldi (hér heima og erlendis) og plötuútgáfu og einnig kom hann fram á tónleikum með Hljómeyki, Mótettukórnum og Kammerkór Suðurlands auk þess að koma við sögu á plötum þeirra flestra, yfirleitt sem söngvari en einnig sem upptökustjóri og listrænn stjórnandi en hann fór nú í auknum mæli að taka að sér slík verkefni.

Sverrir Guðjónsson 2006

Söng Sverris má heyra á fjölmörgum plötum frá því um aldamót, hér má nefna t.d. Bylgjur í túni með tónlist eftir Finn Torfa Stefánsson, Stokkseyri (ásamt Caput) e. Hróðmar Inga Sigurbjörnsson og Tíminn og vatnið með Kammersveit Reykjavíkur og einsöngvurum. Sjálfur hafði hann byrjað að hljóðrita efni á sólóplötu árið 1997 og vann hana smám saman samhliða öðrum verkefnum næstu árin, platan kom ekki út fyrr en 2020 undir titlinum Rökkursöngvar: Twilight songs from Iceland undir eigin útgáfumerki, Art Centrum en platan kom út á tvöföldum vínyl og var útgáfan öll hin vandaðasta, m.a. með tólf síðna bæklingi. Verkin komu úr ýmsum áttum en öll samin fyrir rödd Sverris og mynda eins og segir í lýsingu „ferðalag á mörkum ljóss og myrkurs í átt til dögunar“. Til viðbótar við allar þær plötur sem Sverrir hefur komið að sem söngvari í gegnum tíðina má einnig nefna að hann hefur sungið á plötum Bjargar Þórhallsdóttur, Birthmark, Ríkarðs Arnar Pálssonar og síðast en ekki síst Páls Óskars en margir þekkja lagið Sjáumst aftur þar sem þeir Páll Óskar, Sverrir og Kristjana Stefánsdóttur syngja í barrokkstíl.

Síðustu árin hefur Sverrir fært sig eins og fyrr segir að fleiri listformum, unnið t.a.m. með blöndu mynd- og tónlistar í samstarfi við aðra listamenn með það sem kalla mætti raddskúlptúra, þannig hefur hann m.a. unnið með Huga Guðmundssyni tónskáldi með þjóðsöguna um djáknann á Myrká og farið með það verkefni í grunnskóla, unnið með Elín Eddu eiginkonu sinni við verkefnið Credo og með Japananum Stomu Yamash‘ta að verkefninu The Void en hann hefur þar mestmegnis verið að vinna með mannsröddina. Og eins og áður hefur hann mikið unnið með raddir miðalda en tengt hana jafnvel raftónlist og þannig gert tilraunir sem enn teygir á þeim ramma sem hann hefur verið að vinna með. Það er því ekki að ástæðulausu sem Sverrir hefur verið titlaður fjöllistamaður.

Efni á plötum