Svart og hvítt (1998)

Svart og hvítt

Sönghópurinn Svart og hvítt var settur saman sumarið 1998 í tilefni þess að háhyrningurinn Keikó kom „heim“ en Keikó þessi hafði tveggja ára verið fangaður við Íslands strendur árið 1978 og fluttur í kjölfarið til Bandaríkjanna þar sem hann gekk undir þjálfun og „lék“ síðar í Free Willy kvikmyndunum sem nutu mikilla vinsælda á tíunda áratugnum. Keikó var síðan fluttur aftur til Íslands (með flugi) haustið 1998 í því skyni að aðlaga hann aftur að villtu líferni við Vestmannaeyjar þar sem hann var um tíma geymdur í sjókví undir eftirliti þjálfara.

Svart og hvítt hópurinn var skipaður fjórum stúlkum á aldrinum níu til þrettán ára, þeim Júlíu Björgvinsdóttur, Myriam Guðmundsdóttur, Önnu Lucy Muscat og Önnu Björt Sigurðardóttur, söngkvartettinn var í raun ekki starfandi og ekki finnast heimildir um að hann hafi komið fram opinberlega heldur sungu þær stöllur aðeins inn á átta laga plötu sem hlaut nafnið Keikó: á heimleið. Aðallag plötunnar var Keikólagið sem var þar að finna í fjórum útgáfum, sungið á íslensku, ensku og dönsku en einnig var ósungin útgáfa af laginu. Það voru þeir Óskar Guðnason og Ingólfur Steinsson sem voru á bak við þetta verkefni, Óskar samdi lögin en Ingólfur textana, og fengu þeir til liðs við sig nokkra þekkta tónlistarmenn.

Keikólagið fékk einhverja spilun í útvarpi en hlaut enga sérstaka athygli og heldur ekki úti í hinum stóra heima þótt sungið væri á ensku og dönsku. Af Keikó er það hins vegar að frétta að honum gekk ekkert allt of vel að aðlagast hinu nýja (gamla) lífi, honum var að lokum sleppt lausum en drapst við Noregsstrendur árið 2003.

Efni á plötum