Og ég trúi því

Og ég trúi því
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Friðrik Guðnason)

viðlag
Og ég trúi því, og ég trúi því.
Ég hef trúað áður og ég trúi á ný.
Því má finna stað
fyrst þeir segja það.
Ég er fólkið og ég trúi því.

Í stofnun hringdi ég heilu vikuna
og ég hélt uppi spurnum um forstjóra,
hann á fundi sat fyrir og eftir mat,
ó, hve feiknalegt rassþrek slíkt er.

Einn frómur ráðherra ræddi á alþingi
um vort ríki, sem enn er á kúpunni.
Þessa krónu hér þína, skerðum vér,
slíkt er þjóðhagsleg nauðsyn, you see.

viðlag

Einn þar tjáir mér: Alltaf svart er hvítt,
það er auðvelt, skrýtið en hreint ei nýtt.
Annar innir snart: Alltaf hvítt er svart
sem er auðvitað jafn rétt og hitt.

Þeir segja í útlöndum um allt stríðsbrakið,
það sé einungis til þess að vinna frið,
enginn deyi þar, utan morðvargar
og svo allskonar sálarlaust pakk.

viðlag

[m.a. á plötunni Ríó tríó – Best af öllu]