
Áskell Jónsson
Afmælisbörn dagsins eru sjö talsins að þessu sinni:
Fyrst skal telja tvíburabræðurna frá Vestmannaeyjum, þá Gísla og Arnþór Helgasyni sem eru sjötíu og eins árs gamlir. Framan af störfuðu þeir bræður mikið saman, fóru um landið og léku saman á mörgum tónleikum ungir að árum um miðjan sjöunda áratuginn og létu sjónskerðingu ekki aftra sér í því. Þeir störfuðu einnig saman í hljómsveitum eins og Austrið er rautt og Eyjaliðinu, og gáfu saman út plötuna Í bróðerni árið 1981. Arnþór var síðar í Wulfilins-orkestra en Gísli hefur verið mun meira áberandi í tónlistinni hin síðari ár, var í Hálfu í hvoru, Vísnavinum og Islandicu, starfrækt eigin sveit, hefur gefið út sólóplötur og leikið á plötum annarra listamanna auk þess að vera viðloðandi hljóðvinnslu ýmis konar.
Akureyringurinn Baldvin Ringsted Baldvinsson fagnar stórafmæli en hann er sextugur á þessum degi. Baldur sem er gítarleikari hefur leikið með fjöldanum öllum af hljómsveitum í gegnum tíðina og þekktust þeirra er líklega Sniglabandið sem hann starfaði með um tíma. Hann hefur einnig leikið með sveitum eins og Popphljómsveit Íslands, Kennarabandi Verkmenntaskólans á Akureyri og Karakter svo aðeins nokkrar séu upp taldar.
Loftur S. Loftsson átti afmæli á þessum degi en hann lést árið 1997. Loftur (fæddur 1937) lék á píanó með danshljómsveitum í gamla daga s.s. með Hljómsveit Óskars Guðmundssonar, Hljómsveit Baldurs Loftssonar og O.M.O. kvintettnum auk Lúðrasveitar Selfoss en varð að hætta slíkri spilamennsku eftir slys sem hann lenti í og var hann bundinn við hjólastól eftir það. Það stöðvaði hann þó ekki í að stofna og stjórna Árneskórnum í Reykjavík en einnig stjórnaði hann Kór Flúðaskóla.
Haukur Guðlaugsson er níutíu og tveggja ára gamall í dag. Haukur nam fræði sín hér heima og í Þýskalandi og víðar, og starfaði síðan sem tónlistarkennari og -skólastjóri, kórstjórnandi og organisti en hann var einnig lengi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar. Hann kom við sögu á nokkrum plötum sem orgel- og píanóleikari og reyndar liggur eftir hann ein plata, Organ flóra, auk annarrar þar sem hann leikur ásamt Gunnari Kvaran sellóleikara. Þá gaf hann út kennslubók í nótnalestri.
Áskell Jónsson (1911-2002) tónlistarfrömuður á Akureyri hefði einnig átt afmæli á þessum degi, hann stýrði kórum og lúðrasveitum, kenndi tónlist, annaðist undirleik, samdi tónlist og var öflugur í félagsmálum tónlistarmanna nyrðra.
Að síðustu er hér nefndur tónlistar- og myndlistarmaðurinn Úlfur Chaka Karlsson sem lést árið 2007 aðeins þrjátíu og eins árs gamall eftir erfið veikindi. Úlfur (f. 1976) var söngvari og textathöfundur hljómsveitarinnar Stjörnukisa sem sigraði Músíktilraunir árið 1996 en áður hafði hann starfað með Silverdrome og Drome sem voru eins konar fyrirrennarar Stjörnukisa. Einnig vann hann lítillega með sveitum eins og Hairdoctor og Púff svo dæmi séu nefnd.
Vissir þú að söngvarinn Óðinn Valdimarsson var yfirleitt kallaður Ódi?