Gísli Helgason (1952-)

Gísli og Arnþór Helgasynir á tónleikaferð ungir að árum

Tónlistarmaðurinn Gísli Helgason er flestum kunnur af blokkflautuleik sínum og er iðulega hóað til hans þegar hljóðrita þarf flautuleik af einhverju tagi fyrir plötuútgáfu eða þegar vantar blokkflautuleikara fyrir tónleikahald. Gísli er einnig tónskáld og liggja nokkrar útgefnar plötur eftir hann, þá hefur hann starfað í fjölmörgum hljómsveitum, verið öflugur útsetjari, upptökumaður og -stjóri og plötuútgefandi auk þess að vera þekktur fyrir önnur óskyld mál s.s. dagskrárgerð í útvarpi, hljóðbóka- og bókaútgáfu, og störf sín og baráttumál fyrir blinda og sjónskerta en Gísli hefur verið sjónskertur frá fæðingu.

Gísli Helgason er fæddur í Vestmannaeyjum 1952, tvíburabróðir hans er Arnþór sem einnig fæddist sjónskertur en varð síðar alveg blindur. Þeir bræður lærðu á hljóðfæri á barnsaldri og nam Gísli blokkflautuleik hjá Oddgeiri Kristjánssyni en lærði einnig á klarinettu, blokkflautan hefur þó alltaf verið hans aðalhljóðfæri. Þeir bræður munu hafa komið fyrst fram opinberlega um sjómannadagshelgina 1963 þar sem þeir léku á flautu og orgel, þá voru þeir reyndar fluttir til Reykjavíkur til náms en aðstæður til kennslu fyrir blind og sjónskert börn var ekki til staðar í Eyjum. Það var svo sumarið 1966 sem þeir bræður fóru fjórtán ára gamlir í tónleikaferð í kringum Ísland og söfnuðu fé til styrktar Hjálparsjóði æskufólks og vöktu mikla athygli fyrir það framlag, reyndar mætti segja að þeir hafi þar orðið landsþekktir. Slíka ferð endurtóku þeir sumarið 1967 og sagði Gísli frá því síðar í viðtali að þeir hefðu leikið á um hundrað og þrjátíu tónleikum þessi tvö sumur, Gísli á blokkflautu en Arnþór á orgel.

Gísli hefur aldrei látið sjónskerðingu sína há sér neitt sérstaklega og hefur gert það sem hann hefur ætlað sér, hann lauk stúdentsprófi frá Menntakólanum í Reykjavík tvítugur að aldri og hóf nám í lögfræði, tungumálum og sagnfræði en fann sig ekki í þeim greinum og lauk því ekki háskólaprófi, hann sótti hins vegar nám í hljóðvinnslu í Bretlandi sem hann lauk og starfaði lengi við dagskrárgerð í útvarpi, við hljóðritun og fleira tengt þeim fræðum í kjölfarið.

Gísli Helgason dagskrárgerðarmaður

Árið 1968 lék Gísli sextán ára gamall í fyrsta sinn inn á plötu á flautu en um var að ræða smáskífu með söngkonunni Erlu Stefánsdóttur og lagið hét Við arineld, síðan liðu all nokkur ár áður en það gerðist næst. Og það var reyndar stórviðburður í Íslandssögunni sem var valdur að því og öðru sem gerðist síðan í lífi Gísla. Þegar gos hófst í Heimaey í janúar 1973 dreifðust Eyjaskeggjar víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og reyndar Suðurlandið allt næstu vikurnar og mánuðina, á þeim tíma voru samfélagsmiðlar Internetsins víðs fjarri og því var brugðið á það ráð að fá þá bræður Gísla og Arnþór Helgasyni til að annast útvarpsþætti fyrir Eyjamenn, þætti sem væru í senn frétta- og kveðjutengdir og hugsaðir til að hjálpa fólkinu að púsla saman lífi sínu á nýjan leik t.d. varðandi persónulega hluti sem höfðu orðið viðskila við eigendur sína í hamaganginum þegar Eyjamenn voru fluttir á brott um gosnóttina. Þátturinn, sem hlaut nafnið Eyjapistill, sló í gegn og landsmenn fylgdust með þeim bræðrum í þáttunum sem alls urðu eitthvað á annað hundrað en síðasti þátturinn fór í loftið í mars 1974, hluti þáttanna varð almenningi síðar aðgengilegur á netinu.

Gosið varð Gísla sem fyrr segir nokkur örlagavaldur, útvarpsþættirnir urðu til þess að hann starfaði lengi við útvarpsþáttagerð, ýmist einn og með öðrum, t.a.m. um samfélagsmál og málefni blindra (Snerting var t.d. þáttur sem hann annaðist með Arnþóri bróður sínum). Tengsl Gísla við Vestmannaeyja styrktust jafnframt á nýjan leik en þau höfðu nokkuð rofnað á unglingsárum hans, og hann á stóran þátt í hinni svokölluðu Eyjamenningu sem lengi vel var aðeins tengd Oddgeiri Kristjánssyni, Ása í Bæ og örfáum öðrum, og var nokkuð á undanhaldi. Þeirri menningu hefur hann verið duglegur að halda á lofti s.s. með spilamennsku og tónleikahaldi, auk þess sem hann hefur sjálfur samið lög sem teljast til Eyja- og þjóðhátíðalaga.

Gísli lék á flautu á lítilli plötu sem Eyjaliðið sendi frá sér en hún var gefin út til styrktar Vestmannaeyingum og var framtak sem Árni Johnsen stóð fyrir. Eftir útgáfu þeirrar plötur heyrðist lítið frá Gísla á tónlistarsviðinu næstu árin og mun hann hafa verið afhuga flautuleik á þeim árum, þess í stað var hann áberandi við þáttagerð í útvarpi og einnig í starfi sínu hjá Blindrabókasafninu en þar gegndi hann m.a. starfi deildarstjóra tæknideildar safnsins og varð síðar forstöðumaður hljóðbókagerðar Blindrafélagsins.

Það var svo árið 1976 sem Gísli stofnaði ásamt fleirum félagsskapinn Vísnavini sem stóð fyrir vinsælum Vísnakvöldum um margra ára skeið á áttunda, níunda og tíunda áratugnum, og var hann reyndar formaður Vísnavina um tíma. Hann kom þá oft fram á slíkum kvöldum og kom einnig við sögu á kassettum (sem höfðu að geyma upptökur frá Vísnakvöldum) og plötum sem félagsskapurinn sendi frá sér, sem flytjandi og lagahöfundur.

Gísli Helgason

Tengt Vísnavinum var Gísli í hljómsveitinni Musica nostra en sú sveit starfaði í nokkur ár og kom m.a. fram þrjú sumur í röð á sænskri vísnahátíð. Og hann starfaði með fleiri sveitum í svipuðum anda, Tríó túkall (1979-81) var ein þeirra og sameinaðist hún ásamt annarri sveit í Hálft í hvoru (árið 1981), sem Gísli starfaði með heillengi við nokkrar vinsældir en sú sveit sendi frá sér nokkrar plötur þar sem Gísli var í nokkuð stóru hlutverki sem lagahöfundur og flautuleikari, jafnvel söngvari. Gísli kom einnig við sögu sem upptökustjóri og -maður á þessum árum, s.s. við gerð platna Hálfs í hvoru.

Innan Vísnavina var tónlistarfólkið duglegt að leika á sólóplötum hvers annars og lék Gísli því á flautur sínar á fjölmargar plötur annarra Vísnavina og tengdra flytjenda, þar má t.a.m. nefna sólóplötur með Guðmundi Árnasyni, Inga Gunnari Jóhannssyni, Kristínu Ólafsdóttur, Ása í Bæ, Aðalsteini Ásberg og Önnu Pálínu, Bergþóru Árnadóttur og Eyjólfi Kristjánssyni en einnig hliðartengdar plötur eins og Ævintýrið úr Nykurtjörn, Eins og gengur: söngvísur eftir Sigurð Þórarinsson og jólasmáskífuna Jólasteinn en Gísli kom að mörgum þessara platna (og annarra) sem upptökumaður. Tengt Vísnavinum hefur Gísli ennfremur komið fram með ýmsum erlendu vísnatónlistarfólki og má hér nefna Alf Hambe og Hanne Juul.

Það var svo árið 1981 sem þeir bræður Gísli og Arnþór Helgasynir sendu frá sér plötuna Í bróðerni en sú plata vakti feikimikla athygli t.d. fyrir það að vera fyrsta platan hérlendis sem blokkflautan fær svo mikið vægi, hún inniheldur m.a. stórsmell Gísla, Kvöldsigling við texta Jóns Sigurðssonar sem Ólafur Þórarinsson (Labbi í Mánum) söng, lögin Vestmannaeyjar og Fréttaauki (bæði eftir Arnþór) urðu einnig nokkuð vinsæl. Lögunum á plötunni skiptu þeir bræður nokkuð jafnt á milli sín, samin á árunum 1966-80 en mörg þeirra voru án söngs. Í bróðerni var hljóðrituð í Stúdíó Stemmu hjá Sigurði Rúnari Jónssyni (Didda fiðlu), og fékk hún góða dóma í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar, Degi og tímaritinu TT. Þess má geta að lagið Vestmannaeyjar á plötunni hafði einmitt komið út á plötu Eyjaliðsins árið 1973 en var þarna í gjörbreyttri útsetningu.

Kvöldsigling er án nokkurs vafa þekktasta lag Gísla og hefur margoft verið gefið út í mismunandi útgáfum, Ari Jónsson, Hermann Ingi Hermannsson, Þórunn Lárusdóttir, Islandica og Gísli sjálfur eru meðal þeirra sem gefið hafa lagið út í nýjum útgáfum og hefur það þ.a.l. komið út á fjölda safnplatna einnig.

Gísli sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu vorið 1985 og hét hún Ástarjátning. Á henni var að finna fimmtán ný og gömul lög og voru tíu þeirra eftir Gísla sjálfan, nokkur laganna höfðu komið út með hljómsveitinni Hálfu í hvoru en voru þarna í nýjum útsetningum. Platan seldist gríðarlega vel enda rann ágóðinn af sölu hennar til kaupa á blindraletursprentvél sem varð mikil bylting fyrir Blindrabókasafnið. Þegar upp var staðið höfðu um níu þúsund eintök selst af henni en hún hlaut jafnframt ágæta dóma í Helgarpóstinum, Morgunblaðinu og Þjóðviljanum. Ástarjátning var tekin upp í Stemmu hjá Didda fiðlu en einnig í Glóru hjá Labba í Mánum, og í Svíþjóð, og komu fjölmargir tónlistar- og upptökumenn að gerð plötunnar sem var gefin út af ÞOR, útgáfufyrirtæki Bergþóru Árnadóttur.

Herdís og Gísli

Um þetta leyti kvæntist Gísli Herdísi Hallvarðsdóttur sem hafði verið þekkt sem bassaleikari Grýlnanna en hafði síðan gengið til liðs við hljómsveitina Hálft í hvoru sem Gísli var þá í, þau hjónakornin áttu eftir að starfa náið saman í tónlistinni, koma fram saman með sveitum sínum og jafnvel tvö ein en jafnframt áttu þau eftir að stofna fyrirtæki í formi hljóðbókaútgáfu, kassettufjölföldun, dreifingar- og plötuútgáfu (Fimmund), hljóð- og veftímaritsútgáfu og svo síðar meir einnig bókaútgáfu. Þau Gísli og Herdís stofnuðu einnig ásamt fleirum hljómsveitina Islandicu árið 1987 en sú sveit sérhæfði sig einkum í þjóðlegri tónlist og gaf út nokkrar plötur (reyndar einnig með frumsömdu efni) en sveitin fór víða um lönd og hélt um tvö hundruð tónleika erlendis.

Næsta plata Gísla Helgasonar kom út árið 1991 og hét hún Heimur handa þér: A world for you, gefin út af Fimmund, útgáfufyrirtæki þeirra Herdísar. Platan var fjórtán laga og voru flest þeirra ósungin, Gísli samdi sjálfur tíu laganna en þeirra á meðal voru lög sem höfðu komið út áður á plötunni Í bróðerni en í nýjum útsetningum. Gísli fékk Þóri Baldursson sér til aðstoðar og annaðist hann útsetningarnar og upptökustjórn en átti einnig eitt laga plötunnar, í kjölfar útgáfu plötunnar settu þeir saman hljómsveit til að fylgja plötunni eftir en hún hlaut nafnið Þórgísl, samsett úr nöfnum þeirra beggja. Þeir Þórir áttu einnig eftir að troða eitthvað upp tveir saman á næstu árum. Á þessari plötu (Heimur handa þér) er jafnframt að finna lagið Ég er að leita þín (við texta Ásgeir Ingvarssonar) en það hafði Gísli sent í undankeppni Eurovision keppninnar hér heim 1990 og lenti það í sjötta sæti keppninnar. Reyndar kom upp all sérstætt mál varðandi eitt laga plötunnar, Ástarljóð á sumri, löngu síðar en það kom þá út á jólaplötu undir öðru heiti án vitundar Gísla og undir öðru höfundarnafni, þá hafði „höfundur“ lagsins talið sig hafa samið lagið en áttaði sig ekki á því að Gísli hafði löngu fyrr gefið honum eintak af plötunni þar sem það var að finna, og hann hafði heyrt það þar. Sátt varð í málinu og engin eftirmál af því. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu, DV og Vikunni.

Árið 2002 kom næsta plata Gísla út, hún hét Flautað fyrir horn (Instrumental impressions from Iceland) og var gefin út af Fimmund eins og platan á undan. Átján lög voru á plötunni en þau voru flest áður útgefin og öll ósungin reyndar eins og titill plötunnar gefur til kynna. Flautað fyrir horn fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Platan kom út um líkt leyti og Gísli hélt upp á fimmtugs afmæli sitt og af því tilefni hélt hann útgáfu- og afmælistónleika þar sem aðgangseyrir rann í sjóð fyrir Blind börn á Íslandi. Það var Tómas M. Tómasson bassaleikari (Þursaflokkurinn, Stuðmenn o.fl.) sem hélt utan um upptökurnar ásamt Gísla en þeir áttu eftir að starfa nokkuð saman næstu árin, Gísli átti til að mynda eftir að koma oft fram með hljómsveit Tómasar, Bítladrengjunum blíðu og sú sveit átti einnig eftir að leika með Gísla þegar hann hélt hálfrar aldar tónlistarafmælistónleika árið 2013.

Segja má að næsta plata Gísla, Út við sund og eyjar: vinsælt í Eyjum og út um allt land, sé einnig afmælistengd en hún kom út 2011 og var afmælistengd í þeim skilningi og tilefni að fimmtíu ár voru þá liðin frá fyrsta blokkflaututíma Gísla hjá Oddgeiri Kristjánssyni í Vestmannaeyjum. Um var að ræða safn laga sem áður höfðu komið út en alls voru níu lög á plötunni, aðallega svokölluð Eyjalög. Árið 2012 kom aukinheldur enn ein plata Gísla, Dagur, undur merkjum Fimmundar en því miður finnast afar takmarkaðar upplýsingar um þá útgáfu.

Gísli Helgason

Og þá er einmitt komið að þeim þætti sem er hvað veigamestur á tónlistarferli Gísla. Hann hefur gegnum tíðina samið fjölda laga tengt átthögum sínum í Vestmannaeyjum en hann hefur jafnframt átt sinn þátt í að halda því sem kallað hefur verið Eyjamenning, á lofti, þar er m.a. átt við Eyjalög Oddgeirs Kristjánssonar og Ása í Bæ en hann hefur komið fram á fjölda tónleika í Vestmannaeyjum og á meginlandinu og flutt lög þeirra í bland við sín eigin Eyjalög. Og meðal hans Eyjalaga má nefna tvö Þjóðhátíðarlög sem hann átti stóran þátt í, hið fyrra var Þjóðhátíðarlagið Alltaf á Heimaey (1993) sem hann samdi ásamt Eyjólfi Kristjánssyni og Ingi Gunnar Jóhannsson samdi textann en það var flutt af hljómsveitinni Hálfu í hvoru og naut mikilla vinsælda á sínum tíma og hefur margoft komið út á safnplötum. Síðara lagið sem hét Út við sund og eyjar kom út ári síðar (1994), samið af Gísla en textinn var eftir Guðjón Weihe, það lag vakti ekki eins mikla athygli. Gísli var meðal meðlima í hljómsveit sem hlaut nafnið Bæjarsveitin og spilaði á plötunni Undrahattinum, sólóplötu Ása í Bæ frá árinu 1984, sú sveit kom fram á tónleikum tengdum útgáfunni. Árið 1989 var Gísli meðal þeirra sem gaf út kassettuna Ó, fylgdu mér í Eyjar út: minningar með Ása í Bæ, Ási í Bæ syngur og segir frá, sem síðar var endurútgefin í enn veglegri útgáfu 2004 en þá hefði Ási orðið níræður. Heilmikið tónleikahald var í tengslum við þær útgáfur og kom Gísli nokkuð að þeim, en hann hafði einnig haldið utan um söngdagskrá tengdri Ása í Bæ um sjómannadagshelgina 1997, ásamt Árna Johnsen. Svipað mætti segja þegar kemur að Oddgeiri Kristjánssyni, Gísli kom fram á tónlistardagskrá tengdri honum árið 1998 og svo var hann einn meðlima í hljómsveit sem sett var saman fyrir enn eina tónleikana, sem hét Föruneyti Árna og Oddgeirs en þar er vísað til Árna í Eyjum auk Oddgeirs. Gísli hefur þar fyrir utan margsinnis leikið í Eyjum með hljómsveitum sem hann hefur starfað með, s.s. Föruneyti G.H. en G.H. stendur fyrir Gísla & Hafstein [Guðfinnsson], á Goslokahátíð, með Sönghóp ÁTVR (Átthagafélags Vestmannaeyinga í Reykjavík) og við önnur tilefni.

Frá árinu 1980 og fram til dagsins í dag hefur Gísli leikið á blokkflautu á plötum fjölmargra tónlistarmanna og er hann einn fárra sem hægt er að leita til þegar spila þarf á flautu á plötur með léttari tónlist, á meðal tónlistarmanna og flytjenda má hér nefna Samkór Selfoss, Ladda, Barnakór Þorlákshafnar, Sverri Stormsker, Papa, Árna Johnsen, Ingólf Steinsson, Björgvin Halldórsson og Hjartagosana, Ásgeir Óskarsson, Sölva Jónsson (Dölla), Má Gunnarsson, Kristján Hreinsson, Svein Hauksson, Hjördísi Geirsdóttur og svo auðvitað sólóplötur Herdísar eiginkonu hans, sem hann hefur einnig stjórnað upptökum á. Þá hefur hann komið við sögu nokkurra annars konar platna sem flytjandi og lagahöfundur s.s. plötu með tónlistinni úr leikritinu Gosa, barnaplötunni Og það varst þú, jólaplötum á borð við Nálgast jóla lífsglöð læti og Íslensk jólalög, og plötum tengdum tónlist Vilhjálms Vilhjálmssonar og aldarminningu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.

Gísli að störfum

Hér eru enn ótaldar nokkrar sveitir og tónlistarmenn sem Gísli hefur starfað með, árið 1985 kom hann fram með skammlífri sveit sem bar heitið Örn og arnarungarnir og 2012 starfaði hann með hljómsveit blindra og sjónskertra sem hét The Visioners, þá hefur hann komið fram á fjölda þematengdra tónleika með flautu sína s.s. minningartónleikum um Guðmund Ingólfsson jazzpíanista og heiðurstónleikum tengdum Paul McCartney, auk ýmissa samkoma á vinstri væng stjórnmála s.s. tengt friðarsamkomum o.þ.h. Í framhaldi af því má nefna að Gísli hefur komið lítillega að stjórnmálum, verið í framboði til borgarstjórnarkosninga á listum Nýs vettvangs og Frjálslyndra og óháðra.

Lög Gísla, einkum þau Eyjatengdu hafa ratað inn á fjölda safnplatna eins og gefur að skilja, og eru þau þar ýmist í nafni Gísla sjálfs eða hljómsveita hans s.s. Hálfs í hvoru og Islandicu sem eru hvað fyrirferðamestar.

Af þessari umfjöllun má sjá hversu víða Gísli hefur komið að íslensku tónlistarlífi, og þrátt fyrir að tónlistarflutningur hans sé að mestu tengdur blokkflautum hefur hann komið að ótrúlegum fjölda útgefinna platna og tónleika en því hefur verið haldið fram að tilfinning hans í spilamennskunni og fyrir hljóðfærinu – að hann hreinlega syngi í gegnum það, eigi þar stærstan hlut að máli, auk þess hefur Gísli sem fyrr segir komið að tónlistinni frá ýmsum hliðum sem útsetjari, upptökustjóri, lagahöfundur, útgefandi og margt fleira.

Barátta Gísla fyrir málefnum fatlaðra, blindra og sjónskertra er aukinheldur allrar athygli verð og er í raun ótrúlegt að hann hafi ekki hlotið almennilega þá viðurkenningu frá hinu opinbera (orðunefnd) sem hann ætti skilið. E.t.v. spilar þar inn í er hann var ásamt öðrum mótmælendum á þingpöllum þegar lög um almannatryggingar voru samþykkt (2001), í því er lögin voru samþykkt tók hann upp blokkflautu sína og hóf að spila þjóðsönginn Ó guð vors lands. Þingverðir létu hann óáreittan og þingmenn stóðu upp að beiðni forseta þingsins en margir þeirra voru án vafa ósáttir við hann fyrir tiltækið. Rétt er þó að nefna að Gísli var sæmdur árið 1997 Silfurkrossi Rauða krossins.

Í lokin má þess til gamans geta að bræðurnir Gísli og Arnþór Helgasynir bera líkast til ábyrgð á nýyrðinu hljóðgervill/hljóðgerfill (e. Synthesizer) en það virðist koma fyrst fyrir í íslenskri tungu á umslagi plötu þeirra frá árinu 1981, Í bróðerni.

Efni á plötum