Úlfur Chaka Karlsson (1976-2007)

Úlfur Chaka Karlsson

Úlfur Chaka Karlsson tónlistarmaður var áberandi í íslensku listalífi um áratugar skeið en hann lést rétt rúmlega þrítugur að aldri eftir erfið veikindi.

Úlfur (f. 1976) átti íslenska móður og bandarískan föður, hann fæddist í Bandaríkjunum, ólst upp í Vesturbænum og var snemma viðloðandi tónlist. Hann kom fyrst almennilega fram á sjónarsviðið sem söngvari og textahöfundur hljómsveitarinnar Stjörnukisi sem sigraði Músíktilraunir Tónabæjar vorið 1996. Hann hafði þó áður starfað með sveitum sem voru fyrirrennarar Stjörnukisa, en það voru Silverdrome og Drome (Dróm).

Stjörnukisi sendi frá sér nokkrar plötur meðan hún starfaði og hlaut hvarvetna góða dóma, sveitin kom mestmegnis fram hér heima en einnig lítillega erlendis. Úlfur vann ennfremur með sveitum eins og Hairdoctor og Púff auk þess sem hann vann tónlist fyrir götuleikhús Hins hússins, hann kom einnig fram á plötu Sesar A, Gerðuþaðsjálfur undir rapparaheitinu MC Svarthöfði.

Tónlist var ekki eina listgreinin sem Úlfur lagði stund á en hann var fyrst og fremst myndlistamaður, hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands og fór síðan til Japans í framhaldsnám. Hann starfaði síðan við myndlist síðustu árin við góðan orðstír.

Úlfur hafði greinst með hvítblæði 1998 og barðist við sjúkdóminn um árabil. Félagar hans úr tónlistinni héldu haustið 2007 styrktartónleika fyrir hann en fáeinum dögum síðar lést hann, Úlfur var þá aðeins þrjátíu og eins árs gamall.