Áskell Jónsson (1911-2002)

Áskell Jónsson

Áskell Jónsson

Norðlendingurinn Áskell Jónsson var tónskáld, kórstjórnandi, söngkennari og organisti, hann starfaði mest alla sína starfstíð á Akureyri og er minnst sem eins af burðarásunum í tónlistarsögu bæjarins.

Áskell (f. 1911) var af tónlistarfólki kominn, borinn og barnfæddur á bænum Mýri í Bárðardal. Faðir hans stjórnaði kirkjukórnum og var organistinn í sveitinni, hann kenndi syni sínum undirstöðuatriðin í orgelleik. Gaman er að geta þess Áskell og þrír bræður hans áttu sama afmælisdag.

Sautján ára fór Áskell í stutt orgelnám á Akureyri og í framhaldi af því gekk hann í Alþýðuskólann á Laugum þar sem hann m.a. æfði samnemendur sína í söng. 23 ára gamall var hann farinn að kenna söng við Reykjaskóla í Hrútafirði og starfaði þar sem og á Laugum. Þá lá leið hans suður til Reykjavíkur og nam hann m.a. tónfræði hjá dr. Victor Urbancic og kenndi um tíma við Samvinnuskólann í Reykjavík.

Áskell flutti aftur norður 1943 og gerðist þá söngkennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri og um leið stjórnandi Karlakórs Akureyrar sem hann átti eftir að stjórna til ársins 1966, sönginn kenndi hann enn lengur við gagnfræðaskólann eða til 1974, einnig kenndi Áskell við Tónlistarskólann á Akureyri. Enn lengra náði starfsaldur hans við Kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar (síðar Glerárkirkju) en þar var hann organisti og kórstjórnandi á árunum 1945 til 1987, þegar sonur hans, Jón Hlöðver Áskelsson (tónskáld) tók við keflinu. Þess má geta að Áskell er einnig faðir Harðar Áskelssonar kórstjórnanda og organista. Fleira tónlistarfólk er komið af Áskeli.

Áskell kom miklu víðar við á starfsferli sínum, hann var undirleikari fjölda tónlistarfólks, jafnt einsöngvara, söngkvartetta og kóra, meðal þeirra má nefna Jóhann Konráðsson, Helgu Alfreðsdóttur, Árnesingakvartettinn í Reykjavík, Smárakvartettinn og Kirkjukór Akureyrar svo fáein nöfn séu nefnd. Einnig stjórnaði hann fjölmörgum kórum og smærri sönghópum, Karlakór Reykdæla, söngflokkurinn Húnar í Reykjavík, Kantötukór Akureyrar, Kirkjukór Munkaþverárkirkju og Karlakórinn Geysir eru dæmi um slíkt en einnig stjórnaði hann Lúðrasveit Akureyrar um tíma á fimmta áratugnum, sem sýnir ennfremur fjölhæfni hans.

Eitthvað liggur eftir af tónlist eftir tónskáldið Áskel, hann samdi fjölmörg sönglög, sálma og önnur verk og á sínum tíma kom út hefti með sönlögum hans, það hét Við syngjum. Nokkur laga Áskels hafa komið út á plötum, þar má nefna plötu Bjargar Þórhallsdóttur, Það ert þú! Eyjafjörður, plötu Jóhanns Friðgeirs Valdimarssonar og Mótettukórsins, Lýs, milda hjarta, og plötu Mótettukórsins, Jólagjöfin. Hörður Áskelsson sonur Áskels hefur einmitt stýrt Mótettukórnum um árabil.

Þess má aukinheldur geta að Kór Lögmannshlíðarsóknar gaf út hljómplötu 1984 sem bar nafn kórsins, á þeirri plötu stjórnaði Áskell kórnum. Þar gerir hann einnig á plötu Jóhanns Konráðssonar, Ljúflingslög, sem og á plötu Söngfélagsins Heklu, Raddir að norðan (Volume 2) (1965), þar stýrði hann bæði Karlakór Akureyrar og sameiginlegum kór nokkurra norðlenskra karlakóra. Þá stjórnar hann Kór Lögmannshlíðarsóknar á safnplötunni Unga kirkjan, sem kom út 1968.

Áskell sinnti félagsmálum í lifanda lífi, hann var formaður kirkjukórasambands Eyjafjarðar um tíma, var reyndar einn af stofnendum sambandins. Hann var einnig formaður Heklu, sambands norðlenskra karlakóra um tíma, og var virkur í ýmsum tónlistartengdum félagsskap, s.s. Félagi íslenskra orgelleikara, sem gerði Áskel síðar að heiðursfélaga eins og reyndar Karlakór Akureyrar líka. Hann stofnaði á sínum tíma orgelsjóð Glerárkirkju ásamt eiginkonu sinni. Áskell var heiðraður fyrir störf sín að tónlistarmálum með riddarakrossi.

Þegar Áskell varð níræður árið 2001 voru haldnir afmælistónleikar honum til heiðurs en á þeim tónleikum söng Schola Cantorum meðal annars lög hans, ennfremur voru haldnir minningartónleikar að honum látnum en Áskell lést árið 2002.