Stuðbúðin [annað] (1982-84)

Merki Stuð-búðarinnar

Plötuverslunin Stuðbúðin var starfrækt að Laugavegi 20 um skeið á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar en á þeim tíma var fjöldi plötuverslana á höfuðborgarsvæðinu. Stuðbúðin (sem stundum var einfaldlega kölluð Stuð) var frábrugðin flestum öðrum slíkum búðum að því leyti að þar var pönki og nýbylgju gert hátt undir höfði sem og annarri „jaðartónlist“ þess tíma en jafnframt hafði hún einnig á boðstólum svipað plötu- og kassettuúrval og aðrar plötuverslanir buðu upp á, verslunin var jafnframt „frjáls og óháð“ – ekki rekin af útgáfufyrirtæki eins og flestar aðrar slíkar. Stuðbúðin bauð einnig upp á gott úrval barmmerkja / brjóstnæla sem þá nutu vinsælda meðal ungs fólk en einnig gaf búðin út tónlistarblaðið Stuðblaðið, rak um skamma hríð tónlistarklúbbinn Stuðklúbbinn og bauð upp á tónleika og aðrar uppákomur þegar vel lá á þeim félögum en búðin var í eigu hlutafélagsins Stuð hf. sem þeir Sævar Sverrisson og Jens Kr. Guðmundsson héldu utan um.

Stuðbúðin opnaði vorið 1982 og starfaði þar til um sumarið 1983 en lokaði þá enda var rekstrargrundvöllurinn þá erfiður og samdráttur í plötusölu. Búðin opnaði þó aftur í desember og tórði fram yfir áramótin 1983-84 en lokaði þá aftur og þá endanlega.