Afmælisbörn 13. maí 2023

Gunnar Jökull Hákonarson

Afmælisbörn Glatkistunnar eru fjögur talsins í dag:

Tónskáldið Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson er sextíu og fimm ára gamall í dag. Hann bar fyrst á góma fjölmiðla á fyrri hluta áttunda áratugarins sem tónlistarmaður með hljómsveitinni Síberíu og síðar Melchior þar sem hann lék á gítar. Hann fór síðar í tónsmíðanám, fyrst í Reykjavík en síðan í Hollandi og hefur á síðari árum verið þekktari fyrir tónverk af ýmsu tagi fremur en spilamennsku, meðal verka hans má nefna Hjörturinn skiptir um dvalarstað, Systur í syndinni og Stokkseyri en Caput hópurinn flutti síðast talda verkið á plötu.

Sigurður Kr. Höskuldsson tónlistarmaður frá Ólafsvík er sjötíu og tveggja ára gamall í dag. Sigurður hefur bæði sent frá sér sólóefni og starfað með ýmsum hljómsveitum í gegnum tíðina, þeirra á meðal má nefna sveitir eins og Júnísvítuna, Lúkas, Ízak, Sveinsstaðasextettinn, Þúfnabana, Huldubörn, Klakabandið og Falcon.

Einar Markússon píanóleikari og tónskáld átti afmæli á þessum degi en hann fæddist 1922. Einar starfaði mestmegnis vestan hafs og fékk í raun aldrei neina viðurkenningu hér heima þrátt fyrir færni á sínu sviði. Einhverjar plötur komu út með honum ytra en litlar upplýsingar finnast um þær. Einar lést 1990.

Gunnar Jökull Hákonarson trommuleikari (1949-2001) hafði einnig þennan afmælisdag. Gunnar varð snemma þekktur fyrir hæfileika sína og starfaði í mörgum af þekktustu sveitum bítla og hippa á Íslandi. Þar má nefna Tilveru, Mána, Trúbrot og Flowers en hann hafði einnig leikið með sveitum eins og Garðari og Gosum, Tónum, Strengjum, Tempó, Tónabræðrum og Geislum. Hann starfaði einnig með hljómsveitinni Syn í Bretlandi um tíma. Margir þekkja sólóplötu Gunnars, Hamfarir, en hugtakið hamfarapopp er tengt þeim plötutitli.

Vissir þú að árið 1974 virðist hafa verið til hljómsveit sem bar nafnið Þvagpappír 74?