Einar Markússon (1922-90)

Einar Markússon

Einar Markússon

Einar Markússon píanóleikari starfaði lengstum í útlöndum og er af mörgum talinn sá Íslendingur sem hefur náð hvað mestri tækni í píanóleik, hann þótti þó mistækur og segja margir hann hafa getað orðið miklu betri í listgreininni.

Einar fæddist í Reykjavík 1922 og var náskyldur þeim söngsystkinum Maríu, Einari og Sigurði Markan en hann var bróðursonur þeirra. Hann nam píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Árna Kristjánssyni og Victor Urbancic, segir sagan að þegar til stæði að Einar myndi leika með djasshljómsveit í afleysingum samhliða námi sínu hafi Páll Ísólfsson skólastjóri skólans sett honum stólinn fyrir dyrnar, bannað honum að spila djass eða hætta ellegar í skólanum. Það hafi orðið til að hann hætti námi hér heima.

Einar lék bráðungur undir á tónleikum hjá Áttmenningunum (tvöföldum söngkvartett), með Hallbjörgu Bjarnadóttur og stundum með hljómsveit undir hennar skemmtunum (1943 og einnig síðar), hann lék oft einnig undir hjá Guðmundi Jónssyni söngvara en saman héldu þeir Einar og Guðmundur til Los Angeles í Bandaríkjunum haustið 1943, Einar í píanónám og Guðmundur í söng. Þar ílentist hann til haustsins 1946, hafði þá m.a. lært hjá Moritz Rosinthal sem nam hjá Franz Liszt á sínum tíma. Einar var virkur í félagslífi Íslendinga vestra og kom þar oft fram á tónleikum og öðrum samkomum auk þess sem hann lék á stærri tónleikum, einnig starfaði hann við kvikmyndatónlist í Hollywood og lék auk þess lítil hlutverk í kvikmyndum, samhliða píanónámi sínu. Einhverjar þeirra mynda rötuðu í kvikmyndahús Reykjavíkur nokkrum árum síðar, t.d. í Gamla bíó 1946. Einar lék ennfremur í hvers kyns klúbbum og mun t.d. hafa leikið með hljómsveit Dukes Ellington í nokkur skipti.

Einar var á þessum árum þegar farinn að semja sjálfur, hann mun hafa leikið sex verk inn á plötur og af þeim voru fjögur eftir hann sjálfan. Svo undarlegt sem það kann að hljóma neitaði Ríkisútvarpið að leika þær plötur þegar þær bárust því hver svo sem ástæðan var, yfirvöld höfðu jafnframt synjað honum um ferða- eða námsstyrk þegar til stóð að fara í námið vestra þannig að litla hjálp var að vænta af þeim bænum.

Þegar Einar kom heim til Íslands um haustið 1946 hélt hann fljótlega tónleika fyrir spennta Íslendinga, yfirleitt hlaut hann nokkuð góða dóma en þó afar slæma hjá áðurnefndum Páli Ísólfssyni fyrrum skólastjóra hans, sem skrifaði fyrir Morgunblaðið. Einar þótti e.t.v. of hallur undir modernísk djassáhrif í túlkun sinni, sem ekki þótti upp á pallborðið hjá íhaldssömum Páli. Þessi dómur varð tilefni blaðaskrifa um tónlistargagnrýnendur sem sumir þóttu fornir og íhaldssamir í hugsun sinni. Fáir mótmæltu því þó að Einar hefði tekið gríðarlegum framförum í námi sínu í Bandaríkjunum og þótti sérlega fær tæknilega séð, jafnvel svo að undrn sætti. Sú stimpill átti eftir að loða við hann út ferilinn en því miður einnig að hann þótti stundum mistækur þar sem einföldustu atriði áttu til að klikka á sama tíma og tæknilega erfiðustu slaufur urðu honum leikur einn, það var t.d. sagt um hann að hann hefði getað orðið einn sá besti í heiminum ef hann hefði bara nennt því.

Einar Markússon og Duke Ellington

Einar Markússon og Duke Ellington

Einar spilaði eitthvað á tónleikum áfram, starfrækti swing kvartett og samdi tónlist fyrir revíur svo eitthvað sé nefnt en hvarf síðan af sjónarsviðinu hér heima í tuttugu ár. Þá fluttist hann aftur til Bandaríkjanna og starfaði þar við tónlist sína, sagan segir að hann hafi haldið um fimm hundruð tónleika í Bandaríkjunum en auk þess vann hann áfram við kvikmyndir eins og hann hafði áður gert.

Einar lenti í slæmu bílslysi vestra og handabrotnaði illa, það varð til þess að um tíma hætti hann allri spilamennsku og sneri sér að viðskiptum (sem hann hafði reyndar eitthvað fengist við á námsárunum líka), þar kenndi ýmissa grasa, allt frá snyrtivörum til brotajárns og því fluttist hann til Bretlands og var líklega víðar í Evrópu áður en hann sneri aftur vestur um haf til Kanada, þar sem hann sneri sér aftur að tónlistinni.

Í kringum 1970 kom Einar aftur heim til Íslands, þá var hann flestum gleymdur hér heima. Hann fluttist austur í Hveragerði og hóf að kenna á píanó við tónlistarskólann þar og á Selfossi. Smám saman fór nafn hans aftur að birtast í fjölmiðlum í tengslum við tónlist, mest lék hann framan af á litlum samkomum á Suðurlandi en einnig eitthvað í höfuðborginni. Á þessum árum flutti hann eigin verk (etýður og annað) og annarra í Ríkisútvarpinu, sem hafa verið reglulega á dagskrá útvarpsins síðan þannig að smám saman varð nafn hans þekkt á nýjan leik, ekki síst fyrir undraverða tækni sem hann sýndi við hljóðfærið og var nú heyrinkunn nýjum kynslóðum. Hann lék ekki oft opinberlega á þessum kennaraárum sínum en varð þó fastur liður á dagskrá Háskólatónleika í Norræna húsinu á haustin um árabil og hlaut jafnan góða dóma fyrir.

Einar kenndi til dánardags 1990 og lék í síðasta skiptið örfáum vikum fyrir andlátið við vígslu nýs flygils í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.
Því miður er ekki að finna neinar skrár um útgefnar hljómplötur með leik Einars, umfjöllunin hér að ofan um plötur hans útgefnar í Bandaríkjunum og um að ríkisútvarpið hafi neitað að leika þær eru úr dagblöðum þess tíma. Því hljóta að vera líkur á að Ríkisútvarpið lumi á umræddum plötum með píanóleik Einars.