Einar Kristjánsson [2] (1911-96)

Einar Kristjánsson[2] frá Hermundarfelli

Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli

Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli í Þistilfirði (f. 1911) var fyrst og fremst kunnur fyrir ritstörf sín, skrifaði aðallega smásögur en einnig skáldsögur, ljóð og leikrit en hann var ennfremur þekktur dagskrárgerðarmaður í Ríkisútvarpinu um árabil. Það var því fyrst og fremst textasmíði hvers kyns sem lék í höndum hans og hafa nokkrir þeirra komið út á plötum, t.d. með Heimavarnarliðinu, en Einar var kunnur alþýðubandalagsmaður. Hann bjó lengstum á Akureyri og starfaði sem húsvörður í Barnaskóla Akureyrar.

Það sem færri vissu var að Einar var lunkinn harmonikkuleikari en tvöföld harmonikka var hans sérsvið ef svo mætti segja. Hann hafði lært á slíka harmonikku hjá sveitunga sínum Jóhannesi Guðmundssyni en einnig hjá frænda sínum, Guðjóni Einarssyni á Sævarlandi í Þistilfirði, og var hann vanur að leika á sveitaböllum þess tíma. Þeir frændur voru ekki einir ættingja sem voru tónlistarlega þenkjandi heldur má nefna í viðbót syni hans, Einar Kristján Einarsson gítarleikara (Rússíbanar, Keltar o.fl.) og Angantý Einarsson sem hefur leikið á gítar og önnur hljóðfæri, og svo barnabarnið Ásgrím Angantýsson hljómborðsleikara (Kokkteill, Nefndin o.fl.) svo einhver dæmi séu tekin.

Einar hafði ekki leikið á tvöfalda harmonikku um árabil þegar honum áskotnaðist ein slík snemma á áttunda áratugnum, hann greip tækifærið, hóf að æfa sig á nýjan leik og hafði samband við Svavar Gests hjá SG-hljómplötum sem gaf síðan plötuna út 1979. Á henni var að finna þrjátíu lög sem Einar lék ásamt fiðluleikaranum Garðari Jakobssyni. Platan hlaut fremur slaka dóma í Morgunblaðinu en góða í Dagblaðinu og seldist vel. Platan var endurútgefin haustið 2001 í tilefni af því að Einar hefði þá orðið níræður en hann lést 1996.

Efni á plötum