Sigurður Höskuldsson (1951-)

Siggi Hösk

Sjómaðurinn Sigurður Kr. Höskuldsson eða Siggi Hösk eins og hann er yfirleitt kallaður er líkast til þekktasti tónlistarmaður Ólafsvíkur en hann hefur sent frá sér nokkrar sólóplötur og í samstarfi við aðra, sem og starfað með mörgum hljómsveitum í þorpinu – þeirra á meðal má nefna Klakabandið sem hefur starfað þar í áratugi.

Sigurður Kristján Höskuldsson er fæddur 1951 og uppalinn í Ólafsvík og hefur búið þar alla sína ævi. Hann lærði vinnukonugripin á gítar hjá móður sinni og byrjaði hann að spila með skólahljómsveit í bænum fimmtán ára gamall en hún bar nafnið Falcon. Í kjölfarið fylgdu Júnísvítan, Lúkas, Ízak og svo Klakabandið sem enn er starfandi og hefur starfað í áratugi en Sigurður var gítarleikari og hugsanlega söngvari einhverra þessara sveita líka, einnig má nefna sveitir eins og Sveinsstaðasextettinn, Þúfnabana, Möl og S-bandið. Sigurður hefur jafnframt komið fram einn sem trúbador og hefur verið áberandi í tónlistarlífi Ólafsvíkinga í áratugi en hann hefur staðið fyrir fjölda tónlistartengdra viðburða í bænum um árabil, sumir þeirra hafa verið styrktar- eða fjáröflunartónleikar tengt einhverjum verkefnum.

Það mun hafa verið eftir 1990 sem Sigurður hóf að semja tónlist sjálfur og hans fyrsta lag kom út á safnplötunni Lagasafnið no. 5: Anno 1996. Það var honum greinilega hvati til að halda áfram á sömu braut því tveimur árum síðar kom út sólóplata með honum undir titlinum Gegnum glerið. Þetta var ellefu laga plata þar sem Jón Elfar Hafsteinsson var áberandi í hljóðfæraleiknum, sjálfur sá Sigurður að mestu um sönginn sjálfur en dætur hans tvær komu þar reyndar einnig lítillega við sögu. Lögin samdi hann öll sjálfur en flestir textarnir voru eftir Jón Bjarnason, plötuna gaf hann út undir útgáfumerkinu Klaki.

Sigurður fylgdi plötu sinni eitthvað eftir með spilamennsku bæði einn og með Klakabandinu og árið 2002 var komið að næstu plötu hans sem hann gaf út í samstarfi við hljómsveitina, sjálfur samdi hann alla tónlistina en sveitin sá um hljóðfærasláttinn. Sigurður hlaut styrk frá Ólafsvíkurbæ til útgáfunnar en sveitin átti tuttugu ára afmæli um það leyti, platan bar nafnið Heflaðir og hlaut ágæta dóma í DV.

Sigurður Höskuldsson

Eftir útgáfu plötu Klakabandsins hélt Sigurður sínu striki, lék áfram með sveitinni en var einnig að koma fram einn – hann var meðal lagahöfunda á plötunni Kyljur (2006) sem hafði að geyma tónlist úr söngleik byggðan á Bárðar sögu Snæfellsáss og árið 2007 hélt hann tónleika með frumsömdu efni ásamt Klakabandinu en hann hefur margoft komið fram á bæjarhátíðum í Ólafsvík s.s. Ólafsvíkurvöku, Færeyskum dögum og Vetrargleðinni, bæði einn, með hljómsveit og einnig í samstarfi við félaga sinn úr Klakabandinu og mág, Steina Kristó (Aðalstein Kristófersson).

Á síðustu árum hefur Sigurður tekið sig til við að koma fram ásamt systur sinni, Erlu Höskuldsdóttur og saman kalla þau sig Huldubörn (börn Huldu). Þau systkinin sendu frá sér tvær plötur undir Huldabarna-nafninu, annars vegar Um sumarmál árið 2013 þar sem Sigurður samdi lögin við ljóð Braga Jónssonar, og svo hins vegar árið 2015 þegar platan Heimabær kom út en þar er viðfangsefnið Ólafsvík og nærsveitir. Því miður eru upplýsingar um þessar tvær plötur af skornum skammti og er hér með því auglýst eftir þeim.

Hin allra síðustu ár hefur Sigurður verið að senda frá sér stök lög án þess að um opinberar útgáfur séu að ræða. Hann er enn í fullu fjöri og spilar reglulega með Klakabandinu en hefur í ljósi Covid aðstæðna meira verið einn með gítarinn og t.a.m. miðlað tónlist sinni í gegnum Netið, hann sendi t.d. frá sér tvö jólalög haustið 2020. Á síðustu árum hafa lög eftir hann komið út á plötum Birgis Gunnarssonar.

Sigurður hefur ávallt starfað á heimaslóðum í Ólafsvík og bæjaryfirvöld hafa þakkað fyrir sig m.a. með áðurnefndum útgáfustyrk en einnig var hann gerður að bæjarlistamanni Snæfellsbæjar árið 2008, þess má og svo geta að hann var heiðraður á sjómannadaginn 2019 fyrir 50 ára starf á sjó en hann var þá kominn í land.

Efni á plötum