Sigurður Hallmarsson (1929-2014)

Sigurður Hallmarsson

Húsvíkingurinn Sigurður Hallmarsson var sannkallað kamelljón þegar kom að listum en hann var allt í senn, tónlistarmaður, leikari og listmálari – aðalstarf hans alla tíð var þó kennsla.

Sigurður Hallmarsson (Diddi Hall) var fæddur (1929) og uppalinn á Húsavík og bjó þar nánast alla tíð, utan smá tíma sem hann var á Austfjörðum. Hann starfaði alla tíð við menntamál, sem kennari, skólastjóri og svo sem fræðslustjóri á Norðurlandi eystra en hann var þó einnig landsþekktur áhugaleikari og leikstjóri og þá sérstaklega framan af ævinni en hann var menntaður leikari einnig. Reyndar kom hann við sögu alls konar félagsstarfa, hann var virkur í Lions-hreyfingunni, var einnig hestamaður og starfaði við ýmisleg félagstörf í þeim geiranum, auk þess sem hann kom að málum skák- og íþróttafélaga svo nokkur dæmi séu nefnd.

Sigurður sinnti tónlist alla ævi í þeim örfáu tómstundum sem hann hafði en leiklistin var æði fyrirferðamikil þar sem og myndlistin en hann málaði töluvert og hélt t.a.m. sýningar á verkum sínum. Hann lék á harmonikku, sjálfmenntaður á hljóðfærið og komst fyrst í kynni við hana um fimm ára aldur en var farinn að leika á dansleikjum um fermingu – ein heimildin segir reyndar um tíu ára aldur. Á fimmta og sjötta áratugnum fór hann víða um og lék á dansleikjum, oft einn en einnig í samstarfi við aðra s.s. Guðna Friðriksson en einnig Ingimar Jónsson, og síðar í tríó með þeim Ingimari og Reyni Jónassyni. Sigurður var jafnframt söngmaður, fékkst eitthvað við söngkennslu, söng með Kirkjukór Húsavíkur og stjórnaði þeim kór reyndar einnig um tíma, þá má einnig geta þess að hann stjórnaði einnig Lúðrasveit Húsavíkur um skeið. Þá segir heimild að Sigurður hafi stjórnað karlakórnum Þrymi á einhverjum tímapunkti.

Tónlistin fékk aftur aukið vægi hjá Sigurði þegar tók að hníga að starfslokum og fleiri stundir til tómstunda gáfust, þá var harmonikkan dregin fram í dagsljósið og hann tók aftur til við að leika meira á hana. Hann var einn af stofnfélögum Harmonikufélags Þingeyinga og var virkur í starfsemi þess félags, hann stjórnaði t.d. hljómsveit félagsins um skeið og lék með sveitum félagsins – hann kom við sögu á einhverjum þeirra safnplatna sem félagið sendi frá sér sem og á plötu Aðalsteins Ísfjörð harmonikkuleikara. Hann var gerður að heiðursfélaga í HFÞ og hlaut reyndar einnig heiðursverðlaun SÍHU (Sambands íslenskra harmoniku unnenda).

Sigurður á forsíðu Harmonikublaðsins

Sigurður var duglegur að koma fram opinberlega með nikkuna síðustu æviárin, hann lék mikið á samkomum harmonikkufélaganna og var einnig að koma fram með tríói ásamt Ingimari Jónssyni gítarleikara og Borgari Þórarinssyni bassaleikara en þeir Sigurður og Ingimar sendu frá sér plötuna Karlarnir leika gömlu góðu lögin árið 2004, sem Borgar hljóðritaði. Einhverjum árum eða áratugum áður höfðu þeir Sigurður og Reynir Jónasson harmonikkuleikari hljóðritað nokkur lög inn á segulband hjá Sigurði Rúnari Jónssyni (Didda fiðlu) í Stúdíó Stemmu ásamt Árna Scheving bassaleikara og Guðmundi R. Einarssyni trommuleikara en það hafði að líkindum við fjölfaldað einvörðungu á kassettur og notað m.a. við danskennslu í skólum. Sigurður átti þátt í að endurgefa það efni út á geisladisk undir titlinum Dansinn dunar, hugsanlega í kringum 2010. Sjálfur samdi Sigurður tónlist en ekki liggur fyrir hvort einhver frumsamin laga hans er að finna á plötum.

Sigurður lét heilmikið til sín taka í spilamennskunni síðustu árin þrátt fyrir heilsubrest, hann lék nánast fram í andlátið á nikkuna bæði á harmonikkusamkomum sem fyrr segir en einnig við jarðarfarir og slíkar samkomur, þá stjórnaði hann síðustu æviárin Sólseturskórnum á Húsavík, blönduðum kór eldri borgara. Sigurður kom síðast fram opinberlega stuttu fyrir andlát sitt en hann lést haustið 2014, daginn fyrir áttugasta og fimmta afmælisdaginn.

Efni á plötum