
Sigurdór Sigurdórsson
Nokkrir tónlistarmenn koma við sögu afmælisskrár Glatkistunnar að þessu sinni:
Eyþór Arnalds söngvari og sellóleikari Todmobile er fimmtíu og átta ára gamall í dag. Hann er líkast til þekktastur fyrir veru sína í Todmobile sem naut gríðarlegra vinsælda á sínum tíma en hann starfrækti einnig dúettinn Bong. Áður hafði hann verið í sveitum eins og Kolossus-band og Tappa tíkarrassi. Eyþór hefur einnig unnið við kvikmyndatónlist, stýrt upptökum og sungið barnalög. Hann hefur í seinni tíð snúið sér meira að stjórnmálum en tónlist.
Eggert Gíslason í Maus er fjörutíu og sex ára gamall á þessum degi. Hann var bassaleikari í sveitinni, sem sigraði Músíktilraunir 1994 og gaf út nokkrar plötur í kjölfarið. Minna hefur farið fyrir honum í tónlistinni hin allra síðustu ár.
Þórarinn Þeyr Rúnarsson trommuleikari Meistara dauðans er nítján ára gamall en þessi ungi trommuleikari hefur vakið mikla athygli með hljómsveit sinni, sem gaf út samnefnda plötu fyrir nokkru.
Sigurdór Sigurdórsson söngvari hefði fagnað afmæli sínu í dag en hann lést á síðasta ári. Sigurdór söng með ýmsum þekktum danshljómsveitum á sínum tíma s.s. hljómsveitum Svavars Gests og Eyþórs Þorlákssonar en hann er þó þekktastur fyrir flutning sinn á Þórsmerkurljóðinu sem flestir þekkja undir nafninu María María.
Sigurður Hallmarsson harmonikkuleikari á Húsavík átti afmæli á þessum degi en hann lést árið 2014. Sigurður (f. 1929) lék á harmonikku á dansleikjum á sínum yngri árum, söng og stjórnaði kórum á Húsavík og stjórnaði lúðrasveit þar í bæ einnig samhliða kennslu en hann var kennari að aðalstarfi. Á efri árum var hann virkur í félagsstarfi harmonikkuleikara og sendi þá frá sér tvær plötur í samstarfi við aðra.
Einnig hefði Einar Kristjánsson óperusöngvari (f. 1910) átt afmæli á þessum degi en hann lést 1966. Einar sem var tenór starfaði allan sinn söngferil erlendis, mest í Danmörku og Þýskalandi og víst er að ef ekki hefði komið til heimsstyrjaldarinnar síðari hefði hann orðið stærra nafn. Hann söng inn á fjölmargar 78 snúninga plötur.
Vissir þú að á níunda áratug síðustu aldar var starfandi dúett undir nafninu Múgur og margmenni, gestir og gangandi?