Stundin okkar [annað] (1966-)

Rannveig og Krummi

Lífseigasti sjónvarpsþáttur íslenskrar fjölmiðlasögu er Stundin okkar en þátturinn hefur verið á dagskrá Ríkissjónvarpsins frá upphafi stofnunarinnar og allt fram á þennan dag.

Stundin okkar sem lengst af hefur verið á dagskrá sjónvarpsins á sunnudagseftirmiðdögum, hóf göngu sína í desember 1966 og var í fyrstu í umsjón Hinriks Bjarnasonar, þátturinn hefur síðan þá verið nánast sleitulaust fastur liður í sjónvarpsdagskránni en umsjónarfólk þáttarins hefur eftir eigin hætti mótað innihald hans hverju sinni með blöndu af leiknum atriðum, fræðslu og brúðu- og teiknimyndum.

Tónlist hefur alltaf skipað stóran sess í Stundinni okkar, allt frá því að Rannveig (Jóhannsdóttir) og Krummi önnuðust þáttagerðina og gáfu út eina plötu (1967) sem naut mikilla vinsælda og seldist í um tvö þúsund og fimm hundruð eintökum, og fram á þennan dag en nokkur fjöldi platna með tónlist úr þáttunum hefur litið dagsins ljós í seinni tíð og selst prýðilega en þær hafa þá haft að geyma aukaefni s.s. myndbönd við lögin og ósungnar útgáfur. Þá hafa ýmsar ógleymanlegar og þjóðþekktar „persónur“ orðið til í kringum þáttinn, sem margar hverjar hafa sungið inn á plötur beintengdar þáttunum og/eða öðlast framhaldslíf utan þeirra m.a. á plötum, hér má nefna Snæfríði og Stíg, Birtu og Bárð, Gunna og Felix, Smjattpattana, Brúðubílinn, Glám og Skrám, Þórð húsvörð og Palla (Pál Vilhjálmsson) svo nokkur dæmi séu nefnd.

Sirrý og Palli

Meðal fjölmargra þáttastjórnenda Stundarinnar okkar í gegnum tíðina má auk áðurnefndra Hinriks og Rannveigar nefna nöfn eins og Sigríði Margréti Guðmundsdóttur (Sirrý), Kristínu Ólafsdóttur, Helgu Steffensen, Ástu Hrafnhildi Garðarsdóttur, Bryndísi Schram, Björgvin Franz Gíslason, Ísgerði Elfu Gunnarsdóttir, Ívar Örn Sverrisson, Guðjón Davíð Karlsson, Þóru Sigurðardóttur, Jóhann G. Jóhannsson, Sigyn Blöndal, Gunnar Helgason og Felix Bergsson. Allra síðustu árin hafa kynningarnar í þáttunum verið í höndum barna.

Efni á plötum