Smellur [2] [fjölmiðill] (1997-2005)

Smellur

Tímaritið Smellur (hið síðara) kom út í kringum síðustu aldamót, það var ætlað unglingum og fjallaði um ýmis málefni tengd þeim aldurshópi, og skipaði tónlist þar veigamikinn sess.

Smellur hóf að koma út haustið 1997 á vegum Æskunnar en samnefnt tímarit fagnaði þá aldarafmæli og í tilefni af því var ákveðið að bæta hinu nýja tímariti við og var það einkum ætlað unglingum á meðan Æskan væri fyrir yngri lesendur.

Efni blaðsins var fjölbreytilegt en tónlist skipaði þar nokkurn sess og var íslensk tónlist af ýmsu tagi nokkuð áberandi í umfjöllunum blaðsins, þar mátti finna viðtöl og greinar um  tónlistarfólk allt frá Skítamóral, Landi og sonum, Birgittu Haukdal og annarri léttri tónlist upp í rokksveitir eins og Ensími og Leaves og jafnvel Sigur rós. Ein tíu laga safnplata kom út á vegum blaðsins árið 2002 og bar heiti þess, á henni var aðallega að finna efni með ungum og efnilegum hljómsveitum.

Smellur kom út um sjö ára skeið hið minnsta og komu út líklega allt að tíu tölublöð árlega. Fyrsti ritstjóri blaðsins var Elín Jóhannsdóttir en fleiri áttu eftir að stýra því s.s. Elfa Björk Ellertsdóttir, Lilja Sif Þorsteinsdóttir og Halldóra Sigurðardóttir.

Efni á plötum