Samúel [1] [fjölmiðill] (1969-70 / 1973-94)

timaritid-samuel

Forsíða Samúels 1977

Tímaritið Samúel naut mikilla vinsælda á sínum tíma en það hafði að geyma efni af margvíslegum toga, tónlistarumfjöllun skipaði stóran sess á síðum blaðsins og íslenskri tónlist var gert hátt undir höfði.

Það var Þórarinn Jón Magnússon sem ritstýrði blaðinu lengst af en hann hafði ritstýrt tímaritinu Toppkorn sem kom út í fáein skipti árið 1968. Ári síðar (sumarið 1969) kom fyrsta tölublað Samúels út en blaðið kom út næstu tvö árin við þokkalegar undirtektir. Það varð þó úr að Samúel sameinaðist öðru tímariti, táningablaðinu Jónínu sem hafði verið í eigu og ritstjórn Ástþórs Magnússonar ljósmyndara og menntaskólanema. Nýja blaðið fékk heitið Samúel & Jónína og kom út í tvö og hálft ár.

Samúel & Jónína hætti að koma út síðla árs 1972 og í kjölfarið hófst útgáfa Samúels á nýjan leik í febrúar 1973. Tímaritið sem til þess tíma hafði komið út í dagblaðsformi kom nú út í litprentaðri útgáfu og naut strax mikilla vinsælda.

Upplag Samúel rauk upp úr öllu og var um tíma um fimmtán þúsund eintök, líklega fór það hæst í 17.500 eintök þegar jólablaðið kom út 1977 en því fylgdi þriggja laga Dansplata (í formi rauðrar plastþynnu) sem innihélt þrjú vinsæl popplög er hljómplötuútgáfan Steinar hafði gefið út á árinu. Það var í fyrsta sinn sem slík plata kom út hérlendis.

Dansplata Samúels - ýmsir (2)

Dansplata Samúels

Samúel átti eftir að koma út til ársins 1994 oftast undir ritstjórn Þórarins en einnig komu Ólafur Hauksson, Ásgeir Tómasson, Þorsteinn Eggertsson, Ómar Valdimarsson og jafnvel fleiri við sögu þess og undirtímaritsins Samson sem kom út í örfá skipti. Tónlistarumfjöllun Samúels var alltaf áberandi og einn af stóru þáttum blaðsins.

Eitt af hliðarverkefnum Samúels voru hinar svokölluðu SAM-komur en það voru fjölmennar tónlistaruppákomur á vegum tímaritsins þar sem vinsælustu hljómsveitir og tónlistarfólk landsins kom fram.

Þórarinn ásamt Steindóri syni sínum hefur hin síðustu ár verið með eins konar stopula vefútgáfu af Samúel.

Efni á plötum