Samstilling [félagsskapur] (1982-97)

samstilling

Samstilling

Söng- og skemmtifélagið Samstilling var félagsskapur sem starfaði um fimmtán ára skeið seint á síðustu öld. Það mun hafa verið söngvaskáldið Bergþóra Árnadóttir sem hafði veg og vanda af stofnun félagsins haustið 1982 og starfaði það líklega fram á vorið 1997, þó ekki alveg sleitulaust.

Um var að ræða (misstóran) hóp fólks sem kom saman einu sinni í viku (á mánudagskvöldum) yfir vetrartímann til að syngja saman, einhvern hluta af starfstímanum annaðist Þorvaldur Örn Árnason einhvers konar söngstjórn. Þeir sem kunnu og gátu mættu ennfremur með hljóðfæri til undirspils. Samstilling hafði aðstöðu um tíma í Hljómskálanum en einnig var sungið í húsnæði við Hverfisgötu og víðar í miðbænum.

Þó svo að Samstilling kæmi einkum saman til að syngja í góðum félagsskap mun hópurinn einnig hafa haldið tónleika og sungið með öðru tónlistarfólki á tónleikum.

Að öllum líkindum var annar Samstillingarhópur starfræktur í Keflavík árið 1994 en heimildir um þann félagsskap eru af skornum skammti.