Smellur [1] [fjölmiðill] (1984-86)

Tónlistartímaritið Smellur

Tímaritið Smellur var tónlistartímarit ætlað ungu fólki og kom út um tveggja ára skeið um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Blaðið hafði að geyma blöndu íslensks og erlends efnis, þýddar greinar úr erlendum tónlistartímaritum og svo greinar og viðtöl við íslenskt popptónlistarfólk og hljómsveitir á borð við Grafík, Bubba Morthens, Ragnhildi Gísladóttur, Siggu Beinteins, Eirík Hauksson, Pax Vobis, Rikshaw og aðra sem þá nutu vinsælda meðal ungs fólks.

Það var Victor Heiðdal sem hleypti Smelli af stokkunum en hugtakið „smellur“ hafði þá nýverið fengið nýja merkingu, var þýðing á enska orðinu „hit“. Smellur kom fyrst út haustið 1984 og gekk prýðilega, tímaritið kom út á þriggja mánaða fresti í um fimm þúsund eintökum og seldist upplagið nánast alltaf upp en Victor ákvað að selja útgáfuréttinn á því haustið 1985 þar sem hann hafði hreinlega ekki nægan tíma til að sinna því. Pálmi Guðmundsson á Akureyri (oft kallaður Pálmi Bimbó enda rak hann hljóðver og plötuútgáfu undir sama nafni) keypti Smell og ætlaði að fjölga útgáfudögum þess, að það kæmi út mánaðarlega í stað ársfjórðungslega. Það gekk ekki sem skyldi, líklega af þeirri ástæðu að þá voru óvenju mörg tímarit á markaðnum fyrir þennan markhóp s.s. Æskan, Abc og Ung en tímaritið kom þó nokkrum sinnum út undir ritstjórn Pálma áður en hann lagði það niður sumarið 1986.