Sigurdór Sigurdórsson (1938-2021)

Sigurdór Sigurdórsson

Sigurdór Sigurdórsson er langt frá því að vera með þekktustu dægurlagasöngvurum íslenskrar tónlistarsögu en hann söng slagara sem allir hafa heyrt í hans meðförum og margir sungið með – Þórsmerkurljóð.

Sigurdór er fæddur (1938) og uppalinn á Akranesi en fluttist til Reykjavíkur á barns- eða unglingsaldri. Hann var átján ára gamall þegar hann hóf að koma fram opinberlega sem söngvari en þá hafði valið staðið annars vegar um söng- eða knattspyrnuferil hins vegar en hann þótti liðtækur knattspyrnumaður, hið fyrrnefnda varð ofan á því það gat gefið af sér þokkalegar tekjur sem íþróttirnar gerðu ekki.

Fyrstu opinberu samkomurnar sem Sigurdór söng á voru revíu- og kabarettsýningar, t.d. á vegum Íslenzkra tóna og fljótlega slóst hann í hóp ungra og efnilegra dægurlagasöngvara og söng m.a. á miðnæturskemmtunum í Austurbæjarbíói. Í kjölfarið hófst hinn eiginlegi söngferill þar sem hann söng með hljómsveitum eins og KK sextett, Hljómsveit Aage Lorange og Hljómsveit Svavars Gests en með síðast töldu sveitinni söng hann stórsmellinn um Maríu, Þórsmerkurljóð Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem kom út árið 1960 á tveggja laga plötu á vegum Íslenzkra tóna – það var svo endurútgefið ári síðar. Lagið sló í gegn og varð feikivinsælt í óskalagaþáttum Útvarpsins og Sigurdór þurfti að syngja það margsinnis hvert einasta kvöld á dansleikjum. Vart þarf að taka fram að lagið hefur komið út á ógrynni safnplatna.

Sigurdór Sigurdórsson

Hann átti síðan eftir að syngja með sveitum eins og Neo kvartettnum, Hljómsveit Karls Lilliendahl, Hljómsveit Óskars Guðmundssonar, Hljómsveit Sverris Garðarssonar, Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar og Hljómsveit Trausta Thorberg til ársins 1966 en þá hætti hann að mestu að syngja vegna starfs síns en hann hafði lært prentiðn eins og svo margir tónlistarmenn á þeim tíma, það mun einnig hafa verið að læknisráði en hann glímdi oft við hæsi vegna reyksins í samkomuhúsum landsins. Sigurdór þótti jafnframt liðtækur hagyrðingur og nokkrir dægurlagatextar munu liggja eftir hann en hann mun einnig hafa samið lög, dæmi um slíkt voru lög sem notuð voru til að auglýsa bækurnar um Dagfinn dýralækni og Múmínálfana í Sjónvarpinu.

Sigurdór starfaði um tíma sem íþróttafréttamaður og svo almennur blaðamaður hjá Þjóðviljanum, DV, Degi og síðast Bændablaðinu en samhliða því sinnti hann um tíma starfi fararstjóra á Spáni, og þar mun hann stundum hafa tekið lagið – Þórsmerkurljóð mun þar fremur hafa verið regla heldur en undantekning á prógramminu. Nokkrar bækur liggja einnig útgefnar eftir hann. Þegar tónlistar- og rokksýningar tengdar gamla rokkinu voru settar á svið á Broadway, Hótel Íslandi og víðar þótti Sigurdór ómissandi gestur og þannig var hann að koma stöku sinnum fram undir lok síðustu aldar.

Sigurdór lést haustið 2021, á áttugasta og fjórða aldursári.

Efni á plötum