Einar Kristjánsson [1] (1910-66)

Einar Kristjánsson um 1930

Einar Kristjánsson um 1930

Einar Kristjánsson óperusöngvari (f. 1910) er einn fremsti tenórsöngvari sem Íslendingar hafa átt, hann var jafnvígur á óperu- sem konsertsöng og starfaði sinn söngferil mestmegnis í Þýskalandi og Danmörku. Enginn vafi liggur á að vegur hans hefði orðið mun stærri hefði heimsstyrjöldin síðari ekki komið til.

Einar var fæddur og uppalinn í Reykjavík og þótti strax efnilegur söngvari á barnsaldri, reyndar var hann farinn að söngla áður en hann byrjaði að tala.
Hann söng einsöng tíu ára gamall með Barnakór Miðbæjarskólans, þrettán ára gamall var hann farinn að vekja athygli fyrir hæfileika sína og þegar hann var við nám í Menntaskólanum í Reykjavík var hann samtímis í Söngfélagi Mentaskólans, Söngfélagi stúdenta, K.F.U.M. kórnum (sem var undanfari Karlakórs Fóstbræðra) og Þingvallakórnum, sem settur var saman fyrir Alþingishátíðina 1930. Hann hafði þá þegar verið í söngnámi hjá Páli Ísólfssyni og Sigurði Birkis.

Vorið 1930 lauk Einar stúdentsprófi og stefndi hugur hans til útlanda til frekara náms. Til að fjármagna utanförina var hann m.a. trommuleikari í hljómsveit á Siglufirði um sumarið 1930 en aukinheldur hlaut hann styrk frá yfirvöldum til fararinnar. Hann hélt einnig einsöngstónleika um sumarið sem gerður var góður rómur að. Upphaflega átti söngnámið að vera eins konar aukafag en svo fór að söngurinn tók yfir allt. Fyrsta árið var hann í Austurríki en síðan hélt hann til Þýskalands og lauk söngnámi þar um áramótin 1932/33. Hann kom iðulega heim á sumrin og hélt hér tónleika sem voru vel sóttir og hlutu góða gagnrýni, og vorið 1933 söng hann inn á sína fyrstu plötu í Reykjavík, tvö íslensk lög. Platan kom út um haustið (endurútgefin 1955) og um svipað leyti hóf hann störf við óperuna í Dresden þar sem hann var ráðinn til reynslu til eins árs, hann hlaut síðan þriggja ára ráðningu að því loknu.

Einar Kristjánsson í La traviata 1953

Einar Kristjánsson í La traviata árið 1953

Fréttir fóru að berast heim til Íslands um söngsigra Einars í Þýskalandi og sem dæmi má nefna að hann var einn nokkurra óperusöngvara sem voru fengnir til að syngja fyrir Hitler og Göppels, það var árið 1934. Dómar þarlendra voru allir á sama veg en einnig voru gagnrýnendur hér heima hrifnir þegar hann söng á tónleikum á Íslandi. Næstu árin var Einar í Stuttgart og síðan Duisburg þegar heimsstyrjöldin hin síðari skall á af fullum þunga. Lítið fréttist af honum næstu árin heim til Íslands en megnið af styrjaldarárunum starfaði hann í Duisburg og síðan Hamborg. Einhverjar 78 snúninga hljómplötur virðast hafa komið út með honum í Þýskalandi á styrjaldarárunum en þær hafa ekki borist hingað til lands, á þeim er að finna söng hans í óperum. Þær voru eitthvað spilaðar í þýska ríkisútvarpinu en annars var Einar lokaður í landinu vegna stríðsástandsins. Það var því ekki fyrr en að stríði loknu sem eitthvað fréttist af honum og fjölskyldu hans en hann var þá giftur og tveggja dætra faðir.

Einar kom til Íslands sumarið 1946 en hafði þá ekki komið hingað í tíu ár, hér hélt hann fjölmarga tónleika og það átti hann eftir að gera reglulega næstu árin, hann hvatti ennfremur Íslendinga til að setja á stofn óperu og var hvatning hans án efa til að óperudeild var stofnuð nokkrum árum síðar við Tónlistarskólann í Reykjavík. Haustið 1946 söng hann fjögur íslensk einsöngslög inn á plötur í Bretlandi og komu þær plötur út á vegum Fálkans, reyndar eins og sú sem komið hafði út 1933.

Hann bjó og starfaði eftir stríð mest á Norðurlöndunum, fyrst við Konunglega leikhúsið í Svíþjóð en svo við Konunglega leikhúsið í Danmörku frá 1948. Hann fékk þó leyfi til að taka þátt í uppfærslum á óperum hér heima sem settar voru á svið í Þjóðleikhúsinu, til að mynda í Leðurblökunni 1952 og La Traviata árið eftir. 1949 komu út sex plötur sem innihéldu alls sextán lög, íslensk lög sem tekin voru upp í Reykjavík við undirleik Fritz Weisshappel.

Einar fluttist alfarið heim til Íslands ásamt fjölskyldu sinni haustið 1962 og tók þá við starfi kennara við áðurnefnda óperudeild Tónlistarskólans í Reykjavík sem þá var nýstofnuð. Um það leyti hætti hann að syngja og lét þá hafa eftir sér að sér þætti betra að hætta söng of snemma heldur en of seint. Einar starfaði við skólann hér heima þar til vorið 1966 sem hann veiktist skyndilega alvarlega og lést nokkrum dögum síðar.

Árið 1995 kom út tvöfalda safnplatan Ó leyf mér þig að leiða… sem hafði að geyma upptökur úr fórum Ríkisútvarpsins, einnig hafa áður útgefin lög með Einari komið út á safnplötum s.s. Gullöld íslenskra söngvara (1962), Einsöngsperlur (1978), Söngvasjóður (1993), Óskastundin (2002) og Í fjarlægð (2004).
Vala Einarsdóttir önnur dætra Einars nam óperusöng og lagði hann fyrir sig um tíma, söng m.a. í uppfærslum á óperum hérlendis en sonur hennar (og barnabarn Einars), Einar Örn Benediktsson (Purrkur pillnikk, Ghostigital o.fl.) er öllu þekktari tónlistarmaður og borgarfulltrúi.

Efni á plötum