
Einar Hólm
Einar Hólm Ólafsson söngvari og trommuleikari (f. 1945) kom víða við á tónlistarferli sínum. Hann hóf ferilinn sem trommuleikari, var t.d. í Pónik, Plató, Stuðlatríóinu, Örnum og Hljómsveit Gunnars Kvaran áður en hann gekk til liðs við Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar 1969 sem söngvari og trymbill en hann hafði einnig eitthvað sungið með fyrri sveitunum.
Með Magnúsi var hann í þrjú ár og söng ásamt Þuríði Sigurðardóttur, Pálma Gunnarssyni og fleirum, og þótti það liðtækur að Svavar Gests bauð honum að syngja á tveggja laga plötu sem kom út 1973. Þar söng hann erlend lög við ljóð Benedikts Axelssonar og hlaut þokkalega dóma fyrir í Morgunblaðinu. Lögin komu í kjölfarið eitthvað út á safnútgáfum, á Stóru bílakassettunni III (1979) og VII (1980) og Rökkurtónum (1987).
Einar söng næst með Næturgölum, var um tíma í Hljómsveit Ólafs Gauks og síðar í Lúdó og Stefán en tónlistin vék smám saman fyrir störfum hans við Skálatúnsheimilið þar sem hann sinnti forstöðumennsku, og síðar sem skólastjóri Öskjuhlíðarskóla.
Einar var um tíma í stjórn FÍH, hann var af miklum trommuleikaraættum enda sonur Ólafs Hólm sem var trommuleikari Hljómsveitar Bjarna Böðvarssonar um miðjan fimmta áratug síðustu aldar, sonur Einars er enginn annar en Ólafur Hólm (yngri) sem er einn kunnasti trommuleikari landsins (Nýdönsk, Todmobile o.m.fl.) en einnig er Þórir Hólm Jónsson (Cancer o.fl.) barnabarn Einars svo takturinn virðist ganga þarna í ættir.
Einar Hólm lést snemma vors 2023.