Söngfélag Seyðisfjarðar (1880-1900)

Söngfélag, fleiri en eitt starfaði á Seyðisfirði laust fyrir aldamótin 1900 og gengu að líkindum flest eða öll undir nafninu Söngfélag Seyðisfjarðar.

Árið 1880 stofnaði Valdimar Blöndal slíkt söngfélag og stjórnaði því en ekki liggur fyrir hversu lengi það starfaði, þá stofnaði Þorsteinn Stefánsson söngkennari annað félag haustið 1883 og starfaði það um veturinn og hélt svo tónleika um vorið. Söngfélagið Freyja (sjá sérumfjöllun) starfaði á framanverðum tíunda áratugnum og enn eitt söngfélag var undir lok aldarinnar starfrækt undir stjórn Geirs Sæmundssonar prests en hann var mikill söngmaður. Síðast talda söngfélagið virðist bæði hafa verið kirkjukór á Seyðisfirði og almennur kór því hann söng ýmist við kirkjulegar athafnir og á tónleikum í bænum. Það söngfélag var starfandi að minnsta kosti frá 1897 og framundir aldamótin en um það leyti var karlakórinn Bragi stofnaður á Seyðisfirði og virðist sem annað söngstarf hafi þá lagst af í bili.