Söngfélag prentara (1899-1904)

Söngfélag eða karlakór var stofnað innan Prentarafélagsins (Hins íslenska prentarafélags st. 1897) en prentarar voru þá tiltölulega ný starfsstétt iðnaðarmanna, félagið hlaut nafnið Söngfélag prentara og starfaði á árunum 1899 til 1904. Prentarastéttin var ekki fjölmenn á þessum upphafsárum en hátt hlutfall prentara tók þátt í söngstarfinu og voru á bilinu tólf til fimmtán söngmenn yfirleitt í kórnum.

Prentararnir fengu söngmálaforkólfinn Jónas Helgason til að kenna og stjórna söngnum og sungu þeir ýmist tví- eða þríraddað, þeir höfðu æfingaaðstöðu í herbergi í húsi Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur (Iðnó) og stundum að loknum söngæfingum fór hópurinn upp fyrir bæ eins og það var kallað, upp á Skólavörðuholtið og söng þar undir beru lofti. Kórinn mun hafa haldið eina opinbera tónleika en söng mestmegnis á innanfélagsskemmtunum prentara og annarra iðnfélaga s.s. árshátíðum o.þ.h.