Söngfélag Siglufjarðar (1958-63)

Söngfélag Siglufjarðar

Söngfélag Siglufjarðar var hluti af öflugu söng- og tónlistarstarfi því sem var í gangi á Siglufirði í kringum 1960 en þá störfuðu einnig í bænum Karlakórinn Vísir og Lúðrasveit Siglufjarðar auk þess hljómsveitin Gautar var þar afar vinsæl.

Söngfélag Siglufjarðar varð til fyrir tilstuðlan Sigursveins D. Kristinssonar sem þá var nýfluttur til Siglufjarðar og hann tók þegar til við að rífa tónlistarstarfið upp sem tónlistarkennari og hann stofnaði síðan Tónskóla Siglufjarðar í samvinnu við verkalýðsfélögin í bænum, sem starfaði náið saman með söngfélaginu t.a.m. með því að halda sameiginleg söngnámskeið.

Kórinn sem var blandaður var stofnaður formlega vorið 1958 en hafði þá í nokkra mánuði verið starfandi, hann varð strax öflugt söngfélag og kom oftsinnis fram á tónleikum á Siglufirði en einnig stærri verkefnum s.s. á hátíðarhöldum í tilefni af aldarafmæli sr. Bjarna Þorsteinssonar o.fl. Söngfélagið gekk fljótlega í Landsamband blandaðra kóra.

Söngfélag Siglufjarðar starfaði til 1963 en þá flutti Sigursveinn suður til Reykjavíkur og allir þekkja störf hans þar.