Hippabandið [2] (2000-12)

Hippabandið

Hippabandið var hugarfóstur Vestmanneyinganna Helgu Jónsdóttur og Arnórs Hermannssonar, og varð til í kringum hippastemmingu sem myndaðist í Eyjum eftir aldamótin.

Hippabandið var stofnað árið 2000 og var ekki áberandi framan af en þegar þau Helga og Arnór höfðu hleypt af stokkunum hippahátíð í Vestamannaeyjum í fyrsta sinn vorið 2002 varð sveitin sýnilegri. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina til að byrja með ásamt Helgu og Arnóri sem bæði sungu auk þess sem Arnór lék á gítar, þó gæti verið að Einar Hallgrímsson gítarleikari hafi þá einnig verið í henni.

Ári síðar, 2003 var Hippabandið átta manna og líklega var hún það mest allan tímann meðan sveitin starfaði – þá voru í henni auk Helgu og Arnórs, þau Arnar Sigurjónsson bassaleikari, Ágúst Ingvarsson ásláttarleikari, Grímur Þór Gíslason trommuleikari, Hrafnhildur Helgadóttir söngkona og trompetleikari, Páll Viðar Kristinsson hljómborðsleikari og Sæþór Vídó Þorbjarnarson söngvari og gítarleikari.

Hippabandið

Einhverjar mannabreytingar urðu í Hippabandinu, Jóhann Ágúst Tórshamar bassaleikari lék t.a.m. með sveitinni um tíma og árið 2008 voru Þröstur Jóhannsson bassaleikari og Karl Björnsson gítarleikari líklega komnir inn í hana í stað Jóhanns og Sæþórs. Fleiri gætu hafa komið við sögu sveitarinnar.

Sveitin lék tónlist frá hippatímabilinu en mest var það þó í léttari kantinum, hún lék á hippahátíðinni næstu árin allt þar til 2011 en þá var síðasta hátíðin haldin, hljómsveitin kom einnig heilmikið fram utan hátíðarinnar, bæði í Eyjum s.s. á Goslokahátíðinni og á Þjóðhátíð og uppi á meginlandinu en hún lék margoft á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

Hippabandið starfaði til ársins 2012 en hætti þá störfum, hún kom þó aftur saman árið 2018 og lék þá líklega í eitt skipti en engar upplýsingar er að finna um hvernig hún var þá skipuð.