Afmælisbörn 22. júní 2016

Lárus Ingólfsson revíusöngvari1

Lárus Ingólfsson

Þrjú afmælisbörn úr tónlistargeiranum koma við sögu í dag:

Eva Mjöll Ingólfsdóttir fiðluleikari á fimmtíu og fjögurra ára afmæli. Hún er af miklum tónlistarættum, nam fiðluleik hér heima á Íslandi áður en hún hélt til Belgíu, Sviss og Hollands til framhaldsnáms, hún menntaði sig einnig í Bandaríkjunum í tónsmíðum og hljómsveitastjórnun. Tvær plötur hafa komið út með fiðluleika Evu, 1995 og 1998 en einnig hefur hún leikið á plötum Pólýfónkórsins t.a.m. Eva bjó um tíma í Japan en hefur búið í Bandaríkjunum að mestu hin síðustu ár.

Guðrún (Ólöf) Gunnarsdóttir söng- og útvarpskona er fimmtíu og þriggja ára. Guðrún hóf sinn söngferil með MK kvartettnum á menntakólaárunum fyrir og um miðjan níunda áratug síðustu aldar, og stuttu síðar með hljómsveitinni Svefngölsum sem gaf út plötu 1986. Fljótlega fór að bera á henni við ýmis söngverkefni og undankeppni Eurovision, síðar Landslagskeppnin og Sæluvikukeppnin urðu hennar vettvangur sem og gestasöngur á plötum annarra s.s. Geirmundar Valtýssonar o.fl. Guðrún hefur gefið út nokkrar sólóplötur og nokkrar einnig með Friðriki Ómari Hjörleifssyni, sungið með Snörunum og á fjölmörgum plötum annarra listamanna.

Að síðustu má nefna Lárus Ingólfsson revíusöngvara og leikara (1905-81). Á tónlistarsviðinu var hann fyrst og síðast gaman- og vísnasöngvari, og vinsæll sem slíkur en hann var einnig menntaður leikmynda- og búningahönnuður. Þótt Lárus hafi fyrst og fremst verið leikari má heyra rödd hans á nokkrum plötum, bæði sem hafa að geyma leikrit og lög úr leikritum, mestmegni barnaleikritum eins og Dýrin í Hálsaskógi, Kardimommubænum o.þ.h.