Afmælisbörn 22. ágúst 2016

Jón Kr. Ólafsson

Jón Kr. Ólafsson

Tvö tónlistartengd afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Stórsöngvarinn frá Bíldudal, Jón Kr. (Kristján) Ólafsson er sjötíu og sex ára. Jón vakti fyrst landsathygli með bílddælsku hljómsveitinni Facon en áður hafði hann reyndar sungið með Kvartettnum og Kristjáni, og Hljómsveit Jóns Ástvaldar Hall. Eftir að sögu Facons lauk starfaði Jón um tíma í Reykjavík, og söng þá með Hljómsveit Jóns Sigurðssonar en flutti því næst aftur vestur og hefur búið þar síðan. Þar setti hann á fót tónlistarsafnið Melódíur minninganna en einnig kom út ævisaga Jóns Kr. með sama nafni. Þrjár plötur hafa komið út með söng Jóns Kr. auk þess sem söng hans er að finna á nokkrum öðrum safnplötum.

Einnig á Birgir Ísleifur Gunnarsson tónlistarmaður afmæli í dag en hann er þrjátíu og sex ára. Hann hefur starfrækt og starfað í hljómsveitum eins og Motion boys sem vakti athygli fyrir nokkrum árum en einnig má nefna (Blús)Byltuna, Stóns og nú síðast Tungl.