Ingunn Bjarnadóttir (1905-72)

ingunn-bjarnadottir

Ingunn Bjarnadóttir

Alþýðutónskáldið Ingunn Bjarnadóttir var uppgötvuð fyrir tilviljun en eftir hana liggur ógrynni sönglaga sem varðveist hafa fyrir tilstilli góðra manna.

Ingunn fæddist í A-Skaftafellssýslu 1905, var elst fimmtán systkina og byrjaði snemma að semja tónlist, elsta varðveitta lagið hennar er síðan hún var fjórtán ára en hún hafði ekki tök á að raddsetja laglínur sínar þar sem hún hafði ekki til þess menntun eða aðstöðu.

Hún flutti fremur ung að heima, starfaði á Seyðisfirði og giftist þar en skildi við mann sinn og fluttist aftur í heimabyggð þar sem hún kynntist síðari eiginmanni sínum, Hróðmari Sigurðssyni. Þau fluttust til Hveragerðis haustið 1946 en Hróðmari bauðst þar kennarastaða, og þar áttu þau eftir að búa þar til æviloka.

Ingunn hafði ekki haft hátt um tónsmíðaiðju sína, hún hafði t.a.m. ekki lært á hljóðfæri en sagði Hróðmari frá því að hún semdi lög, hann kunni að skrifa nótur og raddsetti einhver laganna og setti sig í samband við dr. Hallgrím Helgason tónskáld og tónvísindamann og sendi honum efni eftir Ingunni. Hallgrími leist vel á og bað um fleiri og svo fór að hann kom í raun tónsmíðum Ingunnar á framfæri. Fyrir hans frumkvæði voru allmörg laganna raddsett og gefin út í sönglagasafnheftum, ennfremur voru nokkur þeirra frumflutt á tónleikum Söngfélags verkalýðsins í Reykjavík (SVÍR) sem hann hélt utan um.

Ingunn lést vorið 1972 eftir nokkur veikindi en Hróðmar hafði þá látist nokkuð fyrr.

Meðal þekktustu laga Ingunnar eru Glókollur og Amma raular í rökkrinu sem hún samdi við ljóð Jóhannesar úr Kötlum en síðarnefnda lagið varð síðan titill plötu sem gefin var út síðla árs 1975 til að halda minningu hennar á lofti. Á þeirri plötu er að finna tuttugu laga hennar í flutningi þjóðþekktra söngvara og kóra, og má þeirra á meðal nefna Kristin Hallsson, Sigríði Ellu Magnúsdóttur og Kór Langholtskirkju en dr. Hallgrímur hafði haft veg og vanda að útsetningum og var einn þeirra sem stóð að útgáfu plötunnar, upptökurnar voru frá ýmsum tímum.

Fjölmargir hafa nýtt sér þann fjölda laga sem Ingunn skildi eftir sig og bæði kórar og einsöngvarar hafa flutt tónlist hennar á tónleikum, þá má geta þess að Ásgerður Júníusdóttir og Bergþóra Árnadóttir hafa gefið út lög eftir hana á plötum sínum. Einnig mun Ingunn sjálf hafa kveðið rímur á plötu sem Fálkinn gaf út um miðjan sjöunda áratuginn undir heitinu Íslenzk rímnalög.

Tvö sönglagahefti voru gefin út með lögum Ingunnar á níunda áratugnum að frumkvæði dr. Hallgríms Helgasonar en alls er talið um að hún hafi skilið eftir sig um þrjú hundruð lög, um fimmtíu þeirra hafa verið raddsett og skrifuð á nótur.

Efni á plötum