Ingólfur Guðbrandsson (1923-2009)

ingolfur-gudbrandsson1

Ingólfur Guðbrandsson

Ingólfur Guðbrandsson var frumkvöðull og brautryðjandi með tvenns konar hætti í íslensku samfélagi, annars vegar á tónlistarsviðinu, hins vegar á sviði ferðamála.

Ingólfur fæddist vorið 1923 á Kirkjubæjarklaustri þar sem hann ólst upp. Hann fékkst eitthvað við tónlist í æsku, lék t.a.m. á orgel en þegar hann fluttist til Reykjavíkur hófst hinn eiginlegi tónlistarferill.

Hann lærði á píanó, tók söngkennarapróf við Kennaraháskólann samhliða því að nema þar almenn kennslufræði og var síðan í tungumálanámi við Háskóla Íslands. Ingólfur hélt síðan til London til frekara tónlistarnáms með söng sem aðalfag en píanó og kóra- og hljómsveitastjórnun sem aukafög, hann nam einnig ensku og hljóðfræði.

Að námi loknu í Bretlandi kom Ingólfur heim og hóf kennslu við Laugarnesskóla, þar stjórnaði hann þremur barnakórum og stóð fyrir því að stofnuð var fiðlusveit innan skólans, hann var ennfremur upphafsmaður morgunsöngsins við skólann en hann er sunginn þar enn í dag.

Ingólfur var á þessum tímapunkti ekkert hættur í námi og hélt 1955 til Þýskalands og nam þar framhaldsfræði í kórstjórnun, í Köln, Augsburg og síðan Flórens á Ítalíu.

Þegar heim var komið hlaut Ingólfur stöðu námsstjóri tónlistarfræðslu hjá menntamálaráðuneytinu, hlutverk hans var þ.á.m. að halda námskeið fyrir söngkennara í skólum, oft með erlendum gestakennurum. Í starfi sínu stóð hann fyrir útgáfu á söngvabók með fimmtíu söngvum (Fimmtíu fyrstu lögin) og samhliða því (1960) kom út plata með nokkrum þeirra, Tíu lög úr bókinni „Fimmtíu fyrstu lögin“, á þeirri plötu stjórnaði Ingólfur barnakór og hljómsveit. Ingólfur varð ennfremur skólastjóri Barnamúsíkskólans í Reykjavík og kenndi söng í einkakennslu.

Árið 1957 stofnaði Ingólfur Pólýfónkórinn og með stofnun þess kórs urðu viss tímamót í sögu blandaðra kóra á Íslandi en kórinn var gagngert stofnaður til að sinna stærri verkefnum en fram til þess tíma höfðu kórar mestmegnis sungið hefðbundin kóralög, íslensk ættjarðarlög og þess konar tónlist. Pólýfónkórinn mun þannig hafa breytt landslagi íslenskrar kóramenningu nokkuð og fært hana upp á mun hærra plan.

ingolfur-gudbrandsson

Ingólfur Guðbrandsson

Ingólfur stjórnaði Pólýfónkórnum til ársins 1988 þegar hann var lagður niður, eða í rúmlega þrjá áratugi, og komu út fjölmargar plötur með söng kórsins þar sem hann flytur verk á borð við Messías eftir Händel og Jólaoratoríu Bachs. Oftar en ekki stýrði Ingólfur stærri hljómsveitum sem léku undir söng kórsins, s.s. Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Enn eru að koma út plötur með kórnum undir merkjum Pólýfónfélagsins sem stofnað var til að halda utan um gamlar upptökur og gefa þær út.

Þó hér sé einkum fjallað um tónlistarferil Ingólfs er ekki hjá því komist að nefna að hann var einnig ferðamálafrömuður og frumkvöðull mikill á því sviði. Hann stofnaði ferðaskrifstofuna Útsýn 1955 og stýrði henni til 1988, síðar stofnaði hann og stýrði ferðaskrifstofununum Prima og Heimsklúbbi Ingólfs og var því í fararbroddi í að kynna Íslendingum ferðir á sólarstrendur og á framandi slóðir.

Ævisaga Ingólfs, Lífspegill – Ingólfur Guðbrandsson, kom út haustið 1989 en hún var rituð af Ingólfi sjálfum í félagi við Svein Guðjónsson.

Ingólfur hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín á tónlistar- og ferðamálavettvanginum. Hann hlaut fálkaorðuna, var gerður að heiðursfélaga Félags íslenskra tónmenntakennara, hlaut ítölsku riddaraorðuna Cavaliere della repubblica, var útnefndur Capo dell‘Ordine „Al merito della repubblica Italiana“ og hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2008 en þau voru veitt honum í upphafi árs 2009 aðeins fáeinum vikum áður en hann lést áttatíu og sex ára gamall vorið 2009.

Af Ingólfi er kominn mikill fjöldi tónlistarfólks og er margt þeirra þekkt á sínu sviði, meðal barna hans má nefna Þorgerði kórstjóra Hamrahlíðarkórsins, Rut fiðluleikara, Unni Maríu fiðluleikara, Ingu Rós sellóleikara (sem gift er Herði Áskelssyni organista), Evu Mjöll fiðluleikara og Árna Heimi tónlistarfræðing sem öll hafa fengist við tónlist með einum eða öðrum hætti.