Ingveldur Hjaltested (1934-2022)

ingveldur-hjaltested

Ingveldur Hjaltested

Ingveldi Hjaltested sópransöngkonu hefur verið skipað á bekk meðal fremstu söngkvenna landsins en eftir hana liggja tvær plötur og fjöldi tónleika.

Ingveldur Lárusdóttir Hjaltested fæddist vorið 1934 og var fljótlega ljóst að þar færi efnileg söngkona, eldri systir hennar var Sigurveig Hjaltested en hún var ellefu árum eldri en Ingveldur.

Á yngri árum söng hún í barnakórnum Sólskinsdeildinni og vann sér m.a. til frægðar að syngja á tónleikum með Pétri Á. Jónssyni óperusöngvara sem þá var á hátindi frægðar sinnar. Ingveldur lærði einnig á orgel og píanó sem barn.

Ingveldur mun alltaf hafa stefnt að því leynt og ljóst að gerast óperusöngkona og nam í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar en einnig hlaut hún grunnleiðsögn í söng hjá ekki ómerkari söngkennurum en Guðmundi Jónssyni, Sigurði Demetz og Maríu Markan. Hún fór aukinheldur til Bretlands og Þýskalands og tók styttri söngnámskeið þar.

Ingveldur söng í Þjóðleikhúskórnum frá stofnun hans 1953 og í um fimmtán ár, og söng ennfremur einsöng á fjölda tónleika, ýmist ein með undirleikara eða með kórum, bæði hér heima og erlendis s.s. í Færeyjum, Bandaríkjunum og víðar.

Ingveldur hætti að mestu leyti að syngja um 1970 og þar með má segja að fyrri hluta söngferils hennar hafi lokið. Síðari hlutinn hefst í raun fimm árum síðar þegar hún hóf eiginlegt söngnám hjá Þuríði Pálsdóttur við nýstofnaðan Söngskólann í Reykjavík, þá um sumarið (1975) var hún einnig í Belgíu við söngnám. Í kjölfarið byrjaði Ingveldur aftur að syngja á opinberum vettvangi.

Þetta sama ár söng hún sitt fyrsta óperuhlutverk en það var í Carmen, síðar fylgdu stór hlutverk í óperum á borð við La Bohéme, Orfeus og Evridís og Cavalleria Rusticana, tvöföld plata kom út með tónlistinni úr síðast töldu óperunni en það var í fyrsta skipti sem slíkt var gert hérlendis.

ingveldur-hjaltested1

Ingveldur Hjaltested

Þótt aðalstarf Ingveldar hafi verið í banka var hún áberandi í söngsviðinu á þessum árum, þá vann hún einnig við að raddþjálfa kirkjukóra og aðra kóra um skemmri tíma. Hún söng einsöng ennfremur með fjölda kóra sem fyrr og má þar t.d. nefna Snælandskórinn og Ölfuskórinn en sá kór samanstóð af nokkrum smærri kirkjukórum úr Ölfusinu, með þeim kór ferðaðist Ingveldur alla leið til Jerúsalem og einsöng á fæðingarkirkjutorginu á aðfangadagskvöld fyrir tugi þúsunda gesta en athöfninni var einnig sjónvarpað um allan heim.

Rómað er samstarf þeirra Ingveldar og Jónínu Gísladóttur píanóleikara en þær héldu tónleika víðs vegar um landið og reyndar einnig í Svíþjóð og Færeyjum. Þær stöllur störfuðu líka saman á tveimur plötum sem komu út með einsöng Ingveldar. Sú fyrri kom út haustið 1982 hjá SG-hljómplötum og hét Sextán einsöngslög, og fimm árum síðar kom út tvöfalda breiðskífan Ingveldur Hjaltested syngur, Jónína Gísladóttir leikur með á píanó. Þá plötu gaf Ingveldur út sjálf og hlaut hún afar góðar viðtökur, mjög góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta í DV einnig.

Söng Ingveldar má einnig finna á plötu Lóuþræla (1994) þar sem hún söng einsöng, jólaplötunni Jólasálmar (1982) auk fyrrnefndar plötu með tónlistinni úr óperunni Cavalleria Rusticana (1983).

Ingveldur lést sumarið 2022.

Efni á plötum