Samkór Akureyrar (1936-40)

engin mynd tiltækÞegar Þjóðverjinn Robert Abraham (Róbert A. Ottósson) flúði hingað til lands 1935 undan ágangi nasista í Þýskalandi settist hann fyrst um sinn að á Akureyri. Þar kenndi hann við tónlistarskólann og var um tíma mjög áberandi í akureysku tónlistarlífi.

Eitt af verkum hans nyrðra var að stofna Samkór Akureyrar 1936 en hugtakið samkór var þá tiltölulega nýtt í íslensku. Kórinn var blandaður kór sem Róbert stjórnaði allt þar til hann flutti suður til Reykjavíkur en þar átti hann einnig eftir að hafa heilmikil áhrif og reyndar á tónlistarlíf Íslendinga allra.

Róbert hafði uppi mikla fagmennsku við stjórn kórsins og var umdeildur einkum vegna þess að margir þeirra sem höfðu sungið með Kantötukór Akureyrar, sem var stolt bæjarins, fóru yfir í samkórinn sem þótti af mörgum vera betri og hafa uppi fagleg vinnubrögð. Kórarnir tveir elduðu því saman grátt silfur og var nokkur spenna í akureyska kórasamfélaginu um tíma enda kepptu kórarnir tveir um besta söngfólkið í bænum.

Samkór Akureyrar, sem oft var kallaður Abrahamskórinn, var lagður niður þegar Róbert flutti suður árið 1940.