Kantötukór Akureyrar (1932-55)

Kantötukór Akureyrar

Kantötukór Akureyrar

Kantötukór Akureyrar bar á sínum tíma vitni fjölbreytilegs og metnaðarfulls tónlistarlífs á Akureyri, og gaf meira að segja út tvær plötur á fjórða áratugnum. Kórinn var að öllum líkindum fyrsti blandaði kórinn utan höfuðborgarsvæðisins, sem ekki var kirkjukór.

Kórinn var stofnaður haustið 1932 af Björgvini Guðmundssyni tónskáldi en hann var þá nýfluttur heim til Íslands eftir langa veru í Vesturheimi. Björgvin hafði háar hugmyndir um sjálfstætt starfandi kórasamfélag á Akureyri og braut þannig blað í tónlistarmenningu bæjarins.

Kantötukór Akureyrar var nafnlaus fyrsta árið en hlaut síðan nafn sitt af því að hann flutti í upphafi Hátíðar-kantötu Björgvins, Íslands þúsund ár, sem hann hafði sent í samkeppni sem haldin var í tengslum við Alþingishátíðina 1930. Milli sjötíu og áttatíu manns skipuðu þá kórinn en karlkyns meðlimir hans komu úr Karlakórnum Geysi og Kór Menntaskólans á Akureyri, kvenraddir kórsins komu hins vegar héðan og þaðan úr bænum en enginn kvennakór var þá starfandi á Akureyri fremur en víðast hvar annars staðar á landsbyggðinni. Einsöngvarar í verkinu voru Hermann Stefánsson, Hreinn Pálsson og Gunnar Pálsson en mikill mannfjöldi sótti kantötu-tónleikana.

Kórinn flutti kantötuna einnig í útvarpi frá Akureyri en það var að öllum líkindum í fyrsta sinn sem útvarpað var frá Akureyri en Ríkisútvarpið var á þessum árum tiltölulega nýstofnað.

1933 komu út fjögur lög á tveimur 78 snúninga plötum með söng kórsins en þær upptökur fóru einnig fram norðanlands, fleiri upptökur voru gerðar en þær eyðilögðust.

Segja má að starfsemi Kantötukórs Akureyrar hafi náð fyrri hápunkti sínum með flutningi kantötunnar, útgáfu platnanna og útvarpsflutningnum 1933 en frá og með þeirri stundu fjaraði smám saman undan kórnum í bili. Kom þar margt til, önnur söngverkefni sem komu í kjölfarið þóttu ekki eins áhugaverð og meðlimir kórsins sem tilheyrðu Geysi voru oft uppteknir í öðum verkefnum en auk þess virtist sem áhugi kórmeðlima færi almennt þverrandi. Ekki batnaði heldur ástandið þegar Robert Abraham (Róbert A. Ottósson) kom til bæjarins og stofnaði fljótlega Samkór Akureyrar, og „rændi“ fjölmörgum kórmeðlimum úr kórnum.

Haustið 1936 var einn kórmeðlimanna, Guðrún Þorsteinsdóttir ráðin til að raddþjálfa kórinn, það sama ár söng kantötukórinn við konungsheimsókn Kristjáns X og ári síðar fór hann í söngferð til Reykjavíkur. Á heimleiðinni kom kórinn við á Ísafirði og hélt þar tónleika. Og kórinn hélt oftar tónleika utan Akureyrar þann tíma sem hann starfaði.

1940 var Akureyrarkirkja vígð og um það leyti fékk kórinn æfingaaðstöðu í kapellu hennar, samhliða því fékk nýstofnaður Kirkjukór Akureyrarkirkju nokkrar raddir úr Kantötukórnum sem var þá hluti af samstarfi kóra og kirkju.

Kantötukór Akureyrar 1947

Kantötukór Akureyrar 1947

Kantötukór Akureyrar var alltaf nokkuð umdeildur meðal Akureyringa og segja má að hann hafi t.d. staðið í hálfgerðu stríði við Samkór Akureyrar sem fyrr segir en sá kór mun hafa verið stofnaður sumpart til höfuðs kantötukórnum en mörgum þótti Björgvin stjórnandi gera frumsömdu efni óþarflega hátt undir höfði. Þeir hinir sömu áttuðu sig ekki á að kórinn var einmitt stofnaður til að flytja kantötu Björgvins. Reyndar var þarna mestmegnis um að ræða hálfgerðar ofsóknir eins manns sem réðist að Björgvini og kórnum með látum í blaðagreinum í Degi, þeim linnti ekki fyrr en Björgvin lét til sín taka í svargrein.

Verk Björgvins voru hins vegar áfram í forgrunni á fimmta áratugnum, Örlagagátan og Strengleikar eru dæmi um tónverk sem kórinn flutti eftir hann en það var síður en svo að kórinn flytti eingöngu verk Björgvins.

Þegar kórinn flutti óratoríuna Strengleika eftir Björgvin 1947 var það unnið í samstarfi við Karlakór Akureyrar og flutt bæði norðan heiða og sunnan, ákveðið hafði verið að verkið yrði tekið upp á vegum Ríkisútvarpsins um haustið en af því varð ekki þá þar sem nokkru fyrr hafði hörmulegt flugslys í Héðinsfirði sett strik í reikninginn, þar höfðu tuttugu og fimm manns farist í þessu mannskæðasta flugslysi Íslandssögunnar þá, og treysti fólk sér ýmist ekki til að fljúga suður auk þess sem flug varð eitthvað stopult um nokkurra mánaða skeið í kjölfarið.

Kórinn hafði verið nokkuð öflugur þarna um tíma og 1946 hafði hann einmitt verið aðili að stofnun Tónlistarbandalags Akureyrar sem hafði m.a. að markmiði að efla tónlistarlíf í bænum, en frestunin á upptökunum varð til að nokkuð fækkaði í kórnum en einnig gekk mænuveikifaraldur yfir Akureyri sem leiddi til þess að samkomubann vegna smithættu var í gildi.

Það má því segja að kórstarfið hafi legið að miklu leyti niðri næstu árin, 1947-50, og að öllum líkindum hefði starfsemi kórsins lagst alveg af ef honum hefði ekki borist boð um að taka þátt í norrænu kóramóti í Stokkhólmi í Svíþjóð sem fulltrúi Íslands, fyrir sumarið 1951. Þetta var sú innspýting og hvatning sem kórinn þurfti, æfingar hófust á fullu og áhuginn glæddist á nýjan leik. Karlakór Akureyrar og Geysir léðu Kantötukór Akureyrar raddir og þegar ferðalagið hófst sumarið 1951 var komið við í Ríkisútvarpinu og Strengleikarnir loksins teknir upp. Sagan segir hins vegar að upptökurnar hafi týnst og ekki fundist síðan.

Í kjölfarið má segja að síðari hápunkti sögu Kantötukórs Akureyrar hafi verið náð, kórinn gerði vel á norræna kóramótinu og vann þar til annarra verðlauna, en kórstjórarnir voru tveir í þessari frægðarför – auk Björgvins var Áskell Jónsson titlaður stjórnandi. Kórinn fór víðar um Svíþjóð í ferðinni og hélt fjölda tónleika, og þegar heim var komið var slegið upp móttökuathöfn og tónleikum í Tívolíinu í Vatnsmýrinni.

Í framhaldinu virðist sem smám saman hafi byrjað að fjara undan starfseminni og lítið fór fyrir kórnum í blaðaumfjöllunum næstu misserin. Björgvin sem stofnaði hafði kórinn og stýrt honum frá upphafi hætti vorið 1955 og í kjölfarið hófst leit að eftirmanni hans. Aldrei stóð til að kórinn hætti en leitin að nýjum stjórnanda virðist ekki hafa borið árangur og því lagðist starfsemi Kantötukórs Akureyrar að lokum niður.

Þótt endanlegt dánarvottorð kórsins væri í raun ekki gefið út fyrr en 1962 þá var hann raunverulega hættu um leið og Björgvin hætti.

Margt þekktra manna og kvenna sungu í Kantötukór Akureyrar í upphafi, bræðurnir Steinþór og Þorgeir Gestssynir frá Hæli, Jón frá Ljárskógum og Jakob Hafstein sem allir voru meðlimir MA-kvartettsins, Snorri Sigfússon og Guðrún Jóhannesdóttir skólastjórahjón á Akureyri og börn þeirra Örn síðar rithöfundur og Anna síðar dagskrárgerðarkona en þau voru þá á skólaaldri, Hreinn Pálsson, Ingimundur Árnason stjórnandi karlakórsins Geysis o.m.fl.

Efni á plötum