
Róbert A. Ottósson
Róbert A. Ottósson var einn margra tónlistarmanna af gyðingaættum sem hingað til lands flúði í kringum styrjaldarárin. Flestir þeirra ílentust hérlendis, gerðu margt gott fyrir íslenskt tónlistarlíf og var Róbert einn þeirra.
Róbert (fæddur Robert Abraham) var sem fyrr segir af gyðingaættum. Hann fæddist í Þýskalandi 1912, lærði á píanó og hóf fljótlega að semja tónlist sjálfur, Róbert lærði síðan hljómsveitastjórnun, tónlistarsögu og tónfræði en hann nam sín tónlistarfræði í Þýskalandi og síðar Frakklandi, fluttist síðan til Kaupmannahafnar þar sem hann starfaði áður en hann hörfaði til Íslands undan ofsóknum nasista árið 1935.
Hér á Íslandi bjó hann og starfaði fyrst um sinn á Akureyri að ráði Páls Ísólfssonar, en 1940 flutti hann suður til Reykjavíkur. Fyrir norðan kenndi hann á píanó og stjórnaði Samkór Akureyrar svo dæmi séu tekin en sunnan heiða urðu störfin fjölbreyttari og fleiri, til að mynda lék hann á fjölda einleikstónleikum og stjórnaði einnig mörgum kórum. Þeirra á meðal voru Söngfélagið Harpa, Karlakór iðnaðarmanna, Samkór Reykjavíkur og Útvarpskórinn (hinn síðari). Hann var meðal stofnenda Söngsveitarinnar Fílharmoníu og stýrði henni lengi, stjórnaði oftsinnis Sinfóníuhljómsveit Íslands eftir að hún var stofnuð 1950, auk annarra sveita en einnig sinnti hann kennslu við Tónlistarskólann og Barnamúsíkskólann, svo dæmi séu nefnd.
Róbert var mikill fræðimaður í tónlistarfræðum, ritaði doktorsritgerð um Þorlákstíðir, varð dósent við Háskóla Íslands og kenndi m.a. tónsöng við guðfræðideildina þar. Hann stofnaði Tónskóla þjóðkirkjunnar og varð söngmálstjóri þjóðkirkjunnar, þá er fátt eitt talið í þeim efnum.
Róbert var skrautlegur karakter á margan hátt og til eru margar sögur af honum, hann var gríðarlega nákvæmur og mátti ekkert fara úrskeiðis þegar hann var annars vegar, annars gat hann átt það til að lesa mönnum rækilega pistilinn og jafnvel rífa hár sitt í bræði.
Fræg er sagan af því er hann var að stjórna hljómsveit í Iðnó á óperunni Miðlinum þegar fiðluleikara varð á að spila falskt, þá stöðvaði hann flutninginn, rauk út úr húsinu og strunsaði hringinn í kringum Tjörnina (sumir segja þrjá hringi) á meðan honum rann reiðin. Hann var orðinn rólegur þegar hann kom aftur inn í húsið og biðu áhorfendur og hljómsveit á meðan þessu stóð, fæstir áttuðu sig þó líklega á því hvað gerðist.
Róbert bjó hér á landi til æviloka og kvæntist íslenskri konu, hann lést í Svíþjóð vorið 1974 aðeins sextíu og tveggja ára gamall, en hann var þarlendis í fyrirlestraferð.
Nafn Róbert kemur ekki við sögu á mörgum plötum, píanóleik hans er þó að heyra á þriggja laga (78 snúninga) plötu með söng Þuríðar Pálsdóttur óperusöngkonu en einnig komu út á sínum tíma nokkrar plötur sem hafa að geyma söng og leik kóra og hljómsveita sem hann stýrði, m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Nokkrum árum eftir lát Róberts kom út plata sem hafði að geyma upptökur með Söngsveitinni Fílharmóníu og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Róberts, en hún var gefin út í minningu hans og bar titilinn Róbert A. Ottóson in memoriam. Upptökurnar voru frá tónleikum í Háskólabíói haustið 1966.